gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Fallegt glerlistaverk helgað í páskamessu á Seltjarnarnesi · Heim · Lýðræðiskjörin stjórnvöld Palestínu réttlæta sjálfsmorðsárás »

Fermingarafmælið og bækurnar

Gunnlaugur A. Jónsson @ 07.19 18/4/06

Fermingar voru víða um land í gær á annan páskadag, 17. apríl. Það minnti mig á að einmitt þann dag 17. apríl 1966 var ég fermdur af sr. Jóni Thorarensen í Neskirkju. Ekki varð fermingarafmælið mér tilefni til hátíðarhalda umfram það sem annar páskadagur gaf tilefni til. Ég fór þó með afastelpurnar í göngutúr eftir hádegið og litum við inn í Seltjarnarneskirkju en í safnaðarheimilinu þar stóð þá yfir fermingarveisla sonar sr. Örnu Grétarsdóttur, prests okkar Seltirninga.

Það sem tryggir að ég gleymi ekki fermingardegi mínum eru einna helst nokkrar bókagjafir sem eru áritaðar til mín og fermingardagurinn skráður. Þar ber hæst Biblíu frá sr. Sigurði Pálssyni á Selfossi (síðar vígslubiskupi). Hann skráir daginn 17. apríl 1966 og skrifar síðan: “Guðs Orð er ljós sem lýsir. Megi birta þess fylgja þér.”

Oft hef ég notað hliðstæða áritun er ég hef gefið Biblíu í fermingargjöf. Óhætt er að segja að Biblían hafi mér reynst mér “ljós sem lýsir” og er engin bók mér kærari. Ekki gat ég þó séð það fyrir á fermingardaginn að ég ætti eftir að starfa við það í framtíðinni að rannsaka þessa Bók bókanna og kenna í guðfræðideild Háskóla Íslands.

Kærkomin gjöf var líka Heimskringa í þremur bindum, gjöf frá Karli föðurbróður mínum og Berki syni hans. Hefur Börkur skrautritað fermingarkveðjuna á bókina frá þeim feðgum.

Loks eru í bókahillum mínum níu binda verk Nordisk Konversations Leksion , 5. útg. frá 1966. Þessar bækur eru ekki áritaðar en ég man ekki betur að þar hafi verið um að ræða sameiginlega gjöf frá foreldrum mínum og Snæbirni Kaldalóns, móðurbróður mínum, sem hafi séð um að panta þær frá Danmörku.

Eitthvað fékk ég af peningagjöfum á fermingardaginn en man lítið eftir því. Man það bara að þar var um að ræða margfalt lægri upphæð en maður heyrði að ýmsir skólafélaganna í Hagaskólunum höfðu fengið. Á þeim árum, ekki síður en nú, blöskraði líka ýmsum hversu mikla fjármuni ýmis fermingabörn fengu. Ekki minnist ég þess að hafa öfundast í þá sem sagðir voru hafa fengið þessar himinháu peningagjafir á fermingardaginn.

Í minningunni er fermingardagurinn ánægjulegur dagur. Það var haldið kaffiboð heima á Skólabraut á Seltjarnarnesi fyrir ættingja og fáeina vini. Ég minntist þess þó að systur mínar fjórar sem fermst höfðu á undan mér höfðu allar fengið veglega matarveislu. En þar var ólíku saman að jafna, veislurnar haldnar á Selfossi og flestir gestanna komu úr Reykjavík. Ég var þá sem nú áhugasamur um mat og fannst þetta heldur lakara en ekki þurfti ég að kvarta undan kaffiborðinu, það var vissulega hlaðið kræsingum.

Mér þykir leiðinlegt að muna ekki ritningarorðið sem presturinn valdi mér. Það var bara lesið upp í kirkjunni og ég held að ég hafi varla tekið eftir því hvert það var, a.m.k. búinn að gleyma því þegar heim var komið. Nú er það siður víða í kirkjum að fermingarbörn velji sér sjálf ritningarorð með foreldrum sínum og finnst mér það gott fyrirkomulag.

Ekki man ég annað en mér hafi verið full alvara með fermingarheiti mínu og tek að sjálfsögðu engan veginn undir með blaðamanni einum sem nýverið lýsti því yfir í einu dagblaðanna að hann iðraðist þess að hafa látið fermast. Lét hann sér skilja að hann hefði aðeins fermst peninganna vegna.

Fermingarfræðslan sem ég fékk hefði vissulega mátt vera meiri og betri. Mest fór fyrir utanbókarlærdómi á sálmum sem ég kann vissulega ýmsa enn og finnst gott að hafa lært snemma, en einhvernig veginn finnst mér sem fræðslan hafi litlu bætt við þau grundvallaratriði kristindómsins sem ég hafði þegar numið í foreldrahúsum. Minnist ég þess raunar að í fyrsta fermingartímanum furðaði ég mjög á því að fæst fermingarbarnanna kunnu faðir-vorið. Það hafði ég hins vegar lært löngu áður en ég lærði að lesa.

Þá fannst mér, eins og ýmsum fermingarbörnum öðrum, að það væri ljóður á ráði prestanna í Neskirkju að þeir skyldu ekki ferma saman. Ekki fór það framhjá okkur að samkomulag þeirra var ekki nógu gott.

Þegar ég hugsa til þessa dags stendur uppúr í minningunni elskusemi foreldra minna í minn garð og það að þeim fannst þetta mikilvægur áfangi í lífi mínu og lögðu sig fram um að gera daginn eftirminnilegan og ánægjulegan en forðast jafnframt allt bruðl. Ég hafði frá bernsku hlotið kristilegt uppeldi og fermingardagurinn var rökrétt framhald af því uppeldi.

Og bókagafirnar hafa sýnt sig að hafa elst betur en aðrar gjafir frá þessum degi sem flestar hafa fallið í gleymskunnar dá.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2006-04-18/07.19.39/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli