gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Tvær myndir á sýningu Deus ex cinema í gærkvöldi · Heim · Athyglisverð heilsubót: Að leggja göngustígi »

Hæðirnar girðast fögnuði – Náttúrulýsingar í Saltaranum

Gunnlaugur A. Jónsson @ 07.04 30/6/06

Þrátt fyrir yfirskrift þessa pistils míns er í raun hæpið að tala um náttúru­lýsingar í Saltaranum, þ.e. í Davíðssálmum Gamla testamentisins. Hugtakið náttúra eða hebresk hliðstæða þess kemur nefnilega ekki fyrir, hvorki í Saltararnum né í Gamla testamentinu yfirleitt. Erindið sem hér fer á eftir var flutt á kirkjudögum í Strandarkikrju 25. júlí 2004 og birti ég það nú á vefsíðu minni í tilefni af rannsókn minni á hebresku kveðskaparformi nú í sumar.

DROTTNI HEYRIR JÖRÐIN

En vissulega er í Gamla testamentinu og þar með Saltaranum að finna lýsingar á ýmsu því sem við fellum undir hugtakið náttúra. Sameiginlegt með því öllu er að það er talið eiga rætur sína hjá Guði eða Drottni, skapara himins og jarðar, eða eins og segir í 24. Davíðssálmi:

„Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er,

heimurinn og þeir sem í honum búa.” (Sl 24:1).

Jörðin heyrir Drottni til vegna þess að hann hefur skapað hana. Þetta er ekki aðeins boðskapur Saltarans eða Davíðssálma heldur nokkuð sem allur trúarvitnisburður Gamla testamentisins virðist byggja á.

Það er eftirtektarvert að þegar rætt er um sköpun í Gamla testamentinu þá er aldrei rætt um trú í sömu andrá. Af þeim sökum hafa ýmsir fræðimenn haldið því fram að uppruni jarðarinnar og þess sem á henni er hafi einfald­lega ekki verið trúaratriði hjá Hebreum í þeirri merkingu sem við leggjum yfirleitt í orðið trú heldur eitthvað sem gengið var að sem vísu. Þessu hefur hinn kunni þýski ritskýrandi Hans-Joachim Kraus and-mælt. Undir þau andmæli get ég að vissu leyti tekið.

Sköpunarvitnisburði Gamla testamentisins er ekki síst að finna innan Davíðssálma og þeir eru vissulega tjáning trúar þar sem Guð er lofsunginn í senn fyrir hvernig hann hefur með margvíslegum og undursamlegum hætti látið til sín taka í sögu hinnar hebresku þjóðar og jafnframt fyrir undur sköpunarinnar. Oft virðist bilið þarna á milli harla óljóst, þ.e. inngrip Guðs í söguna annars vegar og sköpunarverk hans hins vegar.

MAÐURINN SEM HLUTI SKÖPUNARVERSKINS

Náttúran að okkar skilningi er jörðin með því sem henni tilheyrir, þ.e. dýrin, gróðurinn og löndin, jörðin og allt sem tilheyrir áður en maðurinn og verk hans koma til, eins og segir í Orðabók (Mörður Árnason 2. bd., s. 1051. Auðvitað er mér ljóst að skoðanir eru mjög skiptar á samspilinu milli manns og náttúru en út í þá sálma kaus ég að fara ekki í þessu stutta erindi).

Hér skilur á milli því að í Davíðssálmum og Gamla etstamentinu yfirleitt er maðurinn hluti sköpunarverksins þó að hann hafi þar vissulega nokkra sérstöðu.

Í Gamla testamentinu er að finna þá hugsun að maðurinn hafi hlotið það hlutverk að vera ráðsmaður hans yfir sköpunarverkinu. Hafa þeir ritningarstaðir er þá hugsun tjá iðulega verið dregnir inn í visfræðiumræðu nútímans. Það á t.d. við um 8. sálminn þar sem segir:

Þú lést hann verða litlu minni en Guð,

Með sæmd og heiðri krýndir þú hann.

Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum,

Allt lagðir þú að fótum hans: saufénað allan og uxa,

Og auk þess dýr merkurinnar,

Fugla loftsins og fiska hafsins,

Allt það er fer hafsins vegu.

En ekkert fer á milli mála að maðurinn starfar aðeins í umboði skapara sins „því að Drottni heyrir jörðin”. Það er því engan veginn í samræmi við boðskap Gamla testamentisins að maðurinn geti farið með nátt­úruna að vild sinni. En inn í hinar miklu vistfræðilegu spurningar var ekki ætlun mín að fara hér í dag.

OPINBERUN GUÐS Í SKÖPUNINNI

Því til staðfestingar að sköpunarverkið beri skapara sínum vitni má benda á upphaf 19. sálms Saltarans, þar sem segir:

„Himnarnir segja frá Guðs dýrð,

og festingin kunngjörir verkin hans handa.”

Þannig var náttúran, hvort heldur er himinn eða jörð, þeim sem lifðu í því trúar­samfélagi sem skóp Gamla testamentið stöðug áminning um raunveruleika Guðs.

Sá sálmur sem hér er vitnað til er mjög athyglisverður fyrir þá sök að hann skiptist í tvo býsna ólíka hluta sem eiga það þó sameiginlegt að þeir greina báðir frá opin­berun Guðs, annars vegar opinberun í sköpuninni (v. 2-7) og hins vegar opin­berun í lögmálinu eða Guðs orði (v. 8-15).

„Lögmál Drottins er lýtalaust,

hressir sálina.

Vitnisburður Drottins er áreiðanlegur,

Gjörir hinn fávísa vitran” (Sl 19:8).

Komist hefur verið þannig að orði að fyrri hluti sálmsins fjalli um þá skipan sem Guð hefur komið á í sköpuninni og síðari hlutinn fjalli um þá skipan sem hann vill að ráði meðal manna. Hér er sköpunarverkið m.ö.o. sett jafnfætis orði Guðs.

FJÖLLIN

Kunnur Íslendingur hefur komist þannig að orði að Íslendingar séu aðeins trúaðir uppi á fjöllum! Hvað sem um þau ummæli má segja þá er það í góðu samræmi við bæði Davíðssálma og aðra hluta Ritningarinnar að skynja hönd Guðs að baki náttúrunni og að fyllast trúarlegri lotningu og gleði gagnvart því undri sem sköpunarverkið vissulega er.

Einn af kunnustu sálmum Saltarans og sá sem mér er hvað kærastur, þ.e. Sl 121, hefst á þessum orðum:

„Ég hef augu mín til fjallanna,

hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frás Drottni,

skapara himins og jarðar.”

Fræðimenn greinir á hvernig túlka beri upphafsorð þessa sálms, hvort um sé að ræða ótta við þær hættur sem kunni að leynast í fjöllunum eða hvort það sé þvert á móti þannig að sá sem hér talar vænti hjálpar frá fjöllunum. Síðarnefndu skoðuninni til stuðnings má benda á að opinberun Guðs var gjarnan tengd fjöllum (sbr. gjöf lögmálsins á Sínaífjalli og nærvera Guðs á Síon) auk þess sem fjöllin voru oft talin bústaður guðanna meðal nágrannaþjóða hinna fornu Hebrea.

Sjálfur er ég hallur undir þá skoðun að það að hefja augu sín til fjallanna merki nánast hið sama og að hefja augu sín til Guðs, sbr. orðalagið í Sl 123: „Til þín hef ég augu mín, þú sem situr á himni.” Sú túlkun endurspeglast í sumum ­þýðingum á Sl 121, t.d. í þýðingu Lúthers og í Guðbrandsbiblíu (1584), einnig í Viðeyjar­biblíu (1841): „Ég lypti augum mínum til fjallanna, hvaðan mín hjálp mun koma.”

SKAPARINN LOFSUNGINN

Sé sú túlkun rétt að Hebrear hafi a.m.k. stundum séð eitthvað guðlegt við fjöllin þá vaknar sú spurning hvort þeir hafi ekki skynjað og dáðst að fegurð sköpunar­verksins. Sjálfur er ég svo lánsamur að út um stofugluggann minn á Seltjarnarnesi blasir við mér Esjan í allri sinni dýrð, Akrafjall og Skarðsheiði og raunar fleiri fjöll. Það líður ekki sá morgun að ég gangi ekki út að glugganum til að dást að þessari stórfenglegu sýn. Mér finnst þetta einfaldlega fallegt útsýni sem fyllir mig á stundum a.m.k. trúarlegri lotningu. En hvað með hina fornu Hebrea, þaðan sem Gamla testamentið er runnið? Hugsuðu þeir þannig?

Áður en ég leitast við að svara því vil ég minna á að bent hefur verið á að það heyri til algjörra undantekninga ef í íslensku forn­sögunum sé með beinum orðum lýst fegurð náttúrunnar þannig að hin frægu orð Gunnars á Hlíðarenda „fögur er hlíðin” verði að teljast undantekning frá meginreglunni.

Ef með aðstoð orðalykils er skoðuð hebreska rótin „jafe” sem merkir eitthvað „fallegt” eða „fagurt” þá verður þess mánast aldrei vart að þannig sé talað um sköpunina eða einstök sköpunarverk í Davíðssálmum eða Gamla testamentinu. Á tveimur til þremur stöðum er vissulega minnst á falleg tré en við finnum tæpast nokkuð það orðalag sem jafna mætti við náttúrufegurð. Það væri þá helst í sköpunarsögunni í upphafskafla Biblíunnar þar sem segir að loknum hinum einstöku sköpunardögum „og sjá það var gott” og að lokum „og sjá það var harla gott” eða „tóv” á hebresku þar sem fyrst og fremst virðist vera að tjá að sköpunin sé í samræmi við vilja skaparans.

Í stað þess að tala um fegurð náttúrunnar lofsyngur Saltarinn Guð fyrir undur sköpunarinnar. Sköpunin framkallar stöðugt slíka gleði í hjarta hins forna Hebrea að hún verður honum sífellt tilefni til að ljóða um þann er stóð að baki sköpuninni, þ.e. Drottin sjálfan, sbr. Sl 65:2, 10-14:

Þér ber lofsöngur, Guð á Síon

——-

Þú hefir vitjað landsins og vökvað það,

blessað það ríkulega með læk Guðs, fullum af vatni;

þú hefir framleitt korn þess,

því að þannig hefir þú gjört það úr garði.

Þú hefir vökvað plógför þess, jafnað plóggarða þess;

Með regnskúrum hefir þú mýkt það, blessað gróður þess.

Þú hefir krýnt árið með gæsku þinni,

og vagnspor þín drjúpa af feiti.

Það drýpur af heiðalöndunum

og hæðirnar girðast fögnuði.

Hagarnir klæðast hjörðum

og dalirnir hyljast korni;

allt fagnar og syngur.

Ekkert fer á milli mála að hið forna sálmaskáld sem hér lofsyngur Guð skynjar gleði í sköpunarverkinu. En ekkert er minnst á fegurð. Hebrear töluði hins vegar gjarnan um fegurð kvenna eins og menn hafa gert á öllum tímum og alls staðar. Hebrearnir gripu til myndmáls til að tjá fegurð kvenna – eins og best sést í Ljóðaljóðunum – og það myndmál var sótt í náttúrunnar ríki eða sköpunarverkið, eins og nær væri að segja þegar umræðuefni er Gamla testamentið og Davíðssálmar sérstaklega.

Ég læt eitt dæmi úr Ljóðaljóðunum duga til að sýna þetta. Þar segir unnustinn um unnustu sína:

Tennur þínar eru eins og hópur af nýklipttum ám,

sem koma af sundi,

sem allar eru tvílembdar

og engin lamblaus meðal þeirra

….

Vangi þinn er eins og kinn á granatepli

út um skýluraufina

….

Brjóst þín eru eins og tveir rádýrskálfar, skóggeitar-tvíburar,

sem eru á beit meðal liljanna (Ll 4:2-5).

Af þessu dæmi úr Ljóðaljóðunum má ráða að víst hafa Hebrear skynjað fegurð sköpunarverksins þó að þeim væri tamara að tala um gleði og fögnuð í því samhengi heldur en náttúrufegurð. En undur sköpunar­verksins varð þeim fyrst og síðast tilefni til að lofsyngja þann era ð baki því stóð, að ljóða um skaparann.

Yfirskrift þessa erindis míns „hæðirnar girðast fögnuði” var sótt í þennan athyglisverða sálm. Ég vil því staldra aðeins við þetta orðalag: „Hæðirnar girðast fögnuði”. Hvað er raunverulega átt við með því?

Þessi setning er hluti af því sem er meginstef 65. sálmsins í v. 10-14. Sköpunin er viðvarandi verk, ekki bara fortíðarviðburður. Guð vökvar landið og blessar það þannig. Regn á réttum tíma er hluti af skikkan skaparans og regnið er nauðsynlegt til þess að kornið vaxi. Eins og svo víða í Gamla testamentinu er einstökum nátturufyrirbærum lýst sem persónugervingum. Þannig er það með hæðirnar hér. Þeim er lýst eins og þær gleðist ekki síður en mannskepnan.

Sögnin að girðast var yfirleitt notuðu um mann er hann girti upp um sig kyrtilinn, gjaran í þeim tilgangi að búast til hernaðar. Hér er þessi sögn sem sé notuð á mjög forvitnilegan hátt um hæðirnar, þær girðast ekki kyrtli eins og mennirnir heldur girðast þær fögnuði eða gleði frammi fyrir skaparanum og umhyggju hans fyrir sköpunarverki sínu.

SÁLMUR 114. FJÖLLIN HOPPUÐU SEM HRÚTAR

Skylt þessu atriði eru viðlíkingar sem notaðar eru í 114. sálmi þar fjöllunum er líkt við hrúta sem hoppa og hæðunum líkt við lömb. Samhengið er frelsun Ísraels úr ánauðinni í Egyptalandi. Ég ætla að lesa þennan stutta en athyglisverða sálm í heild sinni:

Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi,

Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu,

varð Júda helgidómur hans,

Ísrael ríki hans.

Hafið sá það og flúði,

Jórdan hörfaði undan.

Fjöllin hoppuðu sem hrútar

hæðirnar sem lömb.

Hvað er þér haf, er þú flýr,

Jórdan, er þú hörfar undan,

þér hæðir sem lömb?

Titra þú, jörð, fyrir augliti Drottins,

fyrir augliti Jakobs Guðs,

Hann sem gjörir klettinn að vatnstjörn,

tinnusteininn að vatnslind.

Hér eru fjöllum og hæðum lýst eins og þau væru dýr og sömuleiðis hafinu sem er þess umkomið að flýja og hörfa undan. Einnig er jörðin ávöruð eins og persóna væri og henni boðið að titra fyrir augliti Drottins. Orðalag eins og þetta er hreint ekki óalgengt í sálmum Gamla testa­mentins og myndmálið er vitaskuld hluti af hinu hebreska kveðskaparformi.

SÁLMUR 104 — ÍTARLEGASTI SKÖPUNARSÁLMURINN

Sannleikurinn er sá að þó að Saltarinn megi teljast helsta heimild okkar um sköpunarhugmyndir hinna fornu Hebrea þá eru stef sköpunarinnar ekkert sérlega fyrirferðarmikil í þessu riti. Mest fer þar fyrir harm­sálmum og þar kemur sköpunin yfirleitt lítið eða ekki við sögu.

Sá sálmur Saltarans sem hefur tvímælalaust að geyma ítarlegast vitnisburðinn um sköpunarhugsunina er sálmur 104. Þetta er lof­gjörð­ar­sálmur einstaklings eins og sést á upphafsorðum hans: „Lofa þú Drottin sála mín!”

Það sem vekur sérstaka athygli við þennan sköpunarhymna era ð maðurinn hefur þar litla sem enga sérstöðu innan sköpunarverksins. Þessi hymni eða lofsöngur nær til allra lifandi vera og þeirra guðlegu gjafa sem þær þurfa á að halda svo sem vatns, fæðu og skjóls. Öll eru dýrin fóðruð af Guði, skapara jarðarinnar og eiganda hennar.

Í v. 5-23 er fjallað um máttarverk Guðs í upphafi er hann skapaði heiminn. Hér mun ég hins vegar beina sjónum að v. 24-26 þar sem segir:

Hversu mörg eru verk þín, Drottinn,

þú gjörðir þau öll með speki,

jörðin er full af því, er þú hefir skapað.

Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu,

þar er óteljandi grúi,

smá dýr og stór.

Þar fara skipin um

og Levjatan er þú hefir skapað til að leika sér þar.

Hér er vert að veita því eftirtekt að það er talað að Guð hafi gjört öll verk sín með speki. Spekin er mikið og þýðingarmikið hugtak innan Gamla testamentisins, svo þýðingarmikið að heill flokkur rita er kennd við hana, spekiritin svokölluðu, þ.e. Orðskviðirnir, Jobsbók og Prédik­arinn.

Með því að tengja sköpunina spekinni vill sálmaskáldið leggja áherslu á að það er ekki tilviljunum háð hvernig Guð skapaði heiminn. Guð skapaði heiminn þvert á móti eins fullkominn og auðið er.

HAFIÐ OG STRANDARKIRKJA

Það er við hæfi hér í Strandarkirkju, kirkjunni sem stofnuð var vegna heits sjómanna sem björguðust úr sjávarháska, að gefa gætur að því sem sagt er um hafið í Davíðssálmum. Hebrear þekktu bæði hið líf­gefandi vatn og ógnir sjávarins. Víða birtist hafið sem ógn sem Drottinn einn gæti haldið í skefjum. Sjávarskrímlsið Levjatan stendur gjarnan sem tákn fyrir þessa ógn.

En fullvissan um að Drottinn, skapari himins og jarðar, héldi hafinu innan marka sinna er meðal þess sem hinir fornu Ísraelítar sjá ástæðu til að lofsyngja hann fyrir.

SÁLMUR SR. VALDIMARS BRIEM

Það er fróðlegt að huga að því hvernig sálmaskáldið góðkunna sr. Valdimar Briem (1848-1930) frá Stóra-Núpi yrkir út af þessum versum. Sr. Valdimar yrkir svo:

Hann myndaði hafið, sem liggur um lönd,

í landhring vafið með eyjum og strönd.

Á hvítfextum öldum er hafskipa ferð,

Í hafsdjúpm köldum er fiskanna mergð.

Sjá, himnanna spegill er hafsdjúpið blátt,

Guðs hating það spelgar og alveldis matt.

Og haföldur glyma: Hallelúja.

Í djúpum, í höfum um lop tog um lönd

allt lifir af gjöfum frá skaprans hönd.

Ef hreyfist guðs kraptur, það dvínar og deyr,

en drottinn upp aptur það vekur úr leir.

Því leikur og syngur öll lifenda hjörð

og lofar sinn drottin á himnum og jörð

á gleðinnar höpru: Hallelúja.

Að baki þessum ljóðlínum skynjum við eygjabúa sem þekkir vel til hafsins á norðurslóðum. Öldurnar eru hvífextar og hafsdjúpin köld. Sjávarskrímsliðið Levjatan verður honum ekki að yrkisefni enda heimsmynd hans nokkuð önnur en hinna fornu Ísraelíta. En hann á það sameiginlegt með skáldum Saltarans að sjá hönd Guðs og hátign að baki sköpunarverkinu, í þessu tilfelli hafinu, sbr. ljóðlínurnar:

Sjá, himnanna spegill er hafsdjúpið blátt,

Guðs hátign það speglar og alveldis matt.

LOFGJÖRÐ TIL SKAPARANS

Í heild eru náttúrulýsingar Saltarans eða sköpunarvitnisburðirnir fyrst og síðast lofgjörð til skaparans þar sem sköpunarverkið sjálft er látið taka þátt í lofgjörðinni, eins og svo vel kemur fram í Sl 148:

Lofið Drottin af jörðu,

Þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,

eldur og hagl, snjór og reykur,

stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,

fjöllin og allar hæðir,

ávaxtatrén og öll sedrustrén,

villidýrin og allur fénaður,

konungar jarðarinnar og allar þjóðir,

höfðingjar og allir dómendur jarðar,

bæði yngismenn og yngismeyjar,

öldungar og undir sveinar!

Þau skulu lofa nafn Drottins,

Því að nafn hans eitt er hátt upp hafið,

tign hans er yfir jörð og himni (v. 7 -13).

url: http://gunnlaugur.annall.is/2006-06-30/07.04.15/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli