gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Listamönnum vel fagnað á Dvorák-tónleikum í gær · Heim · Snorri Hjartarson og dagur bókarinnar »

Við útför Magneu Þorkelsdóttur

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.13 22/4/06

Ég var við útför Magneu Þorkelsdóttur biskupsfrúar í þéttsetinni Hallgrímskirkju í gær. Gekk ofan úr Háskóla um kl. 12:30, þegar hætti að rigna, en hitti dr. Arnfríði Guðmundsdóttur, samkennara minn, þar sem hún var að leggja bíl sínum á leið til útfararinnar og urðum við samferða síðasta spölinn og sátum saman í kirkjunni. Það var sr. Sigurður Pálsson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju, sem jarðsöng og fórst það vel úr hendi. Ég á hlýjar minningar af Magneu, var um skeið heimagangur hjá þeim hjónum á Bergstaðstrætinu og varð einu sinni þess heiðurs aðnjótandi, ungur guðfræðinemi, að vera bílstjóri þeirra í ógleymandlegri visitasíuferð um Suðurland.

Magnea hafði eignast 73 niðja þegar hún dó 95 ára að aldri. Sigurbjörn biskup lifir konu sína, er enn við góða heilsu og er enn að senda frá sér bækur. Það er mikið þakkarefni.

Margar fallegar minningargreinar birtust um Magneu í Morgunblaðinu í gær, flestar skrifaðar af niðjum hennar. Myndin sem þar er dregin upp af henni kemur vel heim og saman við kynni mín af henni. Fleiri minningargreinar birtust síðan í Morgunblaðinu í dag (22. apríl).

Magnea var hlý, hljóðlát og hógvær kona, sérlega elskuleg í allri framkomu. Alltaf tók hún manni af sömu vinsemd. Mér hefur alltaf þótt vænt um þau hjón. Ég vissi það snemma að Sigurbjörn biskup hafði skírt mig og fannst það sannarlega ekki lakara.

Það var þó ekki fyrr en á Menntaskólaárum sem ég kynntist þeim persónulega. Við Gunnar, yngsti sonur þeirra, vorum bekkjarbræður í MR og varð okkur vel til vina og umgengumst mikið á tímabili. Kom ég þá oft á biskupssetrið á Bergstaðastrætinu. Þar voru móttökurnar þannig að það var eins og maður væri einn af fjölskyldunni.

Magnea var hannyrðakona svo af bar og falleg er myndin sem birtist í Morgunblaðinu í dag (bls. 4) af Sigurbirni, hinum aldna biskupi okkar, innan um fimmtán afkomendur þeirra hjóna í kvenlegg. Allar eru stúlkurnar klæddar fallegum þjóðbúningum sem Magnea hafði saumað handa þeim.

Vel skil ég sr. Bernharð þegar hann segir um Magneu, tendamóður sína, í fallegri minningargrein í Morgunblaðinu í gær að hann hafi aldrei skilið svokallaða tengdamömmubrandara. Að eiga slíka konu að tengdamóður hlýtur að gera það að verkum að slíkir brandarar missa marks hjá viðkomandi.

Mikil og merk kona er gengin sem íslensk kristni á mikið að þakka. Lýsingin á hinnu vænu konu í Orðskviðum Gamla testamentisins 31:10-31 (Norska biblían þýðir hins vegar með orðunum “den gode kona”) kom mér strax í hug er ég spurði andlát hennar.

Þar segir meðal annars:

Hún býr til ábreiður,

klæðnaður hennar er úr baðmull og purpura.

Maður hennar er mikils metinn í borgarhliðunum…

Hún opnar munninn með speki,

og ástúðleg fræðsla er á tungu hennar.

Hún vakir yfir því, sem fram fer á heimili hennar,

og etur ekki letinnar brauð.

Synir hennar ganga fram og segja hana sæla,

maður hennar gengur fram og hrósar henni:

“Margar konur hafa sýnt dugnað,

en þú tekur þeim öllum fram!”

Yndisþokkinn er svikull og fríðleikinn hverfull,

en sú kona sem óttast Drottin, á hrós skilið.

Gefið henni af ávexti handa hennar,

og verk hennar skulu lofa hana í borgarhliðunum.

Mér er minnistætt er ég kom fyrir allmörgum árum á Reynigrund í Kópavogi til fundar við Sigurbjörn biskup. Móttökurnar voru þær sömu og áður. Magnea bar fram kaffi og meðlæti og kom svo og smellti mynd af okkur Sigurbirni, skírnarföður mínum, þar sem við sátum og spjölluðum saman. Það þótti mér vænt um.

Fyrir fáeinum mánuðum sat ég aftur og átti langt og gefandi spjall við Sigurbjörn biskup eitt síðdegi inni í Reynigrund. En sá munur var nú á að Magnea var ekki heima. Hún var farin að heilsu en gott var til þess að vita að hún dvaldist löngum stundum hjá Rannveigu dóttur sinni og Bernharði tengdasyni í Skálholti. Þar var hún í góðum höndum.

Á þeim helga stað dó svo þessi kyrrláta og, ég vil segja, helga kona í örmum dóttur sinnar í kyrruviku. Það var kveðjustund sem hæfði þessari mikilhæfu og góðu konu.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2006-04-22/09.13.14/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli