gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Ofmetið umræðuefni? · Heim · Móðurlífið og miskunn Guðs »

“Nægar veitingar handa stórvöxnum presti”

Gunnlaugur A. Jónsson @ 15.07 1/4/07

“Mér er helst í minni frá þeim degi að mikið var lagt í að hafa nægar og góðar veitingar, ekki síst handa prestinum stórvaxna sem var þekktur fyrir að taka vel til matar síns.” Þannig kemst Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, m.a. að orði í ágætri en nokkuð síðbúninni afmælisgrein um sr. Braga Friðriksson í Morgunblaðinu í gær.

Sr. Bragi varð áttræður 15. mars s.l. og lýsir Gunnar merku og mikilsmetnu starfi sr. Braga innan bæjarfélagsins.

Í greininni kemur einnig fram að bæjarstjórn Garðarbæjar hafi ásamt Garðasókn ákveðið að styrkja útgáfu ritverks sr. Braga um sr. Pál Þorláksson (1849-1882) sem var einn helsti frumherjinn meðal brottfluttra Íslendinga á upphafsárum þeirra í Vesturheimi.

Þetta eru gleðileg tíðindi. Ritsmíð sr. Braga er MA-ritgerð hans við guðfræðideild, unnin undir handleiðslu dr. Péturs Péturssonar prófessors. Ég fylgdist með tilurð ritgerðarinnar og var m.a. viðstaddur þegar sr. Bragi var með lokakynningu á henni í semínari í stofu V (nú A-229), þ.e. aðalkennslustofu guðfræðideildar í Háskóla Íslands.

Sr. Bragi starfaði sjálfur um skeið í vesturheimi og þar vaknaði áhugi hans á að kynna sér betur hið mikla brautryðjendastarf sr. Páls sem lést langt fyrir aldur fram, aðeins 33 ára. Hann hvílir nú í kirkjugarðinum í bænum Mountain í Norður-Dakota. Þangað kom ég fyrir fáeinum árum í hópi félagi í Rótarýklúbbi Seltjarnarness og notaði ég þá m.a. tækifærið og vitjaði um leiði sr. Páls.

Sr. Braga þekki ég vel og að góðu einu. Hann skírði Jón Andreas, son okkar hjóna, í ágúst 1982 og var þá haldin góð veisla á heimli foreldra minna, Valhúsabraut 35. Ekki man ég annað en nægar veitingar væru á borðum fyrir sr. Braga sem og aðra gesti. Sr. Bragi vann sitt prestsverk af stakri prýði eins og hans var von og vísa. Minnistæðara en veitingarnar er mér að tvær langömmur sonar míns voru viðstaddar skírnina og harmaði ég mjög að myndavél reyndist biluð þegar átti að grípa til hennar við það tækifæri.

Síðar heimsótti sr. Bragi og Katrín kona hans okkur úti í Lundi, er ég var þar í doktorsnámi mínu, en Auður dóttir sr. Barga var þá búsett þar einnig.

Það verður spennandi að sjá bók sr. Braga Friðrikssonar um sr. Pál Þorláksson útkomna. Hún er merk heimild um upphaf kirkjulegs starfs meðal Vestur-Íslendinga og ágætlega samin.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-04-01/naegar-veitingar-handa-storvoxnum-presti/

Athugasemdir

Fjöldi 2, nýjasta neðst

Birgir Baldursson @ 2/4/2007 12.53

Meiru nautnabelgirnir þessir prestar. ;)

Gunnlaugur A. Jónsson @ 2/4/2007 13.26

Ekki myndi ég kalla vin minn sr. Braga Friðriksson nautnabelg. Hann er hins vegar stór og stæðilegur maður, vörpulegur í betra lagi enda efnilegur kúluvarpari á yngri árum og hefði trúlega slegið Íslandsmet Gunnars Huseby í þeirri grein hefði hann ekki hætt keppni kornungur. Sr. Bragi er afskaplega hófstilltur maður og það á einnig við um neysluvenjur hans, hefur mér virst þó svo að bæjarstjórinn í Garðabæ, sá gamalkunni og snjalli handboltakappi hafi þarna slegið á létta strengi. En vafalaust eru ýmsir nautnabelgir í prestastétt og stórir og íturvaxnir menn þurfa jú nokkuð í sig, það eru gamalkunn sannindi.


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli