gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Af Joachim Begrich og kenningu hans um ‘hjálpræðissvar’ prestsins í Gamla testamentinu · Heim · Stoltur faðir yfir kandídatsritgerð dóttur – Nauðgun frá sjónarhorni kvennaréttar »

Wellhausen og kenningin um myndunarsögu Mósebóka

Gunnlaugur A. Jónsson @ 20.38 1/2/05

Einhver áhrifamesti G.t.-fræðingur allra tíma var Þjóðverjinn Julius Wellhausen(1844-1918) . Algengt er að miða upphaf nútíma G.t.-fræða við útkomu rits hans Geschichte Israels (1878). Þekktara er ritið raunar undir heitinu Prolegomena zur Geschichte Israels eins og það nefndist í 2. útgáfu (1883). Ensk þýðing þess kom út 1885 Prolegomena to the History of Israel.

Wellhausen varð prófessor í Greifswald 1872 en sagði af sér embætti 1882 með frægu bréfi sem er um margt táknrænt fyrir það að biblíufræðin voru á þessum tíma að losa sig undan áhrifum kirkjunnar. Gerðist Wellhausen þá ‘Privatdozent’ í semitískum tungumálum í Greifswald.

Áhrif Wellhausens voru ekki síst á sviði myndunarsögu Mósebóka þar sem hann sýndi fram á að P-ritið svokallaða sem löngum hafði verið talið elst heimildaritanna væri yngst þar sem það gengi út frá babýlónsku útlegðinni. Heimildarit þetta kallaði Wellhausen raunar Q (= liber quottuor foederum). Kenningar Wellhausens þýddu meðal annars það að lögmál Mósebóka væri yngra en spámennirnir. Kenning Wellhausens gengur út á að Mósebækur sé samsettar úr fjórum heimildaritum og sé elsta heimildin J (frá því um 900 f.Kr.) um fjórum öldum eldri en sú yngsta Q (yfirleitt nefnd P eða Prestaheimildin).

Mjög hart var tekist á um kenningar Wellhausens um allan hinn vestræna fræðaheim á árunum og áratugunum eftir 1880. Umpphaf nútíma biblíufræða (hinna sögulegu biblíurannsókna) er oft miðað við útgáfu ofannefndrar bókar Wellahausens. Hér á landi kynnti Jón Helgason (1866-1942) Prestaskólakennari kenningar Wellhausens í kringum 1900 og ollu þær ekki síður heiftúðugum deilum hér en víðast hvar erlendis.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2005-02-01/20.38.58/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli