gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Uppáhaldsborgirnar tólf · Heim · Íslendingar Gyðingar norðursins? »

170 ár frá fæðingu Matthíasar Jochumssonar í dag

Gunnlaugur A. Jónsson @ 17.03 11/11/05

Í dag hlýt ég að minnast þess að 170 ár eru liðin frá fæðingu þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar (1835-1920). Ég hafði verið beðinn að tala um sálma hans á málþingi sem stóð til að halda um hann í dag og á morgun (á Akureyri og í Reykjavík) en þinginu var frestað um eitt ár.

Ekki er ætlun mín að birta neina grein hér um Matthías eða sálma hans í staðinn heldur finnst mér aðeins tilhlýða að setja inn á vefsíðu mína örfá orð í tilefni dagsins. Kynning mín sálmum hans mun bíða málþingsins að ári. En það get ég heilshugar tekið undir sem sagt hefur verið um Matthías að hann hafi verið “skáld af Guðs náð.”

Ég hef áður flutt a.m.k. tvö erindi erindi og birt grein um þjóðsöng okkar Íslendinga, þann er Matthías orti út af 90. Davíðssálmi í tilefni af þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1874 og bekkjarbróðir hans Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld (1847-1926) samdi lag við sem frumflutt var í Dómkirkjunni 2. ágúst 1874. “Vissi þá enginn að þar var fæddur nýr konungur” var síðar sagt um þann viðburð.

En nú þegar ég sit úti í Kaupmannahöfn til að vinna að riti um “Biblíugagnrýnina á Íslandi árin 1890-1920 í skandinavísku ljósi” hlýt ég að minnast þess að Matthías var að vissu leyti á undan sinni samtíð í guðfræðilegri boðun sinni. Hann var nefnilega einn af fyrstu boðberum frjálslyndu guðfræðinnar svonefndu hér á landi en oft hefur verið sett jafnaðarmerki á milli hennar og biblíugagnrýninnar, þó að ekki sé það alveg nákvæmt. Trú hans var bjartsýn með sterkri þjóðfélagslegri skírskotun og siðferðisboðskap eins vel kemur fram í eftirfarandi versi:

Trú hinu bezta. Gerðu gott við alla.

Sú gleði’er bezt, að hjálpa þeim, sem kalla,

og reisa þá, sem þjást og flatir falla.

Hlutur Matthíasar i sálmabókinni 1886 var þýðingarmikill, þó að ekki væri hann mikill að vöxtum, en þar starfaði hann við hlið stórskálda eins og Helga Hálfdánarsonar (1826-1894) og Valdimars Briem (1848-1930). Sannarlega ekki dónalegur félagsskapur það! Margir af sálmum Matthíasar hafa verið sungnir í kirkjum landsins alla 20. öld og eru það enn og munu örugglega verða svo lengi sem kristin trú er iðkuð hér á landi. Af kunnum sálmum hans má nefna: “Legg þú á djúpið eftir Drottins orði”, “Fyrst boðar Guð sitt blessað náðarorðið”, “Hvað boðar nýárs blessuð sól” og “Faðir andanna.”

Sr. Valdimar Briem, samstarfsmaður hans í sálmabókarnefndinni, nefndi sérstaklega eitt vers Matthíasar, sem ekki er úr neinum ofannefndara, sálma. Þetta vers, sem hér fer á eftir taldi Valdimar alveg sérstakt í sinni röð:

Í gegnum lífsins æðar allar

fer ástargeisli, drottinn þinn.

Í myrkrin út þín elska kallar,

og allur leiftrar geimurinn,

og máttug breytast mykra ból

í morgunstjörnur, tungl og sól.

Um þetta vers segir Valdimar Briem ennfremur að hann hyggi “að það sé skáldlegast vers í öllum íslenzkum sálmakveðskap, og jafnvel þótt lengra sé leitað.” Og hann bætir við: “Svo dýrleg lýsing á sköpunarverkinu, held ég, að hvergi sé til annars staðar.” Þetta er mikið lof, ekki síst þegar haft er í huga að sá sem það mælir kunni svo sannarlega að yrkja sálma sjálfur.

Loks vil ég halda því til haga hér sem oft gleymist að Matthías var heiðursdoktor frá Háskóla Íslands. Þriðjudaginn 9. nóvember 1920 samþykkti guðfræðideild í einu hljóði að sæma Matthías heiðursdoktorsnafnbót í tilefni af 85. ára afmæli hans sama ár.

Rökstuðningur deildarinnar var þannig: “Deildin lítur svo á, að séra Matthías Jochumsson hafi með sálmum sínum og andlegum ljóðum reist sér þann minnisvarða, sem ekki muni fyrnast, meðan sálmar verði sungnir á íslenzka tungu. Fer þar saman andagift og yndislegt ytra form, dýpt og auðlegð hugsana og barnaleg trúareinlægni. Hefir hann með ljóðum sínum unnið mikilvægt menningarstarf með þjóð vorri og rutt braut víðfeðmi og mannúð í kristindómsskoðun hennar. Með þessu hefir hann gefið kristni þessa lands og þjóðinni í heild sinni þann fjársjóð, sem guðfræðideild Háskóla Íslands telur sér sæmd að launa með þeim hæsta heiðri, sem hún ræður yfir.”

Þess skal að lokum getið að Þórunn Valdimarsdóttir sagnfræðingur vinnur nú að því að skrifa ævisögu sr. Matthíasar Jochumssonar, sem hefur með kveðskap sínum og ævistarfi svo sannarlega unnið til þess að minningu hans sé haldið á lofti eða eins og skáldið Davíð Stefánsson komst að orði: “En hver á þá lífsvon í vitund þeirra, sem landið erfa, ef sá gleymist, sem kvað þjóðsöng Íslendinga?” (1960).

url: http://gunnlaugur.annall.is/2005-11-11/17.03.01/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli