gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Dagar Teits taldir eftir enn eitt tap KR? · Heim · Sigurður Líndal og konungskoman 1907 »

Árviss bókagjöf Íslandsvinarins Beatrice Bixon

Gunnlaugur A. Jónsson @ 15.02 21/6/07

Beatrice Bixon, frá New Haven í Bandaríkjunum, kom til landsins í morgun. Eins og jafnan áður var hún hlaðin bókum í biblíufræðum. Ég sótti hana út á Keflavíkurflugvöll kl. 6:30 í morgun og var hún að venju mjög ánægð að vera komin til landsins en hingað hefur hún komið á hverju ári síðan 1989. Veðráttan hér á landi er henni mjög að skapi. Segist hún koma vegna veðursins en ekki þrátt fyrir það.

Oft er talað um eitthvert frægt fólk sem Íslandsvini eftir að það hefur litið hingað til lands í eitt einasta skipti. Það er hins vegar leitun að sannari Íslandsvini en Beatrice Bixon. Hún hefur t.d. mikinn áhuga á fornbókmenntum okkar og íslenskum menningararfi yfirleitt. Hún á íbúð hér og dvelst hérna á hverju ári, yfirleitt tvo til þrjá mánuði í senn.

Þá er það henni beinlínis köllun að styja við bakið á gyðinglegum fræðum hér á landi. Bækurnar sem hún hefur á liðnum árum gefið Háskólabókasafninu eru farnar að nálgast þúsundið og kannski komnar yfir það mark. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki talið þær nákvæmlega þó að ég hafi á liðnum árum skráð þær samviskusamlega.

Að þessu sinni kom hún einkum með skýringarit við Gamla testamentið úr ritröðinni Interpretation. A Commentary for Teaching and Preaching. Þar með verður sú ritröð til í heild sinni á Háskólabókasafninu því í fyrra hafði hún gefið skýringarit við allar bækur Nýja testamentisins og nokkrar bækur Gamla testamentisins. Þá kom Bambi, eins og vinir hennar kalla hana, einnig með nokkur skýringarit við Nýja testamentið í hinni vönduðu og ítarlegu Hermeina-ritöð. Ennfremur kom hún með fáeinar stakar bækur, einkum á sviði G.t.-fræða.

Beatrice Bixon er fædd 5. mars 1938 í Brooklyn, New York. Móðir hennar var rússnesk, en faðir hennar pólskur. Báðir fluttu foreldrar hennar barnungir til Bandaríkjanna. Hún stundaði nám við Abraham Lincoln High School í Brooklyn og lauk þaðan prófi 1955, BA-prófi í hagfræði lauk hún frá Roanoke College, Salem VA 1959. Þá hefur hún tekið fjölmörg námskeið við bandaríska háskóla, þ.á m. Harvard University Summer School. Í gyðinglegum fræðum hefur hún einnig hlotið umtalsverða menntun, m.a. í nútíma hebresku og í sögu gyðinga og menningu hjá rabbí Morris B. Margolies. Árið 1964 bjó hún um sex mánaða skeið í Ísrael, kynnti sér þjóðlíf þar í landi og bætti við kunnáttu sína í nútíma hebresku.  

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-06-21/arviss-bokagjof-beatrice-bixon/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli