gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Flateyjarár Sigvalda afa í tilefni 125 ára afmælis hans · Heim · Tungutal guðfræðinema? »

“Guðfræðideild í kröggum”

Gunnlaugur A. Jónsson @ 07.40 17/1/06

“Nemendur guðfræðideildar skora á ráðherra menntamála í landinu að bregðast við hinni alvarlegu stöðu elstu deildar Háskóla Íslands.” Þannig segir meðal annars í grein sem Stefán Einar Stefánsson, formaður Félags guðfræðinema, skrifar í Morgunblaðinu í dag (bls. 28). Það er ástæða til að þakka Stefáni Einari þessa grein. Við venjulegar aðstæður væri það vissulega óeðlilegt að kennari við guðfræðideild tæki því fagnandi að nemendur deildarinnar væru á opinberum vettvangi að láta í ljósi óánægju með námið í deildinni. En nú er fjárhagsstaða deildarinnar einfaldlega þannig að lengra verður ekki gengið í niðurskurði og ekki fer á milli mála að aðhaldsaðgerðir undanfarinna ára eru farnar að bitna mjög á starfi deildarinnar. Á því er formaður Félags guðfræðinema að vekja athygli en ekki að kvarta undan kennslunni sem slíkri.

Þegar kennsluskrá næsta árs var til umfjöllunar á deildarfundi guðfræðideildar á dögunum var þungt hljóðið í deildarfundafulltrúum, jafnt kennarum og fulltrúum nemenda og var hið ónóga námsframboð sem blasir við í kafla guðfræðideildar í kennsluskránni báðum aðilum tilefni til bókana þar sem athygli ér vakin á því hversu alvarlegt ástandið er orðið. Engin föst staða er lengur í guðfræðilegri siðfræði við deildina, aðeins ein staða á stærsta fræðasviðinu, nýjatestamentisfræðum, og deildin hefur ekki getað auglýst stöðu í almennum trúarbragðafræðum. En þar hef ég, eins og margir aðrir kennarar deildarinnar, talið að sóknarfæri guðfræðideildar liggi einkum.

Kennarar deildarinnar hafa á undanförnum árum reynt að brydda upp á ýmis konar nýjungum þrátt fyrir hinn bágborna fjárhag en nú er svo komið að svokallað frjálst nám finnst varla í guðfræðikafla kennsluskrárinnar og er nemendum þó skylt að taka ákveðinn einingafjölda í frjálsu námi. Námskeiðin sem kennd eru í guðfræðideild eru í lægsta reikningsflokki samkvæmt umdeildu deililíkana Háskólans og dugar fjárveiting til deildarinnar ekki til að standa undir nauðsynlegasta kostnaði.

En guðfræðideild er vissulega ekki eina deild Háskólans sem á í fjárhagsvandræðum. Í Morgunblaðinu í dag er að finna ítarlega frétt undir fyrirsögninni “Lagadeild HÍ hefur verið skilin eftir úti í miðri á” þar sem fjallað var um fund sem Röska stóð fyrir um framtíð lagadeildarinnar. Þar kemur fram að lagadeildin búi við við verulegan óhjöfnuð í í samkeppnisumhverfi milli háskólanna í landinu.

Fram hefur verið sett sú hugmynd að guðfræðideildin verði lögð niður sem slík og sameinuð hugvísindadeild. Við sem störfum við elstu deild Háskóla Íslands erum slíkum hugmyndum algjörlega mótfallin enda vandséð hvaða vanda slík sameining myndi leysa þar sem mikill halli er einnig á rekstri hugvísindadeildar. En sú staðreynd að þessi hugmynd hefur verið sett fram af ábyrgum aðilum sýnir væntanlega hversu alvarlegt ástandið er orðið.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2006-01-17/07.40.34/

Athugasemdir

Fjöldi 2, nýjasta neðst

Þorkell @ 17/1/2006 23.43

Getið þið ekki bara selt aflátsbréf upp í hallann? :-)

En, svona öllu gríni sleppt, þá tek ég heils hugar undir þetta hjá þér Gunnlaugur.

Stefán Einar Stefánsson @ 17/1/2006 23.43

Sæll Gunnlaugur,

ég fagna þessari færslu þinni og þakka góð orð í minn garð. Það er vonandi að eitthvað snúist okkur í hag í þessum efnum á næstu misserum. Sameinuð stöndum við og það munum við gera!!!

Lokað er fyrir athugasemdir.

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli