gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Gyðingavinurinn Franz Delitzsch · Heim · Wellhausen og kenningin um myndunarsögu Mósebóka »

Af Joachim Begrich og kenningu hans um ‘hjálpræðissvar’ prestsins í Gamla testamentinu

Gunnlaugur A. Jónsson @ 22.06 26/1/05

Nafn Joachim Begrich (1900-1945) mun lifa í sögu G.t.-fræðanna þó ekki væri nema fyrir hina áhrifamiklu kenningu hans um hjálpræðissvarið svokallaða (‘Heilsorakel’) sem leitaðist við að skýra hin snöggu umskipti sem verða yfirleitt í niðurlagi harmsálmanna (angurljóðanna) þar sem harmurinn breytist yfir í fullvissu um bænheyrslu og þaðan yfir í lofgjörð. Þessi umskipti skýrði Begrich með greiningu á vissum textum hjá Deutero-Jesaja þar sem segir: ‘Óttist ekki.’ Hann hélt því fram að þessir textar ættu rætur sínar að rekja til helgihaldsins þar sem prestur hefði veitt fullvissu um bænheyrslu, eins konar ‘hjálpræðissvar’ (sbr. t.d. 1Sam 1:17). Kunnur er Begrich einnig fyrir rannsóknir sínar á réttarfarstextum Gamla testamentisins. Begrich var nemandi Hermanns Gunkel (1862-1932) og stóð föstum fótum í hinni formsögulegu rannsóknaraðferð hans. Hann skrifaði meðal annars rit um Deutero-Jesaja og það kom í hans hlut að ganga frá hinu mikla verki Gunkels um inngangsfræði sálmanna til prentunar (1933) er Gunkels lést áður en honum tækist að ljúka því. Begrich tók þátt í baráttunni gegn Nasismanum á vegum þýsku Játningakirkjunnar. Hann lét lífið í herþjónustu skömmu fyrir stríðslok.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2005-01-26/22.06.40/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli