gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« The Constant Gardener sýnd hjá Deus ex cinema í gærkvöldi · Heim · Góð kaup á bókamarkaði – Sjö bækur á 4529 kr. »

Sigríður G. Johnson – Minning

Gunnlaugur A. Jónsson @ 22.08 24/2/06

Í dag var Sigríður G. Johnson (3.1.1929-16.2-2006) jarðsungin frá Dómkirkjunni. Það var sr. Þórir Stephensen, fyrrv. Dómkirkjuprestur og persónulegur vinur hinnar látnu og eiginmanns hennar Hannesar Johnson, sem jarðsöng. Fórst sr. Þóri það sérlega vel úr hendi. Þau hjón Sigríður og Hannes Johnson voru nágrannar foreldra minna og okkar barna þeirra úti á Skólabraut á Seltjarnarnesi. Mér var sýndur sá sómi að bera kistu Sigríður úr kirkju svo og Sigvalda bróður mínum. Hér á eftir fer minningargrein sem ég skrifaði um Sirrý, eins og hún var jafnan kölluð. Minningargreinin birtist í Morgunblaðinu í dag. Greinina rammaði ég inn (inclusio) með tilvísunum i tvo texta úr Gamla testamentinu sem mér fannst hæfa tilefninu.

  

Væna konu, hver hlýtur hana?

Hún er miklu meira virði en perlur. (Orðskv 31:10).

Það er ekki lítils virði að eignast góða nágranna. Sú var gæfa foreldra minna er þau höfðu reist sér hús vestan í Valhúsahæð á Seltjarnarnesi í árslok 1965, nánar tiltekið á Skólabraut 61. Það var býsna einangrað þarna á Seltjarnarnesi í þá daga, nánast eins og að flytjast út í sveit. Eitt hús stóð þó fyrir á Skólabraut 63 (nú eru húsin númer 35 og 37 við Valhúsabraut). Húsið höfðu hjónin Sigríður og Hannes Johnson keypt fokhelt og flutt inn 1. desember 1959.

Útsýnið þaðan er án efa eitthvert hið fegursta á öllu Seltjarnarnesi, einkum þegar Snæfellsjökull blasir við í allri sinni dýrð á sólríkum sumarkvöldum. Og vitinn í Gróttu spillir ekki heldur fyrir í því fallega málverki náttúrunnar sem blasir við ofan af Valhúsahæð.

Ekki var á þessum árum mikið af húsum vestar á Seltjarnarnesi og þar sem nú eru hús við hús á Miðbraut, Vallarbraut, og einkum þó Hofgörðum og Bollagörðum, voru fyrst og fremst óspilltar grasflatir þar sem kríurnar gerðu sér hreiður en einnig víðáttumikið leiksvæði fyrir krakka og fínustu fótboltavellir frá náttúrunnar hendi.

Það kom að sjálfu sér að samskipti urðu á milli fjölskyldnanna í húsunum tveimur sem stóðu svo einangruð þarna alveg úti á enda Skólabrautarinnar. Kannski ekki svo mikil allra fyrstu árin enda benti flest til þess að heimilisfeðurnir væru harla ólíkrar gerðar. Hannes Johnson var mikill heimsmaður, mótaður af dvöl og námi í Bandaríkjunum og sótti jafnan mikið þangað. Hið sama átti við um Sigríði Guðbjörgu (Sirrý) konu hans sem verið hafði ein af sex fyrstu flugfreyjunum hér á landi og starfað hjá Loftleiðum og Flugfélagi Íslands 1947 til 1949 eftir að hafa lokið prófi frá Kvennaskólanum.

Þegar frá leið tókst engu að síður traust vinátta milli þessara ólíku nágranna. Þeir Hannes og faðir minn, Jón Gunnlaugsson læknir, urðu nánir vinir, sama átti við um Sirrý og móður mína, Selmu Kaldalóns. Fékk Sirrý hana m.a. til að ganga í kvenfélagið Hringinn þar sem Sirrý var formaður á árunum 1981-1987. Var mikið og gott starf Sírrýar á þeim vettvangi til marks um að hún vildi láta gott af sér leiða gagnvart þeim sem minna máttu sín í samfélaginu. Á því sviði hafa Sigríður Johnson og aðrar Hringskonur svo sannarlega unnið þrekvirki.

Sirrý var glæsileg kona og leyndi sér ekki hve Hannes var alla tíð hrifinn og stoltur af henni. Hún var sömuleiðis mikil húsmóðir, bjó til sérlega góðan og girnilegan mat og hélt fínar veislur á hlýlegu heimili þeirra sem allt bar vott um smekkvísi þeirra hjóna.

Eftir að móðir mín hafði látist af slysförum í desember 1984, sýndu þau hjónin Sirrý og Hannes enn betur en áður hvílíkir nágrannar og vinir þau voru þegar á reyndi. Þau studdu föður minn með ráðum og dáð og það leið vart sá dagur að Hannes kæmi ekki yfir til að spjalla við föður minn eða að Sirrý kallaði á hann yfir til þeirra í kaffi. Sirrý fylgdist líka vel með barnabörnum foreldra minna, þekkti nöfn þeirra allra, spurði frétta af þeim og lét sér annt um þau.

Fyrir þessa miklu vináttu og ræktarsemi erum við börn þeirra Selmu og Jóns þeim Sigríði og Hannesi Johnson ævinlega þakklát og blessum nú minningu þessara miklu sómahjóna. Þau reyndust góðir nágrannar, sannkallaðir vinir í raun.

Sirrý og Hannes voru samrýmd hjón svo eftir var tekið. Hin síðari ár sá maður þau nær daglega á gönguferðum á Nesinu og fóru þau þá yfirleitt í sund saman. Þau skruppu þó oft til Bandaríkjanna á vetrum og dvöldust þar yfirleitt í nokkrar vikur í senn. Það var Sirrý mikill missir þegar Hannes lést fyrir fjórum árum. Hún bar eiginlega aldrei barr sitt eftir að hafa misst lífsförunaut sinn og veiktist fljótlega eftir það. Nú þegar þessi elskulegu og samhentu hjón eru bæði látin koma mér í hug hin fallegu orð Gamla testamentisins:

Hvert sem þú ferð, þangað fer ég,

og hvar sem þú náttar, þar nátta ég.

Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð.

Hvar sem þú deyrð, þar dey ég,

og þar vil ég vera grafin. (Rut 1:16-17)

Blessuð sé minning Sigríðar G. Johnson. Börnum Sigríðar og Hannesar, þeim Hildi og Agnari og fjölskyldum þeirra sendi ég innilegar samúðarkveðjur systkina minna og fjölskyldu.

Gunnlaugur A. Jónsson

url: http://gunnlaugur.annall.is/2006-02-24/22.08.35/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli