gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Hvað skyldu Moltmann og Peres eiga sameiginlegt? · Heim · Lélegt andslið skapraunaði mér og ég grætti afastelpu »

Fjölmenni á fyrirlestri Moltmanns

Gunnlaugur A. Jónsson @ 18.32 1/6/07

Það var býsna þétt setinn bekkurinn í hátíðasal Háskóla Íslands í dag þar sem þýski guðfræðingurinn nafntogaði J. Moltmann (f. 1926) flutti fyrirlestur sinn. Moltmann reyndist áheyrilegur í betra lagi og efni fyrirlesturs hans var hinn krossfesti Guð, sem er í raun endursögn á einni af þekktustu bókum hans.

Það var gaman að vera í hátíðasalnum í dag og hlýða á þennan heimsþekkta guðfræðing sem maður hafði spurnir af í byrjun guðfræðinámsins snemma á áttunda ártugnum. Er mér minnistætt þegar Þórir Kr. Þórðarson prófessor (1924-1995) sagði eitthvað á þá leið að nú væri Barth ekki lengur í tísku, nú töluðu allir um þennan Jurgen Moltmann og guðfræði vonarinnar. Sú bók hans var snarlega pöntuð og eignaðist ég hana og hef alltaf fylgst nokkuð með Moltmann síðan.

Moltmann varð í fyrirlestrinum tíðrætt um þjáningu Guðs og samband kærleika Guðs og þjáningar. Hvar er Guð í þjáningu okkar? var í raun ein meginspurningin sem hann spurði og minnir á titil á bók eftir annan ágæta guðfræðing, Vestur-íslendinginn Daniel Simundson sem mikið hefur fjallað um þjáninguna.

Moltmann kom einnig inn á persónulega reynslu sína úr fangabúðunum og hvílíkri skömm hann hefði fyllst er hann hefði komist að því hvað Gyðingar hefðu mátt þola af þjóð hans. Sagði hann m.a. frá heimsókn sinni í eina af útrýmingarbúðunum.

Moltmann fór yfir víðan völl í fyrirlestri sínum og kryddaði með dæmum úr eigin lífi og viðbrögðum sem hann hefði fengið við guðfræði sinni. Minnistætt er mér dæmið sem hann tók er honum var sagt af grimmdarlegu morði sem framið var nokkrum nunnum í El Salvador árið 1989. Honum hafði verið sagt frá því að á vettvangi morðsins hefði ein bók fallið úr hillu og hún legið útötuð í blóði á gólfinu. Hver skyldi sú bók hafa verið? Jú, bók Moltmanns um hinn krossfesta Guð!

Ég tók minnispunkta úr fyrirlestrinum en skildi þá eftir uppi í Háskóla og hef ekki við höndina geri enda ráð fyrir að fyrirlestur Moltmanns verði aðgengilegur fljótlega. Árni Svanur Daníelsson tók hann jú upp á myndband.

Gamlir félagar úr guðfræðideildinni, sem maður hefur jafnvel ekki séð í áratugi, voru mættir til leiks í dag og það fór ekkert á milli mála að menn upplifðu komu Moltmanns sem kirkjusögulegan atburð.

Moltmann byggði fyrirlestur sinn upp á mjög áhugaverðan hátt og svaraði fyrirspurnum í lokin á þann hátt að engum duldist að þar fór maður sem hefur pælt í öllum hugsanlegum hliðum á því efni sem hann tók til umræðu.

Lítil þreytumerki voru á gamla manninum þrátt fyrir að hann hafi lent í hrakningum í gærkvöldi á leið til íÍslands þar sem flugvél hans til Kaupmannahafnar seinkaði svo að hann missti af þeirri vél sem hann átti pantað far með til Íslands. En með þrautseigju og eftirgangssemi skipuleggjanda heimsóknar hans tókst að koma honum á aðra vél þannig að hann náði þó til landsins í gærkvöldi.

Í boði í Biskupsgarði á eftir færði herra Karl Sigurbjörnsson biskup Moltmann Passíusálmana á þýsku og fannst mér það einkar viðeigandi. Síðan lá leið Moltmanns í Skálholt en þar flytur hann einn fyrirlestur í kvöld og tvo á morgun á málþingi um guðfræði hans. Ég komst ekki austur í dag og þar er enda hvert rúm skipað og uppselt í næturgistingu. En ég er að gera mér vonir um að geta skroppið á morgun.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-06-01/fjolmenni-a-fyrirlestri-moltmanns/

Athugasemdir

Fjöldi 4, nýjasta neðst

Þorkell @ 2/6/2007 20.17

Takk fyrir þessa úttekt Gunnlaugur minn. Rosalega hefði verið gaman að vera þarna! Ég vona að Árni Svanur fái leyfi til að birta fyrirlesturinn á vefnum.

Árni Svanur @ 2/6/2007 23.30

Ég tek undir með þér Gunnlaugur, þetta var hinn áhugaverðasti fyrirlesari og greinilegt var að hér fer gríðarlega fróður fyrirlesari sem hefur frábært vald á efninu. Erindin og umræðan öll í Skálholti var að sama skapi góð.

Ps. Leyfið fékkst, ég þarf bara að klippa þetta til :)

Gunnlaugur @ 2/6/2007 23.39

Því miður komst ég ekki í Skálholt og vona innilega að Árni Svanur hafi tekið upp efnið þar líka. Það voru slæm skipti að sitja yfir afspyrnulélegum fótboltalandsleik, sbr. færslu mína þar um.

Sigríður Gunnarsdóttir @ 9/6/2007 17.46

Teku undir með Kela, slæmt að vera fjarstödd. Ég hætti reyndar við að fara í Skálholt þegar Elisabet Moltmann forfallaðist, ég var óskaplega spennt að heyra í henni líka.


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli