gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Langtímamarkmið afastelpu · Heim · Menningarhelgi fer í hönd »

Áhugaverðar G.t.-ritgerðir sumarsins

Gunnlaugur A. Jónsson @ 21.34 7/6/07

Fátt er ánægjulegra í háskólakennslunni en að fylgjast með og leiðbeina nemendum í ritgerðarsmíð þeirra. Sex þeirra þeirra sem brautskrást frá deildinni í vor, ýmist með B.A- eða cand.theol.-gráðu, skrifuðu ritgerðir undir handleiðslu minni. Í sumar mun ég fylgjast með þremur spennandi ritgerðum og væntanlega leggja eitthvað á ráðin um efnistök og annað.

Í dag hitti ég að máli Maríu Gunnarsdóttur sem er að hefjast handa við að skrifa BA-ritgerð um Lot-söguna í Genesis 18-19. Ekki er fyllilega mótað hver nálgun viðfangsefnisins verður en ekki er ólíklegt að áhrifasaga umræddra texta muni gegna þar stóru hlutverki.

Þá er Hjörtur Pálsson kominn mjög vel á veg með einkar áhugaverða kjörsviðsritgerð um hebreskt kveðskaparform í ljósi Ljóðaljóðanna.

Loks er sr. Óskar H. Óskarsson, sóknarprestur á Akureyri, að skrifa spennandi 30e MA-ritgerð um viðhorf íslenskra presta til Davíðssálma þar sem m.a. er lögð áhersla á notkun sálmanna við útfarir. Að hluta til byggir ritgerð Óskars á könnun sem hann gerði snemma á þessu ári meðal starfandi presta. Sá hluti vinnunnar var unninn undir handleiðslu prófessors við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.

En verulegur hluti ritgerðarinnar verður unninn á fræðasviði áhrifasögu Gamla testamentisins og þar mun koma til minna kasta að leggja á ráðin. Er tilhlökkunarefni að fá að fylgjast með þessu MA-verkefni.

Óskar skrifaði á sínum tíma mjög velheppnaða kjörsviðsritgerð um notkun og áhrif Gamla testamentisins meðal Íslendinga í Vesturheimi í kringum aldamótin 1900.  

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-06-07/ahugaverdar-gt-ritgerdir-sumarsins/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli