gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Lýðræðiskjörin stjórnvöld Palestínu réttlæta sjálfsmorðsárás · Heim · Í fimmtugsafmæli bæjarfulltrúa »

Prófessor Daniel J. Simundson í heimsókn

Gunnlaugur A. Jónsson @ 07.21 20/4/06

Góður vinur minn kom í stutta heimsókn til landsins í gærmorgun. Þar er um að ræða Daniel J. Simundson (frb. Sæmundsson) fyrrv. prófessor í gamlatestamentisfræðum við Luther Seminary í St. Paul, Minnesota. Með honum í för er Patty vinkona hans. Nokkrir vinir hans og fyrrv. nemendur úr hópi guðfræðinga hittu Daniel og Patty í kaffi á Þjóðminjasafninu í gær. Auk mín voru það Arnfríður Guðmundsdóttir dósent, Árni Svanur Daníelsson doktorsnemi sem var í hópi nemenda Daníels er hann kenndi námskeið um Jobsbók í rannsóknaleyfi sínu hér á landi haustið 1999, Gunnar Rúnar Matthíasson sjúkrahúsprestur og Vigfús Albertsson sjúkrahúsprestur sem stundaði framhaldsnám í sálgæslu við Luther Seminary.

Það var sérlega ánægjulegt að hitta Daniel á nýjan leik, hressan og kátan. Hann færði mér að gjöf skýringarit sitt við sex af minni spámönnum Gamla testamentisins (Hósea, Jóel, Amos, Óbadía, Jónas og Míka). Rit þetta, sem kom út hjá Abingdon Press í Nashville í fyrra, byrjaði Daníel að skrifa í rannsóknaleyfi sínu hér á landi. Þá lauk hann við að skrifa um Amos og Óbadía. Þetta er eigulegt rit sem ég hlakka mjög til að lesa. Af kynnum mínum af ýmsum fyrri rita Daníels veit ég að ritið einkennist af skemmtilegum tengslum við sálgæslu og viðleitni til að heimfæra boðskapinn til samtímans.

Á baksíðu er að finna þessi ummæli um bókina sem hinn kunni Gt-fræðingur Terence E. Fretheim hefur skrifað: “Simundson brings an unusual combination of skills to commentary writing, including Old Testament exgesis, pastoral counseling, and an ability to write clearly and succinctly for laity and clergy. Those who preach and teach on these prophetic books will find here a valuable friend for their times of preparation.”

Það má mikið vera ef ég mun ekki nota þessa bók í námskeiðinu um Ritskýringu spámanna á vormisserinu 2007.

Hér á eftir fer svo færsla mín um Daníel úr riti mínu: Hundrað gamlatestamentisfræðingar:

Daniel J. Simundson (f. 1933). Vestur-íslenskur gamlatestamentisfræðingur sem lengst af hefur kennt við Northwestern Lutheran Theological Seminary í St. Paul í Minnesota. Kjörinn heiðursdoktor í guðfræði við guðfræðideild Háskóla Íslands í september 2000. Haustmisserið 1999 hafði hann dvalið hér á landi og kennt námskeið um Jobsbók við guðfræðideildina. Í ritstörfum sínum hefur hann á mjög svo athyglisverðan hátt tengt ritskýringu sálgæslu en af henni hefur hann reynslu sem fyrrverandi sjúkrahúsprestur. Þessi tengsl koma fram í flestum bóka hans, þ. á m. í Where is God in My Suffering (1983) og í The Message of Job (1986).

url: http://gunnlaugur.annall.is/2006-04-20/07.21.05/

Athugasemdir

Fjöldi 2, nýjasta neðst

Þorkell @ 20/4/2006 19.12

Leitt að missa af honum. Hefði viljað heilsa upp á kallinn. Líklega of seint að senda kveðju, eða hvað?

Gunnlaugur @ 20/4/2006 20.38

Ég sagði honum af þér, hvar þú værir niðurkominn og hvað þú værir að gera. Hann man auðvitað vel eftir þér og var áhugasamur um að heyra af þér. Hann er núna í kvöldmat hjá frænku sinni og er aftur út á morgun. Þannig að ég mun ekki hitta hann aftur að þessu sinni. Hins vegar ræddum við um að fara báðir á SBL-þingið í haust sem að þessu sinni verður haldið í Wasington og hittast þar.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli