gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« “Guðfræðideild í kröggum” · Heim · Fruntaleg uppsögn Arnþórs »

Tungutal guðfræðinema?

Gunnlaugur A. Jónsson @ 08.59 18/1/06

Jón Hákon Magnússon, ágætur vinur minn, Rótarýfélagi og samstarfsmaður í sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju, var í viðtali í Morgunblaðinu um helgina. Tilefnið var afmæli kynningar- og markaðsfyrirtækis hans KOM. Í viðtalinu kom fram að stærsta verkefnið sem fyrirtækið hefði fengið hefði verið umsjón með kynningarmálum á fundi Reagans og Gorbachovs hér um árið. Þar hefði starfsmönnum fyrirtækisins á nokkrum dögum verið fjölgað úr þremur í rúmlega sextíu. Guðfræðideildin kom óvænt við sögu í þessu viðtali.

Jón Hákon sagði nefnilega að hann hefði nánast ‘tæmt’ guðfræðideildina vegna þessa verkefnis því að þangað hefði hann sótt svo marga starfsmenn. Og hver var ástæðan? Jú, hann hafði af því spurnir að tungumálakunnátta guðfræðinema hefði verið svo góð. Ég óskaði Jóni Hákoni til hamingju með afmæli fyrirtækisins er ég hitti hann á sóknarnefndarfundi og þakkaði honum jafnframt kynninguna á guðfræðideildinni.

Hann sagði að þetta hefði verið alveg satt og fólkið sem hann hefði fengið til starfa úr guðfræðideildinni hefði reynst vel. Ég tel að það sé óbreytt að í guðfræðideildinni sé enn mikið af efnilegu fólki og margt af því með góða tungumálakunnáttu. Hvort hér sé um tungutalsgáfu að ræða skal þó ósagt látið.

Vandræði guðfræðideildar nú um stundir stafa sannarlega ekki af skorti á efnilegum nemendum en alls eru um 150 nemendur við deildina. Vandræðin stafa einfaldlega af því að deildin hefur ekki úr nógu fjármagni að spila, kennslan við deildina hafnar öll í lægsta reikniflokki umdeilds deililíkans og það er innbyggður halli á rekstri deildarinnar sem einfaldlega er ekki hægt að ráða bót á við óbreyttar aðstæður. Lengra verður ekki gengið í niðurskurði en þegar er orðið.

Til að blása til kröftugrar sóknar þyrfti deildin nýjar stöður, bæði í siðfræði og almennum trúarbragðafræðum en mikil þörf er á aukinni kennslu á því fræðasviði. Fastráðinn kennari í almennum trúarbragðafræðum myndi vafalaust stórefla deildina. Fyrir því þurfum við að berjast og ekki beygja okkur fyrir hótunum um að deildin verði lögð niður eða gerð að skor í hugvísindadeild.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2006-01-18/08.59.39/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli