gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Að lokinni HM – Varnir vinna mót · Heim · Á hinu íslenska Sínaí (Helgafelli) í reykjarmekki! »

Tímabær umræða um bókaskort Háskólabókasafns

Gunnlaugur A. Jónsson @ 08.39 11/7/06

Hún er sannarlega tímabær umræðan um bókaskort Háskólabókasafnsins (Þjóðarbókhlöðunnar). Þakka ber Guðna Elíssyni dósent í hugvísindadeild fyrir grein hans í Lesbók Mbl 1. júlí síðastliðinn sem varð til að umræðan fór af stað. Í dag birtir Morgunblaðið leiðara um málið undir yfirskriftinni “Klipið” af gæðakröfunum? Við í guðfræðideildinni könnumst svo sannarlega við þann vanda sem hér er til umræðu.

Eins og aðrir deildir Háskóla Íslands höfum við á liðnum árum verið að byggja upp meistaraprófs- og doktorsnám. Þar höfum við mjög fundið fyrir þeim alvarlega skorti á fræðibókum og tímaritum á fræðasviði guðfræðinnar sem Háskólabókasafnið býr við. Og vissulega kannast guðfræðideildin við að hafa ekki getað lagt safninu til það fjármagn sem hún hefði viljað vegna þess að valkosturinn hefði í mörgum tilfellum verið að skera niður ekki aðeins valnámskeið heldur skyldunámskeið.

Það er hárrétt hjá Sigrúnu Klöru Hannesdóttur landsbókaverði þegar hún segir að það sé “tómt mál að tala um að HÍ verði á meðal þeirra hundrað bestu þegar við erum eins og lélegur framhaldsskóli hvað varðar bókakaupin.”

Á liðnum árum höfum við í guðfræðideildinni nokkrum sinnum staðið frammi fyrir þeim afarkostum að þurfa að ákveða hvaða guðfræðitímarit mætti helst skera niður. Það höfum við orðið að gera þrátt fyrir að vita mæta vel að í safnið vantaði áskrift af fjölmörgum grundvallartímaritum á fræðasviði okkar, að viðbóar væri þörf en ekki niðurskurðar.

Ekki verður þó skilið við þessa umræðu án þess að minnast enn og aftur á Beatrice Bixon, einn helsta hollvin guðfræðideildarinnar og náinn persónulegan vin minn. Þessi gjafmilda kona, sem er Gyðingur frá New Haven í Bandaríkjunum, hefur undanfarinn hálfan annan áratug árlega komið færandi hendi og fært guðfræðideild að gjöf mikið magn bóka, einkum á sviði gyðinglegra fræða og gamlatestamentisfræða. En þrátt fyrir allan hennar velvilja og rausnarskap er bókakostur Háskólasafns á fræðasviði guðfræðinnar þannig að það stendur fræðigreininni mjög fyrir þrifum.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2006-07-11/08.39.20/

Athugasemdir

Fjöldi 5, nýjasta neðst

Árni Svanur @ 11/7/2006 18.08

Ég tek undir þetta, það er löngu tímabært að ræða bókakostinn og áhersluna á eflingu bókasafnsins. Mér þætti gott að fá meiri upplýsingar um ráðstöfun fjár til bókakaupa undanfarin ár og líka fyrir sameiningu Háskólabókasafns og Landsbókasafns.

Þorkell @ 12/7/2006 06.40

Það er undarlegt að spara á svona sviði þar sem bókakaup geta varla verið svo dýr liður í fjármálum ríkisins. Ég man eftir því að meirihluti þeirra bóka sem ég notaði við B.A. ritgerðina varð ég að panta frá öðrum löndum. Það kostar líka sitt, ekki bara fyrir námsmenn heldur einnig fyrir safnið.

Stefán Einar Stefánsson @ 12/7/2006 18.40

Ég er hjartanlega sammála þeirri skoðun sem hér hafa verið viðraðar að ofan. Greinin eftir Guðna Elíasson í Lesbókinni var mjög fróðleg og á margan hátt sláandi. Áður hefur maður orðið var við umræðu um hinn lítilfjörlega bókakost Landsbókasafnsins þó ekki hafi maður gert sér grein fyrir því hversu slæmt ástandið er.

Væri ekki ráð að efla eða endurvekja hollvinasamtök guðfræðideildar og kanna hvort ekki sé möguleiki á því að efla bókakost safnsins í því er snýr að efni um guðfræði?

Ólöf I. Davíðsdóttir @ 15/7/2006 17.48

Ég hef verið að viða að mér bókum sem tengjast efni væntanlegrar B.A. ritgerðar í guðfræði. Þetta er allt keypt erlendis frá nema tvær íslenskar.
B.A. ritgerð getur nú vart talist ítarleg ef miðað er við efni meistara- og doktorsritgerða. En fyrst gresjan er svo gisin á heimavelli sem raun ber vitni í grunnámi býð ég ekki í framhaldsnámið að öllu óbreyttu.

Fyrir forvitna: Tengill inn á ritgerðarsíðuna mína er á bak við nafnið mitt. Þar má sjá bókalistann. Von er á meira efni þar eftir því sem vinnunni vindur fram.

Tímarit eru mjög mikilvæg því þar má fylgjast með deiglunni og fá oft samþjappaða yfirsýn yfir viðfangsefni.

Gunnlaugur @ 19/7/2006 08.18

Þakka viðbrögðin við færslunni. Það er brýnt að halda þessari umræðu gangandi því ástandið er sannarlega ekki í lagi. Kennarar hafa lagt sitt af mörkum með því einfaldlega að koma sér upp öflugu bókasafni á eigin fræðasviði og lána nemendur úr prívat-bókasafni sínu. En stjórnvöld bókaþjóðarinnar ættu sannarlega að hafa meiri metnað fyrir hönd aðal bókasafns landsmanna.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli