gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Bíó og brauðterta · Heim · Hafragrautur sem helgistund »

Áhrifaríkt erindi um fíkniefnaneyslu

Gunnlaugur A. Jónsson @ 16.34 1/12/06

Ég minnist þess ekki að Rótarýfélagar mínir hafi hlustað af jafnmikilli athygli á nokkurt erindi og það sem Njörður P. Njarðvík flutti hjá Rótarýklúbbi Seltjarnarness í hádeginu í dag. Hann fjallaði um fíkniefnavandann og erindi hans var á persónulegum nótum enda hefur Njörður kynnst vandanum svo um munar gegnum son sinn sem hefur verið háður heróíni í meira en tvo áratugi. Hér var fjarri því um að ræða hlutlausa eða fræðilega umfjöllun enda lagði Njörður áherslu á að hann væri alls enginn sérfræðingur á þessu sviði. Hann hefði hins vegar kynnst vandanum af eigin raun.

Njörður talaði blaðalaust og af yfirvegun en þannig að hvert orð komst til skila. Sársaukinn í reynslu hans leyndi sér ekki og smitaði út frá sér. Þetta var einfaldlega áhrifamikið erindi og ekki datt mér í hug að benda Nirði á að hann væri kominn átta mínútur fram yfir fundartímann. Það hefði mátt heyra saumnál detta undir flutningi erindis hans.

Njörður gagnrýndi stjórnvöld fyrir sinnuleysi í málinu og raunar þjóðfélagið allt. Það vantaði heilstæða stefnu í þessum málaflokki og samræmdar aðgerðir, sagði hann. Eins og alþjóð veit hefur Njörður þegar skrifað tvær bækur um kynni sín af fíkniefnavandanum og fjölda blaðagreina. Meðal Rótarýfélaga sem hlýddu af athygli á boðskap hans voru Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, og Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar. Nú á eftir að sjá hvort þau geti hreyft eitthvað við þessu alvarlega vandamáli innan löggjafarþingsins.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2006-12-01/16.34.59/

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli