gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Exodus í brennidepli á vormisseri · Heim · Glænýtt áhrifasögu-skýringarit við Exodus »

Nostalgísk Selfoss-Tuðra

Gunnlaugur A. Jónsson @ 13.12 7/1/06

Besta jólagjöf mín í ár beið mín hér heima í Bollagörðunum á Seltjarnarnesi er ég kom heim úr fjögurra mánaða útlegð minni í Englandi og Danmörku 29. desember. Var þar um að ræða sendingu frá Bárði Guðmundssyni, æskuvini mínum á Selfossi, bekkjarbróður og sessunaut í barnaskóla, fótbolafélaga og vini allar götur síðar. Jólasendingin frá Bárði hafði að geyma hátíðarútgáfu Knattspyrnudeildar Selfoss. Þetta ágæta rit nefna útgefendur þess TUÐRUNA og er hún gefin út í tilefni af 50 ára afmæli knattspyrnudeildarinnar (1955-2005).

Lestur þessa ágæta rits hefur kallað fram nostalgískar minningar mínar frá ánægjulegum uppvaxtarárum mínum á Selfossi. Vel minnist ég þess þegar verið var að endurvekja knattspyrnudeildina árið 1962 og æfingum og keppni 5. flokks Selfyssinga undir stjórn hins frábæra þjálfara Marteins Sigurgeirssonar sumarið 1963. Marteinn var þá sjálfur aðeins á átjánda aldursári en mikill félagi og vinur okkar strákanna, einstakur leiðtogi sem síðar gerðist kennari og þarf það ekki að koma neinum lærisveina hans á Selfossi á óvart að hann skyldi velja sér þá leið, svo augljósa hæfileika hafði hann í þá átt.

Í Tuðrunni er viðtal við Martein þar sem hann segir meðal annars:

“Sælustu stundirnar hafa verið þegar ég hef verið kallaður austur með gömlu átta millimetra spólurnar til að sýna strákunum sem ég þjálfaði í 5. flokki, myndir sem ég tók af leikjum og keppnisferðum á sínum tíma. Við fórum upp á Akranes með Akraborginni, til Húsavíkur, Færeyja og víðar og þetta festi ég á filmu. Núna horfum við á þetta saman, þessi mannskapur og guðfræðingurinn Gunnlaugur Jónsson, doktor uppi í Háskóla, líka kallaður Bói læknis, hefur haldið tölu um hversu gott uppeldi þeir strákarnir hafi hlotið. Þeir hafi drukkið mjólk og talað góða íslensku. Verið fyrirmynd í heilbrigðum lífsstíl og háttum,” segir uppeldisfrömuðurinn Marteinn Sigurgeirsson og brosir út í annað. Hann bætir líka við að Bárður Guðmundsson, fyrrum kaupmaður í GÁB, hafi haldið utan um margvíslegar upplýsingar, ljósmyndir, gömul fótboltaspil og fleira.”

Í lok viðtalsins segir Marteinn: “Mesti lærdómurinn fólst í að gera hlutina sjálfur, fá ekki allt upp í hendurnar. Maður býr að því ævilangt. Þessi ár voru á við uppeldisháskóla” segir Marteinn Sigurgeirsson, einn þeirra manna sem lögðu grunninn að knattspyrnunni á Selfossi. -

– Það fóru um mig ljúfsárar, nostalgískar tilfinningar við lestur þessa viðtals og margra annarra pistla í þessu prýðilega unna afmælisriti Selfyssinga. Þar á Bárður Guðmundsson mikinn heiður skilinn. Hann hefur alla tíð verið safnari, mjög nákvæmur og haldið snyrtilega utan um ýmsa muni, blaðaúrklippur, skjöl og annað það sem Matti nefnir í viðtalinu. Það hef ég sannreynt í heimssóknum til hans. Sjálfur á ég harla lítið af slíku og helst eitthvað sem Bárður hefur þá gefið mér. En Tuðran gæti orðið til þess að ég fari að róta í gömlu kössum og fletta myndaalbúmum í leit að efni.

“Matti langi” eins og við strákarnir kölluðum Martein Sigurgeirsson var einstakur þjálfari. Hann var aðeins á átjánda ári þegar verið var að endurvekja knattspyrnudeildina á Selfossi og þjálfaði 5. flokkinn sumarið 1963 með þeim einstaka árangri að við töpuðum aðeins einum leik í Íslandsmótinu þarna þetta sumar, fyrir stórveldi KR-inga, raunar með nokkuð miklum mun (!) en unnum ýmsa aðra leiki með yfirburðum, eins og t.d. Breiðablik úr Kópavogi með 6-0.

Matti lagði mikið upp úr því að kenna okkur og þjálfa okkur í ýmis konar knattþrautum. Þannig léku flestir þessir strákar sér að því að halda bolta á lofti a.m.k. hundrað sinnum í einu og ýmislegt í þeim dúr. En mestu skiptir þegar frá líður hvað þetta var gott og uppbyggilegt samfélag sem þessir frumkvöðlar fótboltans á Selfossi voru að skapa.

Það er hárrétt hjá Matta að þetta var mikill uppeldisskóli og þegar hann hefur það eftir mér að við höfum talað góða íslensku þá var ég að vísu til þess að við kölluðum öll stöðuheiti í liðinu íslenskum nöfnum, t.d. hægri bakvörður (mín staða), miðvörður, hægri innherji, miðframherji sem í Reykjavík kallaðist einfaldlega “center”. Ég minnist þess að við upphaf leiks við KR-inga spurði ég þá hver væri vinstri útherji þeirra. Það var eins og ég væri að tala útlent mál, þeir töluðu um “vinstri ving” eða í besta falli kantmann. Sjálfur var ég í stöðu hægri bakvarðar og því ljóst að ég ætti að gæta vinstri útherja. Á daginn kom að í þeirri stöðu var stór og stæðilegur strákur sem mér fannst hreint ekki árennilegur að eiga við. Hann heitir Geirharður Geirharðsson og er nú nágranni minn. Við búum í sömu raðhúslengjunni á Seltjarnarnesi, hann á Bollagörðum 63, en ég nr. 61.

Matti reyndist félagi okkar og vinur. Ég minnist þess ekki að nokkru sinni hafi komið upp einhver agavandamál. Matti sá einfaldlega til þess að við höfðum gaman að því sem við vorum að gera, við virtum hann og hlýddum því með glöðu geði sem hann lagði fyrir okkur. Matti tók upp myndir af leikjunum okkar, eða myndbrot öllu heldur, þannig að það efni getum við og höfum á endurfundum skoðað mörgum áratugum síðar. Og það sem ég segi um mjólkurdrykkjuna er heldur engin lygi. A.m.k. kom það fyrir áður en haldið var í fótboltaferðalög að komið var við austur í Mjólkurbúi Flóamanna (því langstærsta á landinu) og tekinn með dálítill mjókurfarmur í rútuna til að drekka fyrir og eftir kappleiki. Þetta var einfaldlega heilbrigður og góður félagsskapur sem þarna varð til, mannbætandi æskulýðsstarf sem þessir strákar eins og Marteinn Sigurgeirsson, Gylfi Þ. Gíslason (alnafni þáverandi menntamálaráðherra), Björn bróðuir hans (Bjössi rak) og fleiri voru að vinna að á þessum árum.

Ég minnist fótboltakvölda í Sigtúnum, grasflötunum austan við hið mikla hús Kaupfélags Árnesinga, þar sem skipt var í lið og hart barist á fallegum sumarkvöldum. Þar sem meistaraflokkur var varla til á Selfossi á þessum árum voru fyrirmyndir okkar sóttar annað. Flestir strákanna héldu með Skagamönnum en sjálfur hélt ég alltaf með KR. Og svo völdum menn sér einhvern af þessum hetjum og pöntuðu að “vera ” Donni (Halldór Sigurbjörnsson) af Skagananum eða eða Ríkharður Jónsson, Þórður Þórðarson, Ingvar Elísson, Sveinn Teitsson, Jón Leósson, Helgi Daníelsson eða einhver önnur af hetjunum úr Akranesliðinum. Sjálfur sagðist ég alltaf “vera” Garðar Árnason úr KR, en hann var öflugur og leikinn miðvallarleikmaður, landsliðsmaður úr gullaldarliði KR-inga upp úr 1960. Einhver úr því gullaldarliði, ég man ekki hvort það var Ekkert Schram, Sveinn Jónsson eða Bjarni Felixson, sagði einhvern tíma í sjónvarpsviðtali í gamansömum tón að þeir gætu hrósað sér að vild því engar myndir væru til af leikjum þeirra frá gullaldarárunum og því ekki hægt að rengja það sem þeir segðu! Öðru máli gegnir um okkur guttana sem á sama tíma voru að spila í 5. flokki austur á Selfossi, við eigum aðgang að myndbrotum úr ýmsum leikja okkar frá þessum árum, þökk sé sífelldum myndatökum Marteins þjálfara okkar.

Margir strákanna úr 5. flokki áttu eftir að leika í meistaraflokki Selfoss en fremstur okkar var Dengsi (Sumarliði Guðbjartsson) sem lék síðar um skeið með meistaraflokki Fram við góðan orðstír, mikill markastkorari sem vantaði aðeins herslumuninn að vera valinn í landsliðið. En Matti sagði einhvern tíma við okkur á æfingu að hann væri sannfærður um að einhver okkar ætti eftir að ná að leika í landsliðinu. Einn úr okkar hópi varð raunar síðar valinn í landslið þó að ekki væri það í fótbolta, þ.e. Þröstur “víóletta” Guðmundsson, sá ágæti drengur sem varð landsliðsmaður í körfubolta. Þorvarður Hjaltason (Tobbi Hjalta), síðar bæjarfulltrúi á Selfossi m.m., var mjög leikinn og öflugur leikmaður og þrír synir hans áttu eftir að feta í fótspor hans og svo fór um síðir að hann lék með þeim öllum í meistaraflokki Selfossi.

Ég fyllist notsalgíu við lestur þessa ágæta rits og finn mjög til fortíðar. Þetta voru góðir dagar sem maður hefur búið að síðar á lífsleiðinni. Og í gærkvöldi minntist ég þess að það voru nákvæmlega 41 ár liðin frá því að ég fluttist frá Selfossi, 6. janúar 1965. Ekki var ég alveg sáttur við þá ákvörðun foreldra minna en mamma sagði að ég myndi verða henni þakklátur síðar, ég kæmist í betri skóla í Reykjaví o.s.frv. og má það til sanns vegar færa. Og ég gekk fljótlega í KR en þar varð frami minn ekki langur eða mikill, ég varð þó Reykjavíkurmeistari með 4.-flokki “B” og fékk þá dóma hjá Sigurgeiri Guðmannsssyni þjálfara að ég hefði verið sem klettur í vörninni í úrlsitaleiknum gegn Fram! (sem vannst 1-0, ef mig misminnir ekki). Börn mín hafa ótal sinnum heyrt þá sögu og hlæja dátt og afastelpurnar eru farnar að meðtaka þá frægðarsögu einnig. Ég ákvað að hætta á toppnum! Gerði þó “come-back” sumarið 1972 og spilaði með meistaraflokki 3. deildar liði Hugins á Seyðisfirði. Um þau afrek eru þó til litlar skrifaðar heimildir og örugglega engar myndir. Knattspyrnuhetja varð ég sem sé aldrei þrátt fyrir gott veganesti!

Hvað sem slíkum vangaveltum líður þó eru tilfinningar mínar til æsku- og uppvaxtaráranna á Selfossi ljúfar og það var notalegt að fá þetta óvænta tækifæri til að rifja þær upp núna um áramótin. Ég hef alla tíð fylgst vel fótbolta Selfyssinga úr fjarlægð og harmað að þeim hefur aldrei tekist að komast í efstu deild í meistaraflokki. Það er eins og aldrei hafi tekist að fylgja nægilega eftir því mikla og góða brautryðjendastarfi sem unnið var af frumherjunum á sjöunda áratugnum. Kannski að þeir sem haldi um stjórnvöl knattspyrnumála á Selfossi ættu að fara í skóla hjá Marteini Sigurgeirssyni (f. 1945) og taka upp eitthvað af aðferðafræði hans. Það held ég að væri ómaksins vert. Það er nefnilega grundvallaratriði í fótboltanum að menn hafi gaman að því sem þeir eru að gera! Matti kunni þá list að láta lærisveina sína hafa gaman að hlutunum.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2006-01-07/13.12.46/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli