gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Stoltur faðir yfir kandídatsritgerð dóttur – Nauðgun frá sjónarhorni kvennaréttar · Heim · Ráðstefna Guðfræðistofnunar um heilagleikann í undirbúningi »

Albright og fornleifafræðin

Gunnlaugur A. Jónsson @ 07.01 9/2/05

Einhver áhrifamesti G.t.-fræðingur og fornleifafræðingur á söguslóðum Biblíunnar úr hópi Bandaríkjamanna á 20. öld var William Foxwell Albright (1891-1971). Hann ólst upp í Chile þar sem foreldrar hans störfuðu sem kristniboðar á vegum meþódista-hreyfingarinnar. Þar var grunnurinn lagður að mikilli tungu­málakunnáttu hans því að hann var jafnvígur á ensku og spænsku auk þess sem hann hafði einnig lært frönsku og þýsku áður en hann varð tólf ára. Þá þegar hafði hann gert sér grein fyrir því að hann ætti eftir að verða fornleifafræðingur. Hann var sjálfmenntaður bæði í hebresku og assýrísku.

Doktorsgráðu sína hlaut hann frá Johns Hopkins háskólanum 1916 með ritgerðinni The Assyrian Deluge Epic, sem raunar var aldrei gefin út. Að lokinni fyrri heimsstyrjöldinni hélt hann til Landsins helga til náms við hinn nýja Hebreska háskóla þar. Á árunum 1930-1968 var hann ritstjóri Bulletin of the American Schools of Oriental Research (BASOR).

Árið 1940 sendi hann frá sér bókina From the Stone Age to Christianity þar sem leyndi sér ekki í hve ríkum mæli hann áleit fornleifafræðina varpa ljósi á Biblíuna og eins kom þar fram grundvallarafstaða hans til túlkunar Biblíunnar og trúarinnar. Hann varð fyrstur bandarískra fræðimanna til að heyra af og gera sér grein fyrir mikilvægi þess er Dauðahafshandritin fundust. Hann hélt vikuleg semínör um þau og hebreskan kveðskap allt þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.

Á sjötta áratugnum stofnaði Albright ásamt David Noel Freedman, einum nemenda sinna, Anchor Bible-ritröðina sem átti eftir að njóta mikilla vinsælda og virðingar í fræðaheiminum. Langvarandi dvalir hans í Landinu helga leiddu til náinna kynna hans af gyðingum. Um þau kynni sagði hann síðar: „Þar til ég var tuttugu og eins árs hafði ég aldrei hitt neinn sem ég gerði mér grein fyrir að væri gyðingur. En eftir nærri hálfrar aldar vinsamleg samskipti finnst mér ég eiga meira heima meðal gyðinga en í öðrum hópum.“ Albright hlaut næstum þrjátíu heiðursdoktorsgráður við háskóla víðs vegar um heim á sérlega gifturíkum fræðimannsferli sínum.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2005-02-09/07.01.22/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli