gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Fagnaðarefni ef Ehud Barak snýr aftur · Heim · “Hugljúf” helfararmynd á 449. sýningu Deus ex cinema í kvöld »

Minningarorð um Aðalstein Sigurðsson fiskifræðing

Gunnlaugur A. Jónsson @ 08.27 8/1/07

Í dag verður gerð útför Aðalsteins Sigurðssonar fiskifræðings. Ég minntist hans á fundi í Rótarýkúbbi Seltjarnarness síðastliðinn föstudag með eftirfarandi orðum: “Með Aðalsteini er genginn einhver besti Rótarýmaður sem ég hef kynnst.” Þessi voru viðbrögð eins Rótarýfélaga míns er honum bárust tíðindin af andláti Aðalsteins Sigurðssonar fiskifræðings. Undir þessi orð höfum við
margir félagar í Rótarýklúbbi Seltjarnarness tekið.

Aðalsteinn Sigurðsson var aldursforsetinn í Rótarýklúbbi Seltjarnarness er hann lést, níræður að aldri. Hann hafði gengið til liðs við klúbbinn árið 1973, tveimur árum eftir stofnun hans. Hann var forseti klúbbsins 1977-78.

Í forsetatíð hans var Albertsbúð í Gróttu afhent klúbbnum til varðveislu og afnota og gekk Aðalsteinn frá því máli af alkunnri nákvæmni. Hugsunin var sú að klúbburinn skyldu endurreisa og halda við síðustu minjum útgerðar á Seltjarnarnesi.
Aðalsteinn hlaut Paul Harris-viðurkenningu hreyfingarinnar 1989 og var gerður heiðursfélagi klúbbsins 2004. Hann var
einstaklega vel að sér í lögum og reglum Rótarý og umfram allt hafði hann tileinkað sér rækilega hugsjón hreyfingarinnar um “þjónustu ofar eigin hag.”

Þó að Aðalsteinn kynni reglur Rótarý flestum betur lét hann einhvern tíma svo ummælt að Rótarýmaður ætti í raun ekki að þurfa að skila inn mætingarkorti ef hann sækti fundi hjá öðrum klúbbi, eins og reglur kveða á um. Afstaða Aðalsteins var sú að sannur Rótarýmaður myndi aldrei segja ósatt um slíkt og því væri kortið í raun óþarft.

Aðalsteinn var réttsýnn maður og hann barðist ötullega fyrir því að konum yrði veittur aðgangur að klúbbnum og það gladdi hann þegar kona var í desember síðastliðinn í fyrsta sinn kosin verðandi forseti klúbbsins. Hann gerði málefni Rótarýsjóðsins oft að umtalsefni og taldi mikilvægt að félagar kynnu skil á því hve mikilvægt mannúðarstarf væri unnð þar. Undantekingalítið lauk Aðalsteinn máli sínu með því að ganga til gjaldkera klúbbsins og færa honum peningaupphæð í sjóðinn.

Aðalsteinn lagði sig mjög fram um að kynna nýliðum í klúbbnum grundvallarhugsjónir hreyfingarinnar. Þegar hann gegndi nefndarformennsku innan klúbbsins bauð hann nefndarmönnum gjarnan heim til sín þar sem hans ágæta eiginkona Ástrún Valdimarsdóttir bauð jafnan upp á veitingar.

Aðalsteinn var ágætlega hagmæltur og kunni ógrynnin öll af vísum. Flestar þessar vísur lærði hann á barns- og unglingsárum og tók hann sig til og handskrifaði þær upp eftir að hann hætti að vinna. Munu þær vera um sex hundruð talsins. Margar þeirra hefur hann gefið út í litlum fjölrituðum heftum.

Á löngum vetrardögum í afskekktri sveit Saurbæjarhrepps í Eyjafirði hafði hann vanist við að kveðast á, þar sem það var harla fábrotið sem fólk hafði til afþeyingar “þegar stórhríðin barði bæinn og gluggarnir fylltust jafnóðum af fönn þó ofan af þeim væri tekið. Þá var hálfdimmt í bænum enda ljósmetið sparað til hins ítrasta eins og reyndar allt annað, sem einhver leið var að spara,” eins og Aðalsteinn hefur sagt um uppvaxtarár sín.

Fjárhagsaðstæður Aðalsteins voru mjög erfiðar lengi framan af ævi og vann hann við ýmis störf áður en hann seint um síðir gat hafið menntaskólanám. Stúdentsprófi lauk hann frá MA 29 ára að aldri. Þaðan lá leiðin til Kaupmannahafnar þar sem hann lagði stund á dýrafræði með áherslu á fiskifræði og lauk mag. scient prófi í júní 1954.

Í Danmörku kynntist hann fyrri konu inni Carla Marie og eignuðust þau dótturina Guðnýju. Var þá oft þröngt í búi m.a. vegna þess að reglur um yfirfærslur gjaldeyris voru það strangar að hann fékk aðeins yfirfært það sem dugði einum til framfærslu. En samvisku- og iðjusemi Aðalsteins kom honum til hjálpar á minnistæðan hátt.

Það var einhvern sunnudagsmorguninn er Aðalsteinn var við nám við Teknisk skole i Fredrikshavn að hann kvaðst ekki hafa geta sofið fyrir fjárhagsáhyggjum. Meðan félagar hans voru allir steinsofandi fór hann fram á rannsóknastofu og fór að greina botndýralirfur, sem voru þar er í kæliskáp.

Þá hittist svo á að kennari Aðalsteins, dr. Gunnar Thorsson, kom þar að og varð svo hrifinn af sjá svona áhugasaman nemanda sitja við smásjána snemma á sunnudagsmorgni að hann sagði að Aðalsteinn yrði að koma til sín á sérstakt botndýralirfunámskeið næsta sumar.

Þegar Aðalsteinn sá tormerki á því af fjárhagsástæðum beitti Gunnar sér fyrir því að Aðalsteinn fékk námsstyrki svo fjárhag hans var nægilega borgið til að hann gat lokið námi sínu með sóma.

Sagan er dæmigerð fyrir dugnað Aðalsteins og er óhætt að segja að hann hafi aldrei etið letinnar brauð. Heim kominn varð Aðalsteinn meðal virtustu fræðimanna okkar á sviði fiskifræði og starfaði lengst af við Hafrannsóknarstofnun.

Á Seltjarnarnesi kom Aðalsteinn mjög að bæjarmálum og var m.a. formaður skólanefndar og byggingarnefndar Valhúsaskóla. Sat einnig í náttúruverndarnefnd um árabil.

Með honum og föður mínum, Jóni Gunnlaugssyni lækni (1914-1997), tókst ágæt vinátta og unnu þeir saman að ýmsum velferðarmálum Seltjarnarnesbæjar þó að ekki tilheyrðu þeir sömu pólitísku fylkingunni. En Rótarýhugsjónina áttu þeir sameiginlega. Aðalsteinn sýndi föður mínum mikla ræktarsemi þegar hrumleiki var tekinn að hamla för pabba og kom þá oft og sótti hann.

Fyrir þá ræktarsemi og vináttu vil ég nú þakka því hennar hef ég einnig notið ríkulega svo og Guðrún Helga kona mín.
Ástrúnu, eftirlifandi konu Aðalsteins, og öðrum ástvinum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.
Megi Guð blessa minningu hins góða drengs Aðalsteins Sigurðssonar.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-01-08/08.27.45/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli