gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Einkunnaskil í kjölfar næturvöku · Heim · Dr. Ágúst Einarsson nýr rektor á Bifröst »

“Útrás” íslenskrar guðfræði í nafni Tarkovskís

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.14 12/1/07

Fyrir fáeinum dögum fékk ég í hendur bókina Through the Mirror. Reflections on the Films of Andrei Tarkovsky. Bókin kom út rétt fyrir jól hjá enska fyrirtækinu Cambridge Scholars Press. Við sem að bókinni stöndum erum býsna ánægð með hvernig til hefur tekist en vissuleg hefur meðgöngutíminn verið nokkuð langur. Höfum við leyft okkur að grípa til tískuorðsins “útrás” og talað um útrás íslenskrar guðfræði í nafni Tarkovskís í þessu sambandi. Sjálfur er ég annar ritstjóri bókarinnar og skrifa einn kaflann í hana og fjallar sá um bibiblíuleg stef í einni af kunnustu myndum Tarkovskys, Nostalgiu. Höfundar eru þrettán talsins, þar af sjö útlendingar og eru það allt kunnir Tarkovsky-sérfræðingar.

Upphaflega auglýstum við einfaldlega eftir útlendum samstarfsmönnum að þessu verkefni, gerðum það á vefsíðu sem helguð er hinum kunna rússneska kvikmyndagerðarmanni Tarkovskí (1932-1986). Viðbrögðin voru meiri en okkur gat órað fyrir. Vissulega hafa nokkrir þeirra sem ætluðu að vera með í upphafi helst úr lestinni en aðrir góðir komið inn í staðinn.

Meðal útlendu höfundanna, sem ýmist eru frá Bandaríkjunum, Bretalandi eða Skandinavíu, er margir kunnir Tarkovski-sérfræðingar. Má þar nefna Sean Martin, sem sjálfur er kvikmyndagerðarmaður en hefur auk þess skrifað margar bækur meðal annars eina mjög læsilega um Tarkovskí. Þá má nefna dr. Astrid Söderberg Widding sem er prófessor í kvikmyndafræðum við Stokkhólmsháskóla og skrifaði einmitt doktorsritgerð sína um Tarkovskí.

Íslensku höfundarnir eru auk mín: Árni Svanur Daníelsson, doktorsnemi í guðfræði og vefstjóri á biskupsstofu, Gunnar J. Gunnarsson, dósent við KHÍ, Oddný Sen, kvikmyndafræðingur, dr. Pétur Pétursson guðfræðiprófessor og Þorkell Ágúst Óttarsson, BA í guðfræði (meðritstjóri). Allir eru Íslendingarnir félagar í rannsóknahópnum Deus ex cinema, áhugahópi sem rannsakar notkun trúarlegra stefja í kvikmyndum. Og okkur þótti einmitt að í Tarkovskí-rannsóknum hefði til þessa engan veginn verið gefinn nægilegur gaumur að ríkulegri notkun hans á trúarlegu og biblíulegu efni.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-01-12/09.14.08/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli