gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Ráðstefna Guðfræðistofnunar um heilagleikann í undirbúningi · Heim · Mínir menn í Tottenham komnir í 5. umferð FA-bikarsins »

James Barr: Gagnrýninn gamlatestamentisfræðingur

Gunnlaugur A. Jónsson @ 05.44 10/2/05

Skotinn James Barr (f. 1924) er tvímælalaust einn kunnasti G.t.-fræðingur samtímans. Hann fæddist í Glasgow og hlaut guðfræðimenntun sína í Edinborg. Hann tók prestsvígslu og starfaði um skeið í Ísrael þar sem hann lærði bæði nútíma hebresku og arabísku reiprennandi. Hann vakti fyrst verulega athygli með bók sinni The Semantics of Biblical Language árið 1961 þar sem hann réðst mjög harkalega á hina kunnu orðabók Kittels Theologisches Wörterbuch.

Í bókinni gagnrýndi hann m.a. hefðbundar etýmólógískar rannsóknir. Lagði hann í þess stað áherslu á samhengið, rannsókn á merkingu orða yrði jafnan fyrst og fremst að huga að því samhengi sem þau stæðu í.

Það er athyglisvert að Barr hefur sjálfur lýst sér sem málvísindamanni og biblíufræðingi en aðeins sem frístunda guðfræðingi. Engu að síður hefur hann nú gefið út bók sem hann skipar sjálfur í flokk bóka um biblíuguðfræði, sem er þó að stærstum hluta fyrst og fremst nokkurs konar rannsóknasaga fræðigreinarinnar og sem slík mjög gagnrýnin.

Barr hefur haldið uppi vörnum fyrir svokallaða náttúrulega guðfræði en hana gagnrýndi Karl Barth, einn kunnasti guðfræðingur 20. aldar, mjög á sínum tíma.

Í bók sinni um guðfræði G.t. (The Concept of Biblical Theology. An Old Testament Perspective, 1999) fjallar hann all­ítarlega um bók W. Brueggemanns um sama efni og er óneitanlega talsvert gagnrýninn í garð hennar. Þarf það e.t.v. ekki að koma svo mjög á óvart þar sem Barr er þekktur fyrir að vera almennt gagnrýninn. Brueggamann er hins vegar almennt jákvæður í garð Barrs í bók sinni en því verður tæpast haldið fram að Barr endur­gjaldi þá kurteisi.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2005-02-10/05.44.59/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli