gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Vont að þurfa að treysta á aðra · Heim · Brotlending örþeyttra Íslendinga á EM »

Walter Zimmerli og opinberun Jahveh-nafnsins

Gunnlaugur A. Jónsson @ 02.48 2/2/06

Walter Zimmerli (1906-1983) var borinn og barnfæddur Svisslendingur sem hlaut menntun sína í Zurich, Berlin og Göttingen. Hann starfaði um árabil sem prestur í Sviss en leiðbeindi jafnframt guðfræðinemum. Á þeim tíma skrifaði hann m.a. athyglisvert rit um frumsöguna í Genesis 1-11 (1943).

Hann var kallaður til Göttingen 1950 og starfaði þar sem prófessor fram að eftirlaunaaldri 1975 og bjó þar til æfiloka. Bók Zimmerlis Old Testament Theology in Outline (Ensk þýðing 1978, en verkið kom upphaflega út á þýsku árið 1972: Grundriss der alttestametnlichen Theologie) var um nokkurra ára skeið notuð sem kennslubók við guðfræðideild H.Í. Zimmerli segist í guðfræði sinni vera í stöðugum ‘díalóg’ við Gerhard von Rad (1901-1971) og andmælir einhliða áherslu á söguna.

Þrátt fyrir að Zimmerli, eins og von Rad, hafni því að til sé einhver samnefnari fyrir boðskap Gamla testamentisins þá leggur hann áherslu á það sem er sameiginlegt í boðskap Gamla testamentisins, þ.e. að það birti trú á einn og sama Guð, Jahveh, allan tímann.

Opinberun nafnsins, Jahveh, fær mjög veglegan sess í guðfræði Zimmerlis. Hann byrjar bók sína á tilvitnun í 1. boðorðið, sem er að nokkru leyti látið ráða niðurröðun efnisins í bókinni, þ.e. fyrst er fjallað um gjafir Jahveh (‘Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig…’) og síðan boð hans (‘Þú skalt ekki aðra guði hafa..’).

Því má segja að bók hans um guðfræði Gamla testamentisins sé að vissu leyti byggð upp eftir forminu: fagnaðarerindi-lögmál. Áhugi Zimmerlis tengdist annars mest spámönnum Gamla testamentisins, einkum Jesaja, Deutero-Jesaja, Jeremía og Esekíel sem hann nefndi ‘guðfræðinginn meðal spámannanna.’

url: http://gunnlaugur.annall.is/2006-02-02/02.48.37/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli