gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« “Níundi dagur” á 370. sýningu Deus ex cinema · Heim · “Guðfræðideild í kröggum” »

Flateyjarár Sigvalda afa í tilefni 125 ára afmælis hans

Gunnlaugur A. Jónsson @ 08.25 14/1/06

Í gær voru liðin 125 ár frá fæðingu Sigvalda Kaldalóns (1881-1946) afa míns. Af því tilefni kom fjölskyldan saman á heimili Sigvalda bróður míns í gærkvöldi. Hefur fjölskyldan haft það fyrir venju um langt árabil að hittast sem næst afmælisdeginum, 13. janúar, ýmist heima hjá einhverjum niðja afa eða í kaffisamsæti í veislusal úti í bæ enda niðjarnir orðnir margir. Í tilefni dagsins birti ég hér punkta sem ég studdist við er ég flutti ávarp við afhjúpun minnisvarða um afa í Flatey á Breiðafirði 7. áhúst 2004 en þar stafaði hann sem læknir á árunum 1926 til 1929. Áður hef ég birt hér á vefsíðunni sitthvað um Ármúlaár afa og Grindavíkurár hans.

Þegar Sigvaldi Kaldalóns læknir og tónskáld kom með fjölskyldu sinni til Flateyjar í kringum Jónsmessu 1926 var hann að hefja störf á nýjan leik eftir langvarandi og erfið veikindi. Hann hóf feril sinn sem læknir á Hólmavík árið 1909 en starfaði síðan sem héraðslæknir í Nauteyrarhéraði við Ísafjarðardjúp með setu á Ármúla árin 1910 til 1921. Þar tók hann sér Kaldalónsnafnið árið 1916.

Ég hef áður haldið því fram að hin mikla náttúrufegurð við Ísafjarðar­djúp hafi átt drjúgan þátt í að leysa úr læðingi hæfileika Sigvalda til tónsmíða en þar urðu til mörg fegurstu laga hans.

Hann var þjóðkunnur sem tónskáld er hann hóf nú störf á nýjan leik sem læknir og enn á stað sem bjó yfir mikilli náttúrufegurð en var jafnframt frá náttúrunnar hendi erfitt læknishérað, ekki síst fyrir mann sem átt hafði við mikla vanheilsu að stríða. En víst er um það að náttúrufegurðin hér við Breiðafjörðinn hefur ekki orðið til að draga úr þörf Sigvalda til að tjá sig í tónum og með nýjum tónum.

Raunar segir sagan að hann hafi ekki dvalið nema tvo daga í eyjunni þegar fyrsta lag hans varð til. Það bar þannig til að mikill vinur og velgjörðarmaður Sigvalda, Ragnar Ásgeirsson ráðunautur, kom að heimsækja hann, og hafði með sér ljóðið „Vorvindur” („Þú mildi vorsins andi”) og afhenti það vini sínum. Sigvaldi settist við hljóðfærið og samdi lagið samstundis.

Ummæli Sigvalda um eigin lög:

Sigvaldi skrifaði Ragnari vini sínum reglulega frá Flatey og hafa þau bréf að geyma margvíslegar og merkar heimildir um tilurð ýmissa laga hans auk ýmiss konar fróðleiks um daglegt líf hér í eyjunni. Yfirleitt er Sigvaldi mjög hógvær í ummælum um login sín. Þannig segir hann t.d. í bréfi til Ragnars sem skrifað er 19. des. 1926: „Ég sendi nú loks litla lagið mitt til ykkar, það er lítið og bátt áfram, eins og svo mörg lög mín eru, en ég vildi óska að það félli ykkur í geð, það er hægur, mildur andvari frá sál minni …”

Ein undantekning er frá þessari reglu. Það er þegar Sigvaldi tjáir sig um eitt sitt þekktasta lag, þ.e. Ísland ögrum skorið. Um það segir hann í bréfi til Ragnars 6. nóvember 1927:

„Nú sendi ég þér tvö smálög, annað er framtíðar þjóðsöngurinn okkar „Ísland ögrum skorið.” Ég veit það hefir það í sér, því öll eldri kynslóðin mundi kannast við blæinn á því. Það þarf bara að bera það fram, því alstaðar þar sem það hefir verið sungið, hefir því verið vel tekið. Þegar þú ferð að raula það muntu fara að elska það … Hugsaðu þér ef við heyrðum þetta lag ytra, heldur þú ekki að hugur okkar myndi fljúga heim til landsins okkar ..? “

Hann segir að lokum: „Þú mátt ekki hlæja að mér, þó eg taki svo djúpt í árinni með „Ísland ögrum”. Ég elska það lag.”

Það var vissulega ólíkt Sigvalda að taka svo sterkt til orða um ágæti eigin verka en hann hefur reynst sannspár um vinsældir lagsins og hér er raunar ekki sagt meira en það sem flestir kunnáttu­menn á sviði tónlistar myndu nú taka undir.

Óhætt er að segja að þjóðin hafi fljótt lært að elska lagið að þó að það hafi ekki hlotið formlegan sess sem þjóðsöngur okkar þá gengur það tvímæla­laust næst þjóðsöngnum í hugum þjóðarinnar og hefur það fram yfir þjóð­sönginn að þjóðin getur sungið lagið og er vissulega sungið við öll möguleg hátíðleg tækifæri!

Lagið Ísland ögrum skorið hefði örugglega aldrei orðið til hefði Sigvaldi Kaldalóns ekki gerst læknir í Flatey. Hann var fyrir vikið staddur þar á tveggja alda afmæli skáldsins Eggerts Ólafssonar 1. desember 1926 og hátíðahöldin í eyjunni af því tilefni urðu til þess að með honum vaknaði löngun til að semja lag við ljóð Eggerts, Ísland ögrum skorið. En Eggert var, sem kunnugt er, fæddur í Svefneyjum á Breiðafirði. Á afmælissamkomunni í kirkjunni var sungið lag Sigvalda við ljóð Sveins Gunnlaussonar: Minni Eggerts Ólafssonar og var það í fyrsta sinn sem sungið var opinberlega undir stjórn Sigvalda.

Um komu Sigvalda til Flateyjar sagði einn samtíðarmaður hans í eynni, Guðmundur Jóhannesson stöðvarstjóri loftskeytastöðvarinnar: „Okkur þótti fengur að fá hann sem lækni, en við tókum honum líka með fögnuði sem listamanni. Við könnuðumst við hann sem tónskáld og kunnum mörg af lögum hans, enda mátti segja, að hann ætti lag á hvers manns tungu” (Bókin um Sigvalda s. 78) … Það var eins og mildur blær fylgdi honum, hvar sem hann fór, og eftir skamma stund fannst öllum sem þeir ættu vini að fagna, þar sem hann var. Hann var fljótur að kynnast fólki og varð brátt lyftistöng í andlegu lífi í Flaey og þá einkum á tónlistarsviðinu” (s. 79).

Nokkurn veginn samtímis því að Sigvaldi kom til Flateyjar sem læknir kom þangað nýr prestur, sr. Sigurður Einarsson þá 27 ára og nýorðinn nýguðfræð­ikandídat sem síðar átti eftir að verða kunnur pólitíkus, útvarps­maður og um skeið dósent við guðfræðideild Háskóla Íslands, mikill fjölfræðingur og ræðuskörungur. Þeir Sigvaldi og sr, Sigurður áttu – þrátt fyrir að þeir væru mjög ólíkir – eftir að verða býsna samrýmdir og starfa náið saman að menningarmálum í Flatey en á þessum árum voru 220-230 manns búsettir í Flatey en hafði þá fækkað nokkuð frá árunum 1912 til 1923 sem Flateyingar nefna blómaárin.

Þeir Sigvaldi og sr. Sigurður héldu t.d. þrjár skemmtanir eða samkomur veturinn 1926 til 1927 til ágóða fyrir kirkjuna en hún var vígð skömmu fyrir jól 1926.

Það má greina það á bréfum Sigvalda frá Flatey að veikindi hans hafa dregið úr honum kjark, hann er þreklítill og á stundum er eins og sótt hafi á hann leiði og honum fundist hann einangraður úti í Flatey en félagsskapur sr. Siguðar verið honum mikils virði. Í bréfi dags. 13. júní 1928 skrifar hann:

„Prestur okkar er ennþá á ferðalagi og sakna ég hans mikið, hefi nú engan að tala við, sem eg hefi ánægju af. – Eg vildi óska að eg hefði einhverja létta stöðu syðra því stundum finnst mér nærri ofþungt ábyrgðarstarf læknisfargsins, svona er ég á milli hysterískur.”

Orð mömmu:

„Í Flatey var hrein paradís fyrir börn. Þar var allt svo yndislegt í umhverfinu, allt iðandi af lífi fyrir augum barnsins, húsdýrin I kringum okkur og fuglarnir kvakandi og syngjandi á sjó og landi. Við vorum í leik upp á grasi vaxinni eynni eða í fjörunni, og langt í burtu eygðum við fjöllin, en bátar komu siglandi úr öllum áttum og gufuskipin komu og lögðust á leguna og ferðafólkið kom og fór, stundum fjölmennir hópar. Það var mikið ævintýri að fylgast með öllu þessu iðandi lífi og undravert að sjá sjóinn allt í kring, en fjöllin blá eða brún í fjarska.

Ég man eftir því, að það var mjög gestkvæmt hjá foreldrum mínum, stundum kom fjöldi folks og það var gleði og glaumur á heimilinu.

Ég vaknaði oftast við músík á morgnana og sofnaði við músík á kvöldin.”

Þannig hefur móðir mín komist að orðið en hún var aðeins sex ára þegar faðir hennar fluttist til Flateyjar ásamt konu sinni og þremur börnum þeirra.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2006-01-14/08.25.52/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli