gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Hitchcock og “survival of the fattest” · Heim · Kvenfólkið heldur uppi merkinu »

Kínversk stúlka meðal 18 kandídata úr guðfræðideild

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.50 16/6/07

Í dag verða átján kandídatar brautskráðir úr guðfræðideild og man ég ekki eftir svo fjölmennum hópi við eina brautskráningu  úr þessari elstu deild Háskólans. Hópurinn er samsettur af fólki sem er að ljúka ólíkum gráðum úr guðfræði, svo sem cand.theol.-gráðu, BA-gráðu og djáknaprófi.

Það er fréttnæmt að meðal þess góða fólks sem í dag brautskráist úr deildinni er ein kínversk stúlka, Jianying Niu að nafni. Hún hefur staðið sig með prýði, ekki síst þegar tekið er tillit til þess að hún hefur alla sína námstíð hér þurft að vinna með námi sínu, einkum á umönnunarstofnunum.

Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að leiðbeina Niu með BA-ritgerð hennar sem fjallaði um nokkur vers úr 4. Mósebók 20 og dró Niu þar upp mjög áhugaverða og frumlega hliðstæðu milli inngöngu hinna fornu Ísraelsmanna (Hebrea) í Kanaansland og framgangs kristninnar í Kína.

Mér telst til að  af kandídötunum átján sem í dag verða brautskráðir úr guðfræðideild hafi sex skrifað lokaritgerðir sínar (ýmist BA-eða kjörsviðsritgerðir) undir handleiðslu minni. – Skynsamlegt val hjá því ágæta fólki -;)

Rétt er að taka fram að einhverjir þeirra sem nú ljúka BA-prófi munu halda áfram námi við deildina og stefna að embættisprófi eða þeirri gráðu sem nú kallast mag. theol. en var áður cand. theol.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-06-16/kinversk-stulka-medal-18-kandidata-ur-gudfraedideild/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli