gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Snætt í hinu Litla apóteki · Heim · Að taka á sig krók á leið til vinnu »

Frants Buhl Upphafsmaður “biblíugagnrýninnar” í Danmörku

Gunnlaugur A. Jónsson @ 20.23 8/11/05

Þar sem rannsóknaverkefni mitt í Danmörku felst í því að kanna upphaf sögu biblíugagnrýninnar á Íslandi í ljósi skandinavískra áhrifa fer vel á því að birta hér smávægilegan fróðleik um þann biblíufræðing sem telst yfirleitt upphafsmaður þessara viðhorfa í Danmörku. Þar á ég við hinn kunna gamlartestamentisfræðing Frants Buhl (1850-1932).

Buhl var tvímælalaust einn fremsti gamlatestamentisfræðingur Norðurlanda fyrir og uppúr aldamótunum 1900. Nokkrir íslenskir guðfræðingar stunduðu nám hjá honum, þ. á m. Jón Helgason (1866-1942) upphafsmaður biblíugagnrýninnar á Íslandi, síðar Prestaskólakennari, prófessor og biskup.

Jón gaf raunar Buhl þann vitnisburð í endurminningum sínum að hann hafi verið “þurr eins og harðfiskur í kennarastólnum”. Haraldur Níelsson (1868-1928), sömuleiðis einn af hlstu foyrstumönnum biblíugagnrýninnar á Íslandi, leitaði og til hans með ráðleggingar þegar hann hafði byrjað þýðingu sína á Gamla testamentinu (1897-1908).

Hvað sem því líður var Buhl virtur fræðimaður langt út fyrir landamæri Danmerkur. Hann varð prófessor í Kaupmannahöfn árið 1882 en var árið 1890 kallaður til Leipzig til að taka við kennslustólnum í gamlatestamentisfræðum eftir daga Franz Delitzsch (1813-1890), hins heimskunna biblíufræðings.

Buhl var ekki síst málvísindamaður á sviði semitískra mála og tók þátt í vinnunni við nýjar útgáfur að Lexikoni Geseniusar. Buhl skrifaði söug Ísraels á dönsku og kom hún út árið 1893 og eru áhrifin frá kenningum Juliusar Wellhausen (1844-1918) þar augljós, en Wellhausen var sá gamlatestamentisfræðingur sem mestum þáttaskilum hafði valdið í heimalandi sínu, Þýskalandi, og raunar um mestallan hinn vestræna, kristna heim, á sviði gamlatestamentisfræðanna.

Áhrif frá Franz Delitzsch mátti hins vegar greina í efnisvali Buhls í næstu bók hans sem fjallaði um Messíasarspádóma Gamla testamentisins (1894). Meðal þekktustu rita hans á sviði gamlatestamentisfræða, sem enn er oft vitnað til, eru viðamikil skýringarit hans við Jesaja og Davíðssálma.

Þegar kennslustóllinn í semitískum málum losnaði við Kaupmannahafnarháskóla árið 1918 sótti Buhl um stólinn og fékk hann.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2005-11-08/20.23.32/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Þorkell @ 8/11/2005 22.58

Mjög áhugavert. Spennandi verkefni! N.k. ættfræði áhrifa og hugmynda :-)

Lokað er fyrir athugasemdir.

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli