gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Þakleki í rigningatíð · Heim · Átök í prófkjöri »

Alltaf gott í Cambridge

Gunnlaugur A. Jónsson @ 21.34 29/10/06

Fyrri hluta síðustu viku dvaldist ég sem oftar úti í Cambridge og var við fræðagrúsk á biblíufræðasetrinu Tyndale House. Þar er eitthvert besta biblíufræðabókasafn í heimi og þar þekki ég svo vel til að jafnvel aðeins tveggja til þriggja daga heimsókn getur reynst mjög notadrjúg.

Að þessu sinni var ég frá laugardegi og fram á miðvikudag (hélt heim þann morgun). Það er alltaf gott að koma til Cambridge og mér finnst mikilvægt að ekki líði of langur tími milli heimsókna til að halda tengslum við fræðimenn sem þarna eru að störfum. Það voru raunar mun fleiri sem ég þekkti frá fyrri heimsóknum en ég átti von á.

Tíminn reyndist mér drjúgur og hafði ég uppi á efni sem er mér mikilvægt fyrir rannsóknir mínar, og raunar einnig nokkuð af efni fyrir nemendur sem eru að skrifa lokaritgerðir undir handleiðslu minni. Bókabúðir eru einnig margar og góðar í háskólabænum Cambridge og notfærði ég mér það að venju.

Eiginkonan var með í för og líkar henni einnig mjög vel við Cambridge og leiðist hreint ekki meðan ég sit á safninu. Henni finnst nefnilega þægilegast að fara í verslanir án minnar fylgdar þannig að í þeim efnum ríkir góð samstaða hjá okkur.

Það var gott veður í Cambridge, hitinn 14-18 stig, þannig að úr þessari stuttu heimsókn var einnig nokkur sumarauki fyrir okkur.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2006-10-29/21.34.07/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli