gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Til Cambridge – Langþráður draumur rætist · Heim · Hundrað börn Lenu »

Bernskuminning: Blaðamaður eða boxari!

Gunnlaugur A. Jónsson @ 15.33 27/8/04

Þegar ég var á bilinu sjö til níu ára og bjó á Selfossi var ég oft spurður þeirrar spurningar hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Það er út af fyrir sig ekki í frásögur færandi enda börn iðulega spurð þessarar spurningar. En svar mitt vakti jafnan óskipta athygli og gjarnan hlátur fullorðna fólksins. Ég svaraði nefnilega ætíð á sama veg: „Annað hvort blaðamaður eða boxari.”

Þessari minningu skaut upp í huga mér áðan er ég var á hefðbundinni göngu minni í veðurblíðunni eftir göngustígnum út að Gróttu og þaðan út að golfvellinum á Suðurnesi. Mér varð hugsað til þess að íþróttaáhugi minn hefði snemma vaknað þó ekki hafi ég virst mikið efni í íþróttamann nema þá helst í fótboltanum þar sem ég þótti fljótt ágætlega liðtækur.

Áhuginn á boxinu var þannig til kominn að á þessum árum kepptu Svíinn Ingemar Johannsson og Bandaríkjamaðurinn Floyd Patterson um heimsmeistaratitilinn í hnefaleikum og tókst Svíanum að rota Bandaríkjamanninn og verða heimsmeistari þó að Ingemar missti titilinn fljótlega aftur í hendurnar á Floyd, eins og við strákarnir kölluðum þá alltaf þ.e. notuðum fornöfnin Ingemar og Floyd, eins og Íslendinga er siður.

Sigur Svíans vakti mikla athygli og voru myndir á forsíðu Morgunblaðsins af viðreign hans og Bandaríkjamannsins, myndir sem ég man vel eftir enn þann dag í dag.

Á þessum árum sótti ég oft sunnudagaskóla hjá Hvítasunnumönnum á Selfossi enda mun skemmra fyrir mig að fara til þeirra heldur en í Selfosskirkju, vestur í bæ (en þangað kom ég vissulega oft með foreldrum mínum enda prestshjónin sr. Sigurður Pálsson og Stefanía Gissurardóttir miklir vinir foreldra minna).

Forstöðumaður Hvítasunnumanna á Selfossi var Norðmaður að nafni Kivik, elskulegur maður og kunni að hafa ofan af fyrir strákum. Við vorum nokkrir guttar sem vorum í frímerkjaklúbbi hjá honum (þar lærði ég nöfnin á nokkrum fyrstu forsetum Bandaríkjanna og hef ekki gleymt síðan).

En hann kenndi okkur líka að ramma inn myndir og lagði okkur til gler og annað sem til þurfti. Við komu hins vegar með myndirnar sjálfir. Ég kom með ljósmyndir úr dönsku blöðunum Hjemmet og Familie Journal sem móðir mín (hálfdönsk!) var jafnan áskrifandi að. Þar var að finna fínar myndir af hnefaleikakeppni þeirra Ingemar Johannsonar og Floyd Patterssonar.

Þarna fæddist sem sé áhugi minn á því að verða blaðamaður og/eða boxari. Blaðamaður varð ég um þriggja ára skeið að loknu guðfræðiprófi en boxið á ég enn eftir og líkurnar á að þau æskuáform mín rætist úr þessu fara óðum minnkandi:) En áhuginn á íþróttum er enn til staðar. Blaðamennsku- og íþróttaáhugann hef ég svo sameinað með að skrifa eitthvað á vefsíðu mína um íþróttir, t.d. frásagnir af handboltakeppni íslenska liðsins á Olympíuleikunum í Aþenu.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2004-08-27/15.33.14/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli