gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Brotlending örþeyttra Íslendinga á EM · Heim · Hundrað ár frá fæðingu Dietrich Bonhoeffers »

Walter Brueggemann og guðfræði G.t.

Gunnlaugur A. Jónsson @ 00.17 3/2/06

Walter Brueggemann (f. 1932) er sennilega áhrifamesti G.t.-fræðingur Bandaríkjamanna nú um stundir. Útkoma hinnar voldugu bókar hans, Theology of the Old Testament, í lok árs 1997 hefur vakið mikla athygli. Hún hefur verið notuð sem kennslubók í greininni við guðfræðideild H.Í.

Brueggemann hefur skrifað fjölda skýringarita við einstök rit Gamla testamentisins: Genesis (1982), Exodus (1994), 1. og 2. Samúelsbók (1988 og 1991) og Jesaja (1998). Þá hefur hann skrifað mikið um sálmana án þess þó að hafa skrifað hefðbundið skýringarit við Saltarann og fjölmargar bækur um einstaka þætti gamlatesta­mentis­fræðanna hefur hann skrifað fyrir Fortress Press.

Var bók hans um guðfræði Gamla testamentisins fjórtánda bók hans sem kom út hjá því forlagi. Þó að Brueggemann sé enn í fullu fjöri er ljóst að bók hans um guðfræði Gamla testamentisins mun hljóta þann sess að teljast hápunkturinn á merkum fræðaferli hans. Hefur því raunar verið haldið fram að hér sé um að ræða merkustu bók um þetta efni sem skrifuð hefur verið af Bandaríkjamanni og skal tekið undir þá skoðun hér.

Brueggemann er prestsvígður en starfsvettvangur hans hefur þó fyrst og fremst verið innan akademíunnar. Hann hefur sýnt mikinn áhuga á félagsfræði og hvernig hún hefur verið nýtt á sviði biblíufræðanna, ekki síst í hinu volduga og þekkta verki Norman Gottwalds, The Tribes of Yahweh (1979). [Kenning um bændauppreisn á kanverskri grundu í stað björgunar þræla frá Egypta­landi].

Brueggemann er jöfnum höndum ritskýrandi og guðfræðingur í nálgun sinni gagnvart Gamla testamentinu, eins og ritsmíðar hans bera með sér. Það kemur ekki á óvart að hann skuli senda frá sér bók um efnið guð­fræði Gamla testamentisins því að árið 1973 varð hann ritstjóri nýrrar rit­raðar hjá Fortress Press sem nefndist Overtures to Biblical Theology. Tilgangurinn með þessari ritröð var að reyna að fá fram meiri guð­fræði­lega umræðu í stað hinnar ríkjandi sögulegu áherslu í fræðunum. Sjálfur skrifaði Bruegge­mann fyrsta verkið í þessari ritröð, bókina The Land (1977).

Þar eru tengsl Ísraels­þjóðarinnar við landið rakin í gegnum bæði testamentin og loks leitast hann við að skoða þau tengsl í ljósi samtímans. Þar er að finna eitt einkenni hans sem fræðimanns, þ.e. hversu óhræddur hann er við að byggja brúna frá hinum fornu biblíutextum yfir til samtíma okkar. Má raunar segja að í þeim efnum hafi bandarískir biblíufræðingar oft verið óhræddari en starfsbræður þeirra og -systur á meginlandi Evrópu og í Skandinavíu.

Það er einnig áberandi einkenni á Brueggemann sem fræðimanni hversu fjarri því fer að hann afmarki sig á mjög þröngu fræðasviði og setji einhverja aðferð eða nálgun efnisins á þann stall að vera hina einu réttu. Þvert á móti leitar hann mjög í smiðju til annarra fræðigreina og er óhræddur við að beita ólíkum aðferðum, eftir því sem við á hverju sinni. Áður hefur verið nefndur áhugi hans á félagsfræði og bókmennta­fræði.

En verk hans bera það einnig með sér að hann er vel að sér í heimspeki og er greinilega undir sterkum áhrifum frá Paul Ricoeur. Þá er hann óhræddur að vitna í sálfræði og skáldverk auk annarra greina guð­fræð­innar, svo sem trúfræði og kennimannlega guðfræði. Samtal hans við gyðingdóm er sömuleiðis áberandi þáttur í bók hans um guðfræði Gamla testamentisins og nýjar stefnur í biblíufræðunum, svo sem frelsunar­guð­fræði og kvennaguðfræði tekur hann til umræðu.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2006-02-03/00.17.02/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli