gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Muilenburg og áhersla hans á stílfræði G.t.-textanna · Heim · Af Joachim Begrich og kenningu hans um ‘hjálpræðissvar’ prestsins í Gamla testamentinu »

Gyðingavinurinn Franz Delitzsch

Gunnlaugur A. Jónsson @ 14.46 25/1/05

Nú þegar þess er minnst að sextíu ár eru liðin frá því að hersveitir bandamanna réðust inn í og frelsuðu það fólk sem enn var á lífi í þrælkunar- og útrýmingabúðum nasista í Þýskalandi og Póllandi — og umheiminum varð ljóst að þar hefðu verið framdir óhugnanlegri glæpir en menn þekktu til áður — er við hæfi að minnast mikils gyðingavinar úr hópi kristinna G.t.-fræðinga. Þar á ég við Franz Delitzsch (1813-1890) sem var tvímælalaust í hópi áhrifamestu G.t.-fræðinga 19. aldar.

Fjölmargir áhugasamir nemendur á sviði biblíufræða komu úr hinum enskumælandi heimi til Þýskalands í þeim tilgangi að leggja stund á biblíufræði og þá einkum gamlatestamentisfræði undir handleiðslu og við fóskör hins víðfræga Franz Delitzsch. Hann þótti einstakur kennari, einstaklega elskulegur og hrífandi maður á alla lund.

Delitzsch var gríðarlega afkastamikill og skrifaði skýringarit við stóran hluta af ritum Gamla testamentisins. Sum þeirra komu út í mörgum útgáfum, oftast verulega breyttum, þar sem hann smám saman tók meira tillit til hinna nýju og gagnrýnu viðhorfa sem voru að ryðja sér til rúms á sviði G.t.-fræðanna, þ. á m. ýmissa hinna áhrifamiklu kenninga J. Wellhausens.

Afstaða hans var þó jafnan íhaldssöm. Í ritum hans birtist víða baráttan milli hinnar gömlu guðfræði og hinnar nýju. Delitszsch var mjög áhugasamur um gyðingleg fræði svo og kristniboð meðal gyðinga og gaf frá 1863 út tímaritið Saat auf Hoffnung í þágu þess málstaðar.

Hann var jafnframt mikill gyðingavinur og barðist fyrir réttindum gyðinga í Þýskalandi á tímum þegar vaxandi gyðingahaturs gætti. Hann þýddi Nýja testamentið á hebresku. Rannsóknastofnun um gyðingleg fræði í Leipzig er kennd við hann, Institutum Judaicum Delitzschianum. Um hann hefur verið sagt að megináhugamál hans hafi verið að kynna Gamla testamentið betur fyrir kristnum mönnum og Nýja testamentið fyrir Gyðingum.

Sonur hans, Assýríufræðingurinn Friedrich Delitzsch, var um margt gjörólíkur föður sínum og hafði allt aðra og neikvæðari afstöðu til Gamla testamentisins. Hann var upphafsmaður Babel-Bibel-stríðsins svokallaða (1902) og verður fjallað sérstaklega um hann síðar á þessari vefsíðu.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2005-01-25/14.46.16/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli