gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Flateyri og óhreinu börnin hennar Evu · Heim · Ísrael: Shimon Peres kosinn forseti og Ehud Barak formaður Verkamannaflokksins »

“Að elska yðar aukist…” Afmælisrit dr. Björns Björnssonar prófessors

Gunnlaugur A. Jónsson @ 08.48 13/6/07

Afmælisrit dr. Björns Björnssonar prófessors emerítus er komið út. Ritið var afhent Birni síðdegis í gær við hátíðlega athöfn í Skólabæ, þar sem saman voru komnir nokkrir af höfundum ritsins, samstarfsfólk Björns við guðfræðideild, nánustu vinir og fjölskylda.

Afmælisritið kemur út í Ritröð Guðfræðistofnunar (24,2007). Ritstjóri var dr. Sólveig Anna Bóasdóttir, siðfræðingur, en með henni í ritstjórn voru dr. Pétur Pétursson, prófessor, og sá er þessar línur skrifar.

Það hefur verið afar ánægjulegt að vinna að þessu riti og held ég að við getum verið ánægð með árangurinn. Nokkrir útlendir fræðimenn, nánir samstarfsmenn Björns á vettvangi siðfræðinnar, skrifa í ritið svo og samkennarar hans við guðfræðideild auk annarra náinna samstarfsmanna við Háskóla Íslands, svo sem dr. Páll Sigurðsson lagaprófessor og dr. Vilhjálmur Árnason heimspekiprófessor.

Í sameiginlegri “afmæliskveðju” ritstjórnarinnar er starfsferill dr. Björns rakinn svo og guðfræðilegar áherslur hans. Yfirskrift þeirrar afmæliskveðju er sótt í Filippíbréfið 1:9-10: “Og þetta bið ég um elska yðar aukist með þekkingu og allri greind svo að þér getið metið rétt þá hluti sem munur er á.” Er því haldið fram að þessi ritningarstaður sé eins konar leiðarstef í félagslegri siðfræði Björns.

Lokaorð afmæliskveðju okkar eru þannig: “Framlag Björns Björnssonar, prófessors í guðfræðilegri siðfræði, er mjög mikilvægt og stenst einkar vel tímans tönn, ekki síst fyrir þá sök hve þekkingarkrafan er rík í fræðastarfi hans öllu. Jafnframt er áherslan á að þekkingin sé tekin í þjónustu kærleikans. Skýr rödd hans sjálfs gerir að verkum að auðvelt er að átta sig á viðhorfum hans og grundvallargildum. Framsetning Björns á kristinni siðfræði er í senn klassísk og fersk og hentar einkar vel sem kennsluefni í guðfræðilegri og félagslegri siðfræði í guðfræðideild eins og okkar.”

Í hófinu í Skólabæ fluttu ávörp dr. Pétur Pétursson, dr. Sólveig Anna Bóasdóttir og dr. Arnfríður Guðmundsdóttir, varaforseti guðfræðideildar, í fjarveru dr. Hjalta Hugasonar, deildarforseta, sem var erlendis. Sannarlega gleðileg samvera þar sem sólin skein skært eins og í tilefni dagsins.

Í gærkvöldi kom ritstjórnin síðan saman í einkar ánægjulegu kvöldverðarboði hjá dr. Sólveigu Önnu Bóasdóttur, ritstjóra, og var þar fagnað yfir verklokum og vel heppnuðu samstarfi.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-06-13/ad-elska-ydar-aukist-afmaelisrit-dr-bjorns-bjornssonar-professors/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli