gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Gefum til hjálparstarfsins · Heim · Að hefja nýtt ár í húsi Guðs »

Á afmælisdegi mömmu 27. desember 2004. – Fáein minningarbrot um Selmu Kaldalóns móður mína (1919-1984)

Gunnlaugur A. Jónsson @ 16.51 31/12/04

Nú í vikunni (27.12) hefði móðir mín, Selma Kaldalóns, orðið 85 ára. Í tilefni dagsins sló ég í inn á tölvuna nokkur minningarbrot um hana. Í þessum mánuði eru jafnframt liðin tuttugu ár frá því að hún lést af völdum slyss sem hún varð fyrir. Afmælisdagurinn varð mér tilefni til að hugleiða hver voru helstu einkenni móður minnar, enda hefur mig lengi langað til að skrifa eitthvað í minningu hennar. Það geri ég fyrst og fremst fyrir sjálfan mig og e.t.v. nánustu ættingja. Í þeim tilgangi tel ég að vefsíðan sé ágætur vettvangur enda eru hér engin leyndarmál á ferðinni og allir þeir sem kíkja á síðuna mína eru að sjálfsögðu velkomnir að lesa. Það sem hér fer á eftir er skrifað undirbúningslaust og í nokkrum flýti, það er því óhjákvæmilegt að samhengið sé tilviljunarkennt. Þetta eru minningarbrot, að mestu einfaldlega sett fram í þeirri röð sem þau koma í hugann.

Hvernig man ég mömmu, hvað mat ég mest í fari hennar? Hvernig kona var hún, hvernig móðir? Á hvern hátt hafði hún áhrif á mig og hve mjög mótaði hún mig? Það er augljóst er að allir foreldrar hafa áhrif á börn sín. Ég er þar sannarlega ekki undantekning og geri mér grein fyrir því að ég er að ýmsu leyti mjög mótaður af mömmu og sennilega hefur hún haft meiri áhrif á mig en faðir minn þó að ég hafi ekki mikið leitt hugann að því.

Ég þykist vita að vitnisburður systkina minna yrði að ýmsu leyti annar en minn, svo oft hefur það gerst þegar við höfum rifjað upp atvik úr uppvexti okkar að á daginn hefur komið að við upplifðum atburði á mjög mismunandi hátt, okkar bar oft á tíðum alls ekki saman um hvað hefði gerst eða hvernig. Þetta eru enda mín minningabrot og ekki á ábyrgð annarra en mín.

Skrifaðar minningar mömmu

Ekki liggur fyrir mikið af skrifuðu efni frá hendi mömmu. Hún hafði löngum annað og meira við tímann að gera en að sitja við skriftir. Þó kann það að reynast meira en jafnvel okkur sem næst henni stóðu grunar. Hún skrifaði nefnilega lifandi og skemmtileg sendibréf til okkar barnanna, a.m.k. þeirra sem dvöldust erlendis og það hafa mörg okkar gert um langt árabil eða áratugi. Hún skrifaði vissulega ekki mikið eða oft en bréf hennar báru vitni um góðu frásagnargáfu, hún hafði lag á að segja frá því sem manni þótti máli skipta.

Frá námsárum mínum í Lundi minnist ég þess að mér þótti alltaf fengur í bréfunum frá henni, pabbi skrifaði oftar og eins og af meiri ræktar- og samviskusemi en bréf hans voru ætíð stutt og fluttu ekki miklar fréttir þó að vissulega þætti mér alltaf vænt um þau einnig. Ekki hef ég varið þessum kuldalega vetrardegi milli jóla og nýjárs í að leita uppi neitt af bréfunum frá mömmu en dagurinn varð mér þó áminning þess að full ástæða er fyrir okkur börn hennar að gera það.

Ekki man ég eftir nema einni frásögn eftir móður mína sem birst hefur í bók. Þar er um að ræða kaflann ‘Minningar Selmu’ í bók Gunnars M. Magnúss um föður hennar Sigvalda S. Kaldalóns lækni og tónskáld, Man ég þann mann. Bókaflokur um mæta menn (Skuggsjá 1973). Mér finnst ástæða til að vitna aðeins í lýsingar hennar á föður sínum:

Í þessum kafla lýsir hún meðal annars dvölinni í Flatey en þar var faðir hennar læknir á árunum 1926 til 1929. Hún skrifar :

‘Í Flatey var hrein paradís fyrir börn. Þar var allt svo yndislegt í umhverfinu, allt iðandi af lífi fyrir augum barnsins, húsdýrin í kringum okkur og fuglarnir kvakandi og syngjandi á sjó og landi. Við vorum í leik uppi í grasi vaxinni eynni eða í fjörunni, og langt í burtu eygðum við fjöllin, en bátar komu siglandi úr öllum áttum og gufuskipin komu og lögðust á leguna og ferðafólkið kom og fór, stundum fjölmennir hópar. Það var mikið ævintýri að fylgjast með öllu þessu iðandi lífi og undravert að sjá sjóinn allt í kring, en fjöllin brún eða blá í fjarska.

Ég man eftir því að það var mjög gestkvæmt hjá foreldrum mínum, stundum kom fjöldi fólks og það var gleði og glaumur á heimilinu.

Ég vaknaði oftast við músík á morgnana og sofnaði við músík á kvöldin. . . Pabbi var mikill náttúruunnandi og fór oftast daglega í langar gönguferðir, þegar heilsan leyfði, oft raulandi og virðandi fyrir sér náttúruna, litbrigði blóma og steina. . .

Hann var yndislegur faðir, alltaf ljúfur og elskulegur, og hjónaband hans og mömmu var með ágætum. Þau voru ólík, en samhent í öllu, sem máli skipti, bæði voru gestrisin, greiðug og hjálpsöm. Mamma var ómúsíkölsk, en örvaði hann og hjálpaði honum, svo að hann hefði sem mest næði við tónsmíðar sínar. . . .’

Frá Grindavíkurárunum minnist hún þess m.a. hvernig lög pabba hennar urðu til:

‘Hann samdi þegar hann var í stemningu, og mér fannst alltaf til um hann á þeim stundum. Hann samdi stundum úti á göngu, og raulaði þá fyrir munni sér lagstúf og spilaði strax þegar hann kom heim. Oft samdi hann líka seint á kvöldin eða á nóttunni. Það kom líka fyrir, að hann reis frá matborðinu og gekk að hljóðfærinu til þess að leika það, sem þá sótti á hann.

Hann hafði þörf fyrir að láta aðra njóta með sér og stundum fór hann út á götu og mætti kannski sjómanni, sem var að koma upp úr skipi, og sagði við hann: — Komdu snöggvast inn með mér, ég ætla að spila fyrir þig lag, það er nýtt lag.’

Afa mínum kynntist ég ekki, hann lést sex árum áður en ég fæddist í þennan heim, hann dó eftir erfið og langvarandi veikindi árið 1946 aðeins 64 ára. Mamma varð líka aðeins 64 ára og ekki fer á milli mála að hún átti margt annað en það sameiginlegt með föður sínum.

Skyldleiki mömmu við föður sinn – tónlistargáfan

Þegar skyleika mömmu við Sigvalda, föður sinn, ber á góma hlýtur maður jafnan fyrst að nefna tónlistargáfuna. Mamma var mjög músíkölsk, þá gáfu hafði hún fengið í vöggugjöf eins og faðir hennar. Hún lærði fyrst á hljóðfæri úti í Flatey, fékk fáeina tíma hjá Rögnu Sveinsdóttur. Pabbi hennar veitti henni hins vegar enga tilsögn í þessum efnum en vafalaust hefur tónlistin sem stöðugt hljómaði á heimilinu veitt henni innblástur og orðið henni örvun.

Á Grindavíkurárunum naut hún um skeið tilsagnar danskar kennslukonu er dvaldi um hríð á heimili foreldra hennar, ekki síst í þeim tilgangi að kenna henni á hljóðfæri. Þessi unga en vel menntaða danska kona, Elsa Stender, hefur líka orðið til að styrka dönskukunnáttu móður minnar sem hún lærði annars af móður sinni, hinni dönsku hjúkrunarkonu Karen Margrete. Mamma var því tvítyngd, talaði lýtalausa dönsku og oft öfundaði ég hana af því þó að fremur hafi ég verið stoltur af henni.

Pétur Pétursson útvarpsþulur komst vel að orði og hitti naglann á höfuðið er hann sagði í útvarpsviðtali við mömmu árið 1976 að tónlist hennar ætti það sameiginlegt með tónlist föður hennar að einkennast annars vegar af lotningu og tilbeiðslu og hins vegar af kurteislegum lífsfögnuði.

Mamma hafði hins vegar lítið næði til að þroska tónlistargáfu sína eða láta hana njóta sín. Hún giftist föður mínum Jóni Gunnlaugssyni lækni 6. maí 1944 og árið 1947 voru dætur þeirra orðnar þrjár og alls eignuðust þau níu börn á átján ára tímabili, fimm dætur og fjóra syni. Þar með var ekki öll sagan sögð því að mörg barnabarnanna voru löngum stundum hjá henni og elsta barnabarnið ólst alveg upp hjá henni auk þess sem jafnan var mikill gestagangur á heimilinu.

Engu að síður samdi mamma talsvert mikið af lögum og mörg þeirra minna á lög Sigvalda föður hennar. Hún notaði hvert tækifæri sem gafst til að setjast við hljóðfærið, þangað sótti hún hvíld og andlega uppörvun frá hinum mjög svo annasömu heimilsstörfum. Mér finnst jafnvel að ég geti sagt það sama um bernskuár mín og hún um sín, það er: Ég sofnaði oft við músík á kvöldin og vaknaði við músík á morgnana. Þó held ég að mamma hafi spilað enn meira á kvöldin en á morgnana, kannski einfaldlega vegna þess að það var líklegra að eitthvert næði gæfist til að setjast við hljóðfærið á kvöldin en á morgnana.

Margrét systir mín sagði við mig á dögunum, er ég ræddi þessi mál við hana, að henni væri minnissætt hve lund mömmu léttist auðheyrilega þegar hún settist við hljóðfærið í önn dagsins. Fyrstu lögin sem hún spiluðu voru oft ekkert sérlega glaðvær en þegar á leið færðist eins og fjör í leikinn, tónlistin varð sífellt léttari og glaðværari og leyndi sér ekki að mamma komst einfaldlega í betra skap við að spila. Þar fékk hún kærkomna hvíld og andinn lyfitist í hæðir, hún komst í stemmningu!

Eitt sitt svaraði mamma því aðspurð að hún hefði tekið að semja lög eða tónsmíðar sér til hugarhægðar og fyrir börnin. Fyrsta lag sitt samdi hún á Reykhólum árið 1948. Pabbi var þó í sjúkra­vitjun úti á Breiðafirði og hún ein heima með þrjár litlar dætur. Það var blindbylur úti og hún væntanlega verið kvíðin vegna eiginmannsins úti á firðinum í slíku veðri. Hún fletti upp í ljóðabók og rakst á kvæðið ‘Gamla konan’ eftir Guðmund Guðmundsson skólaskáld. Það hafði þau áhrif á hana að nær samstundis varð til lag. Þetta lag hennar hefur mér alltaf þótt mjög fallegt og þar leynir sér ekki að hún hafði til að bera hæfileika á þessu sviði. Mörg laga hennar urðu til á þennan hátt, þ.e. hún las ljóð sem höfðaði til hennar og samdi við það lag.

Það lag hennar sem mér hefur alltaf þótt vænst um varð einnig til á Reykhólum. Hér á ég við lagið ‘Örlög’. Bæði er það að lagið er sérlega fallegt og ekki síður hitt að það var pabbi samdi ljóðið en hann samdi ljóð við nokkurra laga hennar eða þá öfugt að hún samdi lag við ljóð hans. Fyrir mig skiptir þó ekki minnstu að lagið var tileinkað mér. Þó að ég fæddist í Reykjavík á heimili dönsku ömmu minnar inni í Skipasundi þá var það á Reykhólaárum foreldra minna. Í ljóðinu kemur fyrir ljóðlínan: ‘Sofðu ljúfi sonur minn …’

Ef nefna ætti uppáhaldsskáld mömmu þá yrði það sennilega Stefán frá Hvítadal enda samdi hún lög við nokkur ljóða hans, m.a. grípandi lag við ljóð hans ‘Skýldu mér.’

Náttúruunnandi

Mamma var ekki síður náttúruunnandi en faðir hennar. Ég minnist sumardaga frá Selfossárunum þegar hún notaði tækifærið ef pabbi var ekki að nota bílinn og keyrði þá upp í Þrastarskóg, til Hveragerðis eða á einhvern annan fallegan stað í nágrenni Selfoss, gjarnan með smurt brauð eða annað nesti í tösku og svo var leituð uppi falleg laut til að njóta ilmsins frá birkinu í sumarblíðunni, fuglasöngsins og fegurðar náttúrunnar. Þessar bernskuminningar eru mér dýr­mætar.

Mamma talaði oft um að það hafi verið eins og paradís fyrir börn að alast upp í Flatey og það hafi verið henni mikil sorg að flytja þaðan 1. des. 1929 er hún var rétt að verða tíu ára. Fuglalífið þar hafi verið yndislegt, mikið af blómum sem hún hreifst af og svo varð það fegurð eyjanna á Breiðafirði sem heillaði hana í barnslegri hrifnæmni hennar.

Henni þóttu vistaskiptin vond í fyrstu er foreldrar hennar fluttust frá Flatey til Grindavíkur en svo lærði hún að meta þann stað einnig, gekk oft á Þorbjörn, á tímabili sagðist hún hafa gert það á hverjum degi og jafnan ein síns liðs. Svo heillaðist hún einnig af hrauninu, skynjaði ýmsar myndir í því og fann hellisskúta og eftir að hún lærði að synda fór hún oft og synti í sjónum ásamt danskri kennslukonu sem faðir hennar réði um skeið á heimilið til að kenna henni.

Frá Selfossárunum er mér minnisstætt hvað mömmu þótti mikilvægt að hafa gott útsýni út um gluggana sem sneru að Ingólfsfjalli og öðrum þeim fjöllum sem blöstu við, einkum út um borðsstofugluggann. Þegar gesti bar að garði tók hún þá jafnan að borðstofuglugganum og taldi upp með nafni öll þau fjöll sem blöstu við þaðan.

Á Seltjarnarnaresi þótti henni ekki minna um vert að sjá Snæfellsjökulinn blasa við úr stofuglugganum, oft baðaðan í kvöldsólinni. Þannig var fegurð náttúrunnar henni alltaf mikils virði.

Sambandið við vini barna sinna

Það var líka áberandi einkenni í fari mömmu hversu auðvelt hún átti með að umgangast börn og unglinga. Vinir og vinkonur okkar systkinanna voru enda yfirleitt mjög óþvinguð inni á heimili foreldra minna, létu þar eins og þau væru heima hjá sér. Ein þessara vinkvenna, Elísabet Brekkan, bar vitni um þetta í fallegri minningargrein um mömmu.

Mér er minnissætt er mamma var síðast hjá mér úti í Lundi í Svíþjóð í ágústmánuði 1984 er ég var þar við doktorsnám. Pabbi var á fundi í Rótarý­hreyfingunni inni í Malmö en mamma hafði snúið sig á fæti á leiðinni til Svíþjóðar og hvíldi sig heima hjá okkur í íslensku stúdentanýlendunni í Lundi. Í fallegu síðsumar­veðrinu settist hún fyrir utan íbúðina og tók að teikna með tússpennum, eins og hún gerði svo gjarnan, og það var ekki að sökum að spyrja að krakkar úr hverfinu flykktust að henni og lét hún sér það vel líka, spjallaði góðlátlega við þau en mörg þeirra voru íslensk. Mér finnst þetta minningarbrot dæmigert fyrir það hve börn löðuðust að henni.

Einn af mínum bestu vinum, Júlíus Vífill Ingvarsson bekkjarbróðir minn úr MR, kom oft heim til okkar á Skólabraut 61 á Seltjarnarnesi. Erindi hans var ekki alltaf að heimsækja mig heldur oft á tíðum að æfa ýmis sönglög afa míns og/eða mömmu við undirleik hennar. Hann var meðal þeirra söngvara sem söng nokkur lög á hljómplötu mömmu. Aðrir söngvarar þar voru Guðrún Tómasdóttir (sem oftast æfði með mömmu), Elísabet Eiríksdóttir, Elín Sigurvinsdóttir að ógleymdum Kristni Sigmundssyni sem nú er orðin stórstarna úti í heimi.

Húsmóðirin

Móðir níu barna á mjög opnu heimili í fjögurra hæða húsi þar sem jafnan var mjög gestkvæmt. Sú staðreynd segir strax sina sögu um hlutskipti móður minnar og við hvaða aðstæður hún bjó. Á Selfossárunum (1954-1965) var það algengt að sjúklingar og skjólstæðingar föður míns bönkuðu upp á og þess voru dæmi að sumir þeirra dveldu um alllangt skeið á hinu mannmarga heimili okkar. Það er því hafið yfir allan efa að húsmóðurhlutverk hennar var bæði annasamt og erfitt þó að á vissum tímabilum hafi hún haft konu sér til aðstoðar á heimilinu við þvotta eða annað slíkt.

Ég minnist þess að mamma talaði þá oft um hvað hún þráði að komast í hús á einni hæð, það væri svo mikil vinna að þrífa allt þetta stóra hús og fætur hennar voru ekki til að auðvelda henni þann starfa, þeir báru augljós merki um að hún hafði alið mörg börn.

Á þessum árum var það venja að það væri heitur matur bæði í hádeginu og á kvöldin og við systkinin komum heim úr skólanum á mjög mismunandi tímum. Alltaf beið matur í eldhúsinu stóra sem líktist sennilega meira mötuneyti í litlu fyrirtæki. Oft kom fyrir að 12-14 manns sætu þar til borðs í einu.

Líklega voru Selfossárin (1954-1965) henni einna erfiðust sem húsmóður enda held ég að hlutfallslega fáar tónsmíðar hennar séu frá þeim árum. Hún var strax farin að semja falleg lög á Reykhólaárunum en faðir minn var héraðslæknir í Barða­strandarsýslu með búsetu á Reykhólum á árunum 1947-1953. Svo þegar þau voru flutt hingað á Seltjarnarnesið í árslok 1965 tók við öðru vísi tímabili. Mörg barnanna voru þá vaxin úr grasi eða a.m.k. komin á unglingsár og meira næði fór að gefast til tónsmíða eða annarrar listrænnar sköpunar. Mamma lét sér nefnilega ekki nægja tónlistina heldur tók að mála á postulín, sótti námskeið í þeirri iðju og gerðist einnig félagi í myndlistarklúbbi Seltjarnarness og málaði og teiknaði fjölmargar myndir sem bera vitni um listræna tjáningarþörf hennar þó að mest og best hafi hún tjáð þá þörf í tónum.

En heimilið var eftir sem áður stórt og mannmargt, gestagangur mikill. E.t.v. mætti segja að móðir mín hafi haft til að bera hæfilegt og nauðsynlegt kæruleysi sem húsmóðir til að komast í gegnum allt það sem á henni hvíldi. Metnaður hennar lá ekki í því að baka tíu smákökusortir fyrir jólin eða þrífa ryk úr hverju horni með eyrnapinnum, eins og stundum er sagt um kappsamar húsmæður. Með þessu er ég fjarri því að halda því fram að móðir mín hafi á einhvern hátt vanrækt húsmóðurstörfin. Heimilið var alltaf smekklegt og hún sá til þess að þar var alltaf góður matur á borðum og vel tekið á móti gestum. En hún varð einfaldlega að forgangsraða til að komast yfir svo mikið og annasamt heimili og þá varð kannski stundum útundan eitthvað af því sem ýmsar aðrar húsmæður lögðu meira upp úr.

Matseldin

Ég hef löngum verið áhugasamur um mat og því hlýt ég að minnast á þann þátt í fari móður minnar sem mér þótti miklu skipta. Hún var að mínu mati afbragðs­góður kokkur. Ekki síst þóttu mér sósur hennar einstaklega bragðgóðar. Hún lagði mikið upp úr því að nota sem mest grænmeti og kvartaði oft undan ónógu úrvali af grænmeti í verslunum, einkum minnist ég þess frá árunum á Selfossi en sjálfur man ég ekki Reykhólaárin enda aðeins tveggja ára er foreldrar mínir fluttust þaðan.

Á þessu sviði er ljóst að mamma hafði heilmikil áhrif á mig, henni þótti nefnilega sjálfsagt og eðlilegt að drengir vendust því að búa til mat löngu áður en það þótti sjálfsagt og eðlilegt – ef það þykir það þá enn. Raunar held ég að hér hafi líka meðfæddur áhugi minn skipt miklu því ég held að bræður mínir hafi örugglega sinnt þessum þætti minna en ég. Oft kom það fyrir á unglingsárum að ég annaðist matseldina og reyndi þá að líkja eftir mömmu minni.

Þannig fannst mér hún búa til sérlega góðar fiskibollar og tel ég mig gera það líka – að mestu leyti eins og hún gerði þær. Jólamaturinn hennar var þannig að keppikefli margra systkinanna hefur verið að reyna að líkja sem mest eftir honum.

Raunar var pabbi langt á undan tímanum hvað það varðaði að koma – sem karlmaður – nálægt eldamennsku. Þrátt fyrir mjög miklar annir í læknisstarfinu kom það fyrir að hann tók að sér matseldina. En hann var þar af öðru sauðihúsi en mamma og ég verð að viðurkenna að ég kunni ólíkt betur við matseld hennar þó að honum væri þar ýmislegt til lista lagt einnig. Hér held ég raunar að hafi miklu skipt ólíkur bakgrunnur þeirra, pabbi ólst einfaldlega upp við mikla fátækt löngum og fábreytni í mataræði. Mamma ólst hins vegar upp á heimili þar sem móðir hennar var þekkt fyrir að hafa flutt með sér margs konar nýbreytni frá Danmörku, ekki síst í ræktun grænmetis.

Ólíkur smekkur foreldra minna á mat kom vel í ljós við kjötsúpugerð. Um það atriði stóð eins konar slagur þeirra árum saman sem okkur krökkunum þótti gaman að fylgjast með. Þannig var að pabbi var gjarnan heima á þriðjudagsmorgnum, var þá með símaviðtalstíma heima. Tímann, sem gafst milli símtalanna, notaði hann til að sinna áhuga sínum á eldamennsku og alltaf eldaði hann það sama, þ.e. kjötsúpu. Það þótti mér og þykir enn hinn besti matur. Pabbi vildi hins vegar hafa kjötsúpuna einfalda að gerð eins og hann hafði vanist henni í foreldrahúsum, á Bakkafirði og Akureyri. Í súpunni átti ekki að vera annað en kjötið, laukur, haframjöl og salt og e.t.v. rófur. Mömmu þótti þetta hins vegar alveg ófullnægjandi og vildi hafa meira grænmeti í súpunni. Meðan pabbi var í símanum laumaðist hún til að bæta rænmeti út í svo sem gulrótum, hvítkáli og/eða þurrkuðu grænmæti. Pabbi lét sem hann reiddist þessu en allt var þetta í góðu en endurtók sig þriðjudag eftir þriðjudag. Yfirleitt tókst mömmu að koma sínu grænmeti út í súpuna og þótti mér – eins og flestum systkinum mínum, held ég – að súpan batnaði við það. Kjötsúpa er enn í miklu uppáhaldi hjá mér eins og ég hef raunar fjallað um hér á vefsíðu minni áður.

Jólahaldið

Þar sem þessar hugrenningar eru skrifaðar á milli jóla og nýárs hlýt ég að minnast þess sem mér kemur gjarnan einnafyrst í hug þegar ég hugsa til foreldra minna. Þar á ég við jólahaldið. Allt var það með þeim hætti að ég held að öll systkini mín reyni sem mest að líkja eftir því, okkur fannst það einstaklega hátíðlegt og eftirminnilegt, meðal dýrmætustu minninga úr foreldrahúsum.

Undantekningalítið var farið í messu kl. 18. Á yngri árum minnist ég þess að stundum voru tvær elstu systur mínar heima meðan við hin vorum í jólamessunni. Annars var vafalaust allur gangur á því. En gæsasteikin beið yfirleitt tilbúin þegar heim var komið úr messunni hjá sr. Sigurði Pálssyni í Selfosskirkju. Þarna var um danskan sið að ræða. Danir hafa mjög gjarnan aligæs- eða önd í matinn á jólum og móðir mín hefur vafalaust tekið þennan sið úr foreldrahúsum. Sjálfum finnst mér mikið vanta í jólahaldið ef þessi matur er ekki á borðum á aðfangadag.

Oft var það svo að við sem yngri vorum í hinum stóra systkinahópi fengum ekki að sjá skreytt jólatréð inni í stofu fyrr en jólin voru gengin í garð, þ.e. fyrr en að loknum aftansöngnum í kirkjunni. Að máltíð lokinni voru það alltaf einhver úr systkinahópnum sem sáu um uppvaskið. Það þótti tilhlýðilegt að móðir okkar fengi a.m.k. þetta kvöld frí frá þeirri iðju. Þá hófst dálítil helgistund inni í setustofu þar sem jólaguðspjallið var lesið og það gerði gjarnan yngsta barnið í fjölskyldunni sem var orðið vel læst. Þá voru sungin nokkur jólalög og þar á meðal var jafnan eitt, þ.e. ‘Nóttin var sú ágæt ein’, lag afa míns Sigvalda Kaldalóns við ljóð Einars úr Heydölum. Þannig hafði ég fyrir löngu vanist því lagi sem aðaljólasálminum áður en það öðlaðist almennt þær vinsældir sem það hefur nú öðlast. Móðir mín lék að sjálfsögðu á flygelinn og faðir minn leiddi sönginn.

Gjafaúthlutun var líka með þeim hætti að minnisstætt er. Faðir minn úthlutaði einum pakka í einum og ekki var öðrum pakka úthlutað fyrr en sá næsti á undan hafði verið opnaður, allur höfðu séð hvað hann hafði að geyma og frá hverjum hann var. Þessari venju hef ég einnig viðhaldið á heimili mínu.

Stundum kom það fyrir að pabbi var kallaður í sjúkravitjun úr miðju jólahaldinu eða jafnvel sóttur inn í kirkjuna enda alltaf miklar annir í hans læknisstarfi á Selfossi og í raun ekki um neinar vaktir að ræða. Má heita að hann hafi verið samfellt ellefu ár á vakt þar og mjög oft kallaður í vitjanir að næturlagi. Þá reyndi meira á mömmu en ella.

Hún var hins vegar mjög glaðvær að eðlisfari, lék jólalög á hljóðfærið og átti auðvelt með að halda uppi þeirri jólastemningu sem okkur þótti öllum svo mikið til koma.

Trúin

Mamma ræddi yfirleitt ekki mikið um trú sína og segja má að hið trúarlega uppeldi okkar systkinanna hafa meira verið í höndum pabba en hennar. Ekki er þó nokkur vafi á því að mamma var trúuð kona þó svo að hún hefði ekki áhuga á miklum umræðum um eðli eða inntak trúarinnar. Sem strákur minnist ég þess að hafa spurt hana út í einhver trúaratriði sem ég átti erfitt með að skilja. Hún svaraði því einu til að pabbi minn væri mikið betur til þess fallinn að svara slíkum spurningum. Mig minnir að ein spurningin sem ég bar upp við hana ungur drengur hvernig það gæti verið að Jesús hefði dáið á krossi en væri samt lifandi. Með þá spurningu var mér vísað til pabba.

Áður hefur komið fram að mörg laga mömmu, eins og föður hennar, einkennast af tilbeiðslu. Hún samdi allnokkur lög við trúarlega texta. Hún var um skeið organisti og kórstjóri við Reykhólakirkju og hafði því reynslu af kirkjulegu starfi. Alltaf var farið með kvöldbænir með okkur krökkunum. Pabbi gerði það líklega oftar þegar hann var heima en svo oft var hann að heiman að í heildina hefur það komið oftar í hlut mömmu. Ég minnist þess að einhverju sinni var Stefanía Gissurardóttir, kona sr. Sigurðar Pálssonar, sem oftar í heimsókn hjá okkur enda voru þau hjónin líklega besta vinafólk foreldra minna á Selfossi. Hún tók að sér að fara með bænir með mér og bróður mínum og spurði hvaða bænir við kunnum. Man ég að ég var nokkuð montinn þegar hún lét í ljósi ánægju sína með hvað við kunnum mikið af bænum.

Jólin voru mömmu mikil hátíð og sagðist hún alltaf hlakka til þeirra eins og barn og sýndi það líka í verki, hún lagði sig virkilega fram um að gera þessa hátíð að helgri stund og innihaldsríkri. Í því efni voru mamma og pabbi virkilega samhent. Einhverju sinni spurði mamma vinkonu sína á Selfossi: ‘Hvernig fyndist þér ef ekki væru nein jól?’ Það var greinilegt að í spurningu hennar fólst að sjálfri fyndist henni að þá myndi harla mikið vanta.

Andlát mömmu

Mamma lést langt fyrir aldur fram. Hún varð fyrir því slysi 5. desember 1984 að detta í hálka skammt frá húsi sínu á Seltjarnarnesi og höfuðkúpubrotna. Viku síðar, að kvöldi 12. desember, þegar við vorum farin að gera okkur góðar vonir um að hún myndi ná sér að fullu fékk hún blóðtappa á spítalanum þar sem hún lá. Hún var að koma inn úr setustofu spítalans frá því að horfa á sjónvarps­mynd, féll á rúmið þegar hún kom inn á sjúkrastofuna og var látin.

Ég fékk fréttina ekki fyrr en morguninn eftir. Við Guðrún höfðu þá farið árla morguns með krakkana á Lúsíuhátíð á dagheimilinu í Lundi og vorum að koma heim þegar síminn hringdi. Pabbi var í símanum og sagði mér yfirvegaður frá því hvað gerst hafði. Reynt hafði verið að hringja í okkur um nóttina en síminn hafði verið inni í herbergi þar sem enginn svaf og við ekki vaknað. Ég hafði engan veginn áttað mig á að ástandið væri svona alvarlegt þá hefði ég örugglega reynt að komast heim til að hitta móður mína. Andlát hennar kom mér í opna skjöldu og varð mér mikið áfall. Mamma var aðeins 64 ára, jafngömul og faðir hennar var þegar hann lést.

Úförin var gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík fyrir troðfullri kirkju. Margar fallegar minningargreinar birtust um móður mína og sr. Guðmundur Óskar Ólafsson prestur í Neskirkju minnist hennar fallega í útfararræðunni og þótti fólki sem útförin hafi verið sérlega hátíðleg stund. ‘Þetta var mikil guðsþjónusta,’ man ég að lærimeistari minn dr. Þórir Kr. Þórðarson sagði. Nær eingöngu voru leikin og sungin Kaldalóns-lög við útförin, þ.e. lög eftir Sigvalda afa eða mömmu.

Pabbi vildi ekki hafa erfidrykkju á opinberum stað heldur heima á Skólabraut 61 þó að ljóst væri að þar yrði þröng á þingi. Margir vinir hjálpuðu til við erfidrykkjuna og þar var fullt út úr dyrum. Ég fór aftur utan fyrir jól en einhverjar systra minna sem komu að utan urðu eftir heima hjá pabba um jólin.

Jólahald mitt var með dauflegasta móti þessi jól úti í Lundi en þó leituðumst við að halda þar í þær jólahefðir sem ég hafði vanist við í húsi foreldra minna.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2004-12-31/16.51.55/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli