gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Rótarýfundur í bundnu máli · Heim · Snilldin sem hvarf »

Hvar fæðast hugmyndirnar?

Gunnlaugur A. Jónsson @ 22.22 8/6/07

Margir kannast við það að andríkið vill bregðast þegar setið er við skrifborð og reynt að leysa úr einhverju fræðilegu vandamáli. Hvað er þá til ráða? Hvar fæðast hugmyndirnar helst?

Örugglega er reynsla fólks mjög mismunandi í þessum efnum. En ég minnist þess að í doktorsnámi mínu úti í Svíþjóð var komið inn á þetta vandamál í einhverri bókinni sem ég las og fjallaði um ýmsar hagnýtar spurningar í tengslum við fræðistörf.

Þar var bent á þá lausn að ýmsum hefði reynst það mjög gott að fara einfaldlega út að ganga. Sú hefur líka verið reynsla mín.

Ég kem inn á þetta atriði í viðtali sem var tekið við mig á dögunum og birtist í nýjasta blaði Frjálsrar verslunar sem kom út nú í vikunni. Yfirskrift viðtalsins er “Fjallgöngur með trúarlegum blæ” (Frjáls verslun, 4. tbl. 2007, s. 80).

Í viðtalinu segi ég frá því er ég samdi allviðamikla tímaritsgrein úti á Krít fyrir tveimur árum og varð greinin sú að verulegu leyti til á löngum, daglegum gönguferðum mínum og alls ekki við skrifborð.

Síðan segi ég: “Niðurstaðan varð sú að þarna varð til grein sem ég tel einhverja þá bestu sem ég hef skrifað. Reynsla mín er sú að góðar hugmyndir fæðast mikið frekar á göngu, einkum ef gengið er upp í móti, heldur en við skrifborð. Þannig að fyrir þá sem eru að semja hugverk af einhverju tagi eru göngur mjög góður kostur. Þetta vissi Halldór Laxness auðvitað enda fór hann í daglegar göngur og hafí blýantsstubb með blað með sér.”

Ég geri mér grein fyrir að aðrir hafa vafalaust einhverja allt aðra sögu að segja og hefur mér jafnan og þykir enn mjög áhugavert að frétta af því hvað gefist hefur fólki best í þessum efnum. Einhver nefndi uppvaskið, en nú sjá uppþvottavélarnar líklega um þann þátt víðast hvar!

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-06-08/hvar-faedast-hugmyndirnar/

Athugasemdir

Fjöldi 6, nýjasta neðst

Þorkell @ 8/6/2007 22.40

Fyrsta sem mér datt í hug var vinnuferlið sjálft. Ég fæ flestar hugmyndir þegar ég byrja á verkefninu. En það hefur líka alltaf verið þannig hjá mér að það sem ég vinn með hverju sinni heltekur mig og kemst annað nánast ekki að. Helsti vandinn er því að koma sér af stað, þ.e. að skapa löngun til að byrja.

Gunnlaugur @ 8/6/2007 22.52

Þakka þér, Keli. Ekki kemur mér á óvart – eftir öll mín kynni af þér – að hugmyndaskorturinn er ekki vandamál hjá þér. Ég verð að taka fram að á gönguferðum mínum yrðu ekki til merkilegar hugmyndir ef ég væri ekki búinn að lesa áður, kynna mér eitthvert efni, og væri að glíma við ákveðið vandamál. Þegar ég svo finn ekki lausnina við skrifborðið þá hefur mér reynst vel að fara í göngutúr, en enn legg ég áherslu á að ég held að þetta sé mjög einstaklingsbundið og Því er spennandi að heyra af reynslu annarra.

Pétur Björgvin @ 9/6/2007 06.12

Ég kalla þetta ,,óléttu” – það er ég geri eins og þú talar um Gunnlaugur, ég les mér til um efnið, kannski í upphafi jafnvel bara stutta grein, skoða nokkrar bækur. Og þar með er ég orðinn óléttur af viðkomandi efni og hefst þá meðgangan, hún fær hverju sinni það form sem passar við löngun mína, reyndar reynast mér langir bíltúrar oft mjög vel. Fyrsti hluti meðgöngunnar leiðir til þess að ég finn út hjá sjálfum mér hvar ég vil leita frekari fanga og hefst þá lestur 2 sem er öllu ítarlegri, svo aftur meðganga …

Gunnlaugur A. Jónsson @ 9/6/2007 09.54

Skemmtileg líking, Pétur Björgvin. Minnir mig á að til eru þeir karlmenn og það íslenskir sem hafa talið sig ólétta, Þórbergur þar á meðal og gott ef ekki Hrafn Gunnlaugsson líka. Ég sé að Árni Svanur er í færslu sinni snemma í morgun að tengja hugmyndir við morguninn og er það mjög í mínum anda. Morgunganga er sérstaklega árangursrík í þessu sambandi og í stíl Gamla testamentisins að auki sem tengir jú hjálp Guðs gjarnan við morguninn, eins og ég hef svo oft minnt á.

Þorkell @ 9/6/2007 14.06

Þú segir: “Ég verð að taka fram að á gönguferðum mínum yrðu ekki til merkilegar hugmyndir ef ég væri ekki búinn að lesa áður, kynna mér eitthvert efni, og væri að glíma við ákveðið vandamál. Þegar ég svo finn ekki lausnina við skrifborðið þá hefur mér reynst vel að fara í göngutúr.”

Jón Sveinbjörnsson bannaði mér að lesa nokkuð annað en Biblíuna þegar ég skrifaði mitt fyrsta ritskýringarverkefni, þ.e. þegar ég skrifaði fyrstu drögin. Síðan mátti ég líta í bækur. Hann vildi meina að hættan væri sú að maður léti skoðanir annarra hafa áhrif á sig og um leið afvegaleiða sig. Ég hef því alltaf byrjað á frumvinnu sjálfur og ekki litið í bók fyrr en ég er búinn að komast að einhvers konar bráðabirgðaniðurstöðu. Þetta á einnig við um rannsóknir mínar á kvikmyndum. Ég passa mig á því að lesa ekki hvað aðrir hafa sagt fyrr en ég hef komist að niðurstöðu sjálfur.

En eins og áður sagði, þá fæðast flestar hugmyndir fyrir framan tölvuskjáinn, þótt ég kannist reyndar við að fá hugmyndir þegar ég fæst við eitthvað allt annað. Þetta minnir mig reyndar á kvikmyndina Pi en þar er aðalpersónunni ráðlagt að fara í heitt bað (og slappa af). Það sé þar sem lausnirnar finnist.

Gunnlaugur A. Jónsson @ 9/6/2007 14.15

Þetta sem þú hefur eftir Jóni Sveinbjörnssyni er nú raunar í fullu samræmi við það sem ég ráðlegg nemendum einnig og geri í síauknum mæli, þ.e. að hvetja nemendur til að lesa þann texta sem á að ritskýra aftur og aftur áður en nokkurt skýringarit er opnað. Þannig að ég er alveg sammála Jóni Sveinbjörnssyni í þessum efnum. Ég hef líka nefnt það sem hættu í þessu sambandi að nemendur verði svo lotningafullir gagnvart ritum allra þessara þekktu fræðimanna að þeir leyfi sér einfaldlega ekki eða þori ekki að móta sér sjálfstæðar skoðanir því að Brueggemann segir, Westermann segir o.s.frv.
Það sem ég var frekar að tala um var það að þegar maður í miðju verkefni lendir í því að andinn bregst manni, lausnirnar koma ekki. Þá finnst mér gott að fara út í göngu, öðrum hentar kannski betur bíltúr, eða fara í heitt bað og svo eru enn aðrir sem fá allar bestu hugmyndirnar við skjáinn. En svo vel þekki ég fjörlegt hugmyndaflug þitt Keli að ég get vel trúað að þú kannist einfaldlega ekki við þann vanda sem ég er að lýsa.


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli