gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Babýlónska útlegðin af sjónarhóli 137. sálms Saltarans · Heim · Framhaldslíf Sálms 23 í menningu og listum »

Frank Moore Cross. Óvenjulega fjölhæfur G.t.-fræðingur

Gunnlaugur A. Jónsson @ 07.58 15/2/05

Helsti arftaki Williams F. Albrights á sviði fornleifa- og G.t.-fræða í Bandaríkjunum Frank Moore Cross (f. 1921). Cross var nemandi Albrights við Johns Hopkins háskólann og lauk þaðan doktorsprófi í semitískum málum árið 1950. Hann var aðeins 36 ára er hann var skipaður í einhvern elsta og virðulegasta kennslustól í bandaríska háskólasamfélaginu, þ.e. Hancock prófessorsembættið í hebresku og öðrum tungumálum hinna fornu Miðausturlanda við Harvard –háskólann. Þessari stöðu gegndi hann þar til hann fór á eftirlaun 1992. Rannsóknasvið hans hefur verið mjög breitt. Hann hefur einkum fengist við Norðvestur semitískar áletranir, staðfræði Gamla testamentisins, úgarítískan kveðskap og skyldleika hans við kveðskap Gamla testamentisins, textafræði og trúarsögu Ísraels í ljósi umhverfisins sem hún er sprottin upp úr , þ.e. hin fornu Miðausturlönd og síðast en ekki síst Dauðahafs­handritin. Cross var meðal fyrstu meðlimanna í hinni alþjóðlegu nefnd sem skipuð var til að undirbúa útgáfu handritanna. Meðal kunnustu verka hans má nefna The Ancient Library of Qumran (1958, 2. útg. 1961, 3. útg. 1995), Canaanite Myth and Hebrew Epic: Essays in the History of the Religion of Israel (1973), From Epic to Canon: History and Literature in Ancient Israel (1998). Sérlega læsileg er samtalsbókin Frank Moore Cross. Conversations with a Bible Scholar. Ritstj. H. Shanks (1994). Rit þetta veitir einstaka innsýn í fræðistörf þessa mikla jöfurs G.t.-fræðanna. Um Cross hefur Moshe Weinfeld, hinn virti biblíufræðingur við Hebreska-háskólann í Jerúsalem sagt: ‘Biblíufræðin eru mjög flókin. Þau snerta sagnfræði, bókmenntir, fornleifafræði, lögfræði, heimspeki, guðfræði, málvísindi o.fr.v. Það er ekki auðvelt að ráða við svo margar fræðigreinar. Frank Cross ræður við þær allar.’

url: http://gunnlaugur.annall.is/2005-02-15/07.58.36/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli