gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Hlýtt á Passíusálmana í Hallgrímskirkju · Heim · Ánægjuleg sýning á Jakobi lygara með nemendum »

Minningargrein um Arnþrúði Sigurðardóttur (23.10.1919-25.3.2005)

Gunnlaugur A. Jónsson @ 12.45 29/3/05

Um það leyti sem fréttin barst af andláti Dúddu, ekkju Dadda (Þórðar Kaldalóns) móðurbróður míns, stóð yfir tiltekt á heimili mínu fyrir páskahátíðina. Er ég fór í gegnum pappírsbunka einn komu í ljós nokkur sendibréf sem faðir minn, Jón Gunnlaugsson, hafði skrifað tengdamóður sinni, Karen Margrete Kaldalóns, frá Reykhólum í Barðastrandarsýslu er hann var læknir þar. Það var óneitanlega merkileg tilviljun að fyrsta bréfið reyndist vera skrifað í tilefni af andláti Dadda hinn 16. apríl 1948. Hann var aðeins 33 ára að aldri er hann lést úr ólæknandi sjúkdómi.

Hér skal vitnað í þetta sendibréf þar sem segir meðal annars: ‘Það er erfitt starf sem bíður Dúddu og þung sorg hennar, en hún á marga að og ef allir leggjast á eitt, þá ætti að mega létta mikið undir með henni, þótt enginn megni að gefa henni það sem hún hefur misst … Þú mátt vera fullviss þess, að við erum í huganum með ykkur þessa erfiðu daga, og ég veit og trúi því fastlega, að það sé vakað yfir sorgarheimilinu í Fossvogi. Ekkjan með blessuð litlu börnin á verndara, sem skilur sorg hennar og styrkir í þyngstu raunum lífsins.’

Ekki þarf að hafa um það mörg orð hversu erfiðar aðstæður Dúddu voru. Hún var orðin ekkja, aðeins tæplega þrítug og með þrjú ung börn á framfæri sínu. En hin danska tengdamóðir hennar, sem sjálf varð ekkja aðeins tæpum tveimur árum áður, reyndist henni svo sannarlega betri en enginn í þessum miklu raunum.

Um það hefur Dúdda sjálf vitnað í minningarkafla í bókinni ‘Man ég þann mann’ (1971) sem Gunnar M. Magnúss rithöfundur skráði um tengdaföður hennar, tónskáldið og lækninn Sigvalda S. Kaldalóns. Þar kemst Dúdda (bls. 192) svo að orði: ‘Ég átti í miklum erfiðleikum eftir að ég missti manninn. Þá var Margrét mín stoð og stytta. Hún hafði líka misst mikið. Og þessi ágæta manneskja gerði allt, sem í hennar valdi stóð til að létta undir með mér, svo ég gæti unnið fyrir heimilinu. Við Margrét bjuggum svo saman frá því í október 1948 í þrjú ár á Seltjarnarnesi.’

Sjálfum er mér úr æsku minnistæð mynd sem stóð á áberandi stað í skrifstofunni heima á Selfossi. Myndin var af ungum manni, dökkhærð­um og mjög laglegum. Það kom sorgarsvipur á andlit mömmu þegar hún svaraði því hver þetta væri. Þetta var hann Daddi bróðir hennar sem hafði dáið aðeins 33 ára. Hann var pabbi frænd­systkina minna sem stundum komu í heimsókn frá Reykjavík, þeirra Sigvalda Snæs, Arnar Sigmars og Grétu.

Í hugann koma þó fleiri minningar um Dúddu en um konu sem kom endrum og sinnum í heimsókn úr Reykjavík. Um skeið sá hún t.d. um heimili okkar á Selfossi er foreldrar mínir voru í burtu svo og elstu systurnar. Dúdda reyndist okkur systkinunum góð og það leyndi sér ekki að hún kunni að umgangast börn og var auk þess fyrirmyndar húsmóðir.

Þorbjörg systir mín, sem giftist rúmlega tvítug til Kanada, og hefur búið þar í tæp 40 ár, sagði í símtali nú á páskadag að einhver persónu­legasti gripur sem hún ætti tengdan Íslandi, væri gríðarstórt heklað ullarteppi sem Dúdda hafði gefið henni við brottflutninginn til Kanada. ‘Öll þessi ár hefur þetta fallega teppi daglega minnt mig á hana’ sagði hún. Sömu sögu reyndist Sólveig systir mín hafa að segja, en hún hefur um langt árabil búið í Danmörku. Hún hafði þegið slíkt teppi í brúðkaupsgjöf og átti enn sem dýrmæta minningu um gjafmildi Dúddu og hæfileika hennar á sviði hannyrða.

Nú þegar Arnþrúður Sigurðardóttir er fallin frá á 86. aldursári og horft er yfir lífshlaup hennar hlýtur maður að dást að þrautseigju hennar og dugnaði. Hún var ekkja í rúmlega 55 ár, barðist í sárri fátækt við að koma börnum sínum til manns af miklum dugnaði og ósérhlífni. Er óhætt að segja að það hafi tekist með miklum ágætum. Börnum hennar hefur öllum vegnað vel í lífinu og hafa haldið uppi merki Kaldalónsfjölskyldunnar á tónlistarsviðinu.

Dúdda sá til þess að hlúð var að þeirri gáfu þeirra þegar í bernsku. Sjálf var hún af tónelskri fjölskyldu og hafði vaxið úr grasi í Ísafjaðardjúpi, skammt frá Kaldalóni, eins og Þórður Kaldalóns, eiginmaður hennar, þó að ekki vissu þau þá hvort af öðru enda Dúdda aðeins tæpra tveggja ára þegar Sigvaldi Kaldalóns læknir og tónskáld fluttist á brottu með fjölskyldu sína vegna heilsubrests.

Margt í lýsingunni á hinni vænu konu í 31. kafla Orðskviða Gamla testamentisins á vel við Dúddu, meðal annars:

Hún sér um ull og hör

og vinnur fúslega með höndum sínum.

Hún fer á fætur fyrir dag …

á lampa hennar slokknar ekki um nætur …

Hún býr sér til ábreiður …

Hún vakir yfir því, sem fram fer á heimili hennar

og etur ekki letinnar brauð.

Að leiðarlokum skal hér fyrir hönd barna Selmu Kaldalóns og Jóns Gunnlaugssonar þökkuð löng samfylgd og vinátta. Börnum Dúddu, tengdabörnum og niðjum öllum votta ég samúð mína, fjölskyldu minnar og systkina.

Guð blessi minningu þessarar miklu dugnaðar- og sómakonu.

Gunnlaugur A. Jónsson

url: http://gunnlaugur.annall.is/2005-03-29/12.45.03/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli