gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Sigurður Líndal og konungskoman 1907 · Heim · Heppni að hafa verið innan borgar fjarri umferðarteppu helgarinnar »

Rómarborg vísindanna umsetin barbörum!

Gunnlaugur A. Jónsson @ 15.38 23/6/07

“Sú nýja Rómarborg sem vísind byggðu er umsetin barbörum.” Þessa krassandi tilvitnun hefur dr. Grímur Valdimarsson, forstjóri fiskiðnarsviðs Matvæla- og landdbúnaðarstofnunar SÞ, eftir Bretanum Dick Taverne.

Grein Gríms er meðal þess sem ég hef verið að lesa nú í vikunni í nýútkomnu afmælisriti dr. Sigmundar Guðbjarnarsonar, fyrrverandi rektors Háskóla Íslands. Nefnist afmælisritið Vísindin heilla og er óhætt að segja að það heiti sé við hæfi á riti sem sett er saman til heiðurs dr. Sigmundi Guðbjarnasyni.

Vegna kynna af Sigmundi sem rektor Háskólans og virðingar fyrir góðu starfi hans á þeim vettvangi skráði ég mig á heillaóskaskrá ritsins og fékk það sent í áskrift nú í vikunni.

Frekar átti ég þó von á því að í ritinu væri heldur fátt sem beinlínis höfðaði til mín þar sem fræðasvið Sigmundar er jú býsna langt frá mínu og þeir sem í ritið skrifa standa flestir nærri honum í fræðunum.

En ritið reyndist fjölbreytilegt og þó að vissulega séu í því greinar sem séu of sérfræðilegar til að ég lesi þær að nokkru gagni þá kom mér á óvart hvað mikið af efninu er áhugavert fyrir breiðari lesendahóp. A.m.k. hef ég haft af ritinu gagn og gaman. Það hefur verið mér kærkomin lesning í þessari viku sem ég hef að langmestu leyti haldið mig heima við vegna lasleika.

Grein Gríms finnst mér vel skrifuð og áhugaverð. Greinina nefnir hann: “Orkuna styrkja, viljann hvessa.” Vísindin umgjörð öflugs atvinnulífs.

Í greininni er m.a. lögð áhersla á mikilvægi alþýðufræðslu, fjallað um þróun atvinnulífs og samband vísinda og viðskipta og eins og í svo mörgum greinum bókarinnar er einnig tengt við starf dr. Sigmundar við Háskóla Íslands. Það á við um það að gerð er grein fyrir því þegar matvælafræðinámi var komið á við Háskólann og sagt frá upphafi fiskiðnarrannsókna.

Sérstaklega staldraði ég við þann hluta greinarinnar þar sem Grímur fjallar um tilvitnuð ummæli Bretans Dick Taverne úr bók hans The March of Unreason. Taverne segir almenning vera orðinn efins um að ný tækni feli í sér framfarir og sérfræðingum sé ekki lengur teystandi. Hann ræðir m.a. um stöðugan “hræðsluáróður” um mögulegar náttúruhamfarir sem gætu leitt skelfingar yfir heimsbyggðina og hvernig umhverfisöfgamönnum vex fiskur um hrygg.

Taverne talar um að það sem menn samþykktu á 18. öldinni og kölluðu “Upplýsingin” sé nánast í hættu. En upplýsingin fól m.a. í sér trú á framþróun og að líf mannanna í samfélaginu gæti stöðugt farið batnandi fái trú á mannlega skynsemi og framþróun vísindanna að dafna. Taverne brýnir vísindamenn til þess að taka þátt í umræðu til varnar vísindunum.

Grímur tekur undir þetta og telur að hér á landi sé enn verk að vinna við að skýra gildi hinnar vísindalegu aðferðar. Þá ræðir hann ímyndarsamfélagið og telur að sannleikurinn eigi í vök að verjast í veröld þar sem markaðsöflin verði æ mikilvægari.

Grímur er fundvís á skemmtilegar tilvísarnir eins og þá sem vitnað var til í upphafi þessarar færslu. Það er meðal þess sem gerir það að verkum að mér þótti grein hans einkar áhugaverð.  Hún vekur líka til umhugsunar um mikilvægt efni.

Af öðrum greinum í ritinu sem mér fannst fróðlegt að lesa nefni ég stutta grein dr. Baldurs Símonarsonar, “Við ætlum að leita”. Þar fjallar hann m.a. um bók Ítalans Primo Levi (1919-1987) um lotukerfið. Sjálfur á ég í fórum mínum og hef ég lesið nokkrar bækur eftir Levi svo og ítarlega ævisögu hans en bók hans um lotukerfið hef ég hins vegar ekki lesið. Hún kom út árið 1975 og nefndist á ítölsku Il sistema periodica og í enskri þýðingu 1984, The Periodic Table.  

Levi var ítalskur gyðingur og var handtekinn árið 1943 og fluttur í Auschwitz útrýmingarbúðirnar. Þar reyndust Þjóðverjar hafa not fyrir efnafræðikunnáttu hans og átti það mestan þátt í að hann komst hjá því að vera sendur í gasklefana og lifði hann af helförina. Minningar Levis um dvölina í Auschwitz-búðunum þykja með allramerkustu heimildum um þann myrka kafla í sögu mannkynsins. Einstæðar lýsingar sem eru skrifaðar af nákvæmni raunvísindamannsins.

Um bók Levis um lotukerfið skrifar Baldur:

“Lotukerfið er afar óvenjuleg bók og afburða vel skrifuð. Í henni er 21 kafli og hver þeirra kenndur við ákveðið frumefni. Hver kafli lýsir ákveðnum atvikum og persónum í lífi Levis. Með undursnjöllum hætti tengir hann atvikin og persónurnar viðkomandi frumefnum og eiginleikum þeirra.”

Baldur nefnir þessa bók til að andmæla þeirri viðteknu skoðun að þekking á raungreinum sé jafnan afar sérhæfður fróðleikur sem eigi lítið skylt við hið daglega líf. Rithöfundar eins og Umberto Eco og Saul Bellow lofsungu bókina  og var Levi orðaður við Nóbelsverðlaun í bókmenntum.  

Það kom mér óneitanlega þægilega á óvart að finna umfjöllun um Primo Levi, einn af mínum uppáhalds rithöfundum, í þessu afmælisriti dr. Sigmundar Guðbjarnasonar. Í heild er ritið girnilegt til fróðleiks og á ég vafalaust eftir að lesa meira í því á næstu dögum.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-06-23/romarborg-visindanna-umsetin-barborum/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli