gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Bækur Bixons voru afhentar í dag · Heim · Til varnar blogginu »

A Long way gone – mögnuð bók

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.15 27/6/07

Ég var að sjá það í morgun að bókin A long way gone. Memoirs of a boy Soldier væri væntanleg út á íslensku í haust.

Bók þessa keypti ég úti í New York þegar ég var þar á ferð í lok febrúar síðastliðnum. Hún reyndist til sölu í kaffistofu Starbucks niðri í anddyri hótelsins þar sem ég bjó og vakti athygli mína, enda eina bókin sem þar var til sölu.

Þar sem ég sá að 2$ af andvirði bókarinnar yrði varið til styrktar starfi Unicef í þágu barna sem hafa orðið fyrir barðinu á stríðsátökum ákvað ég að kaupa hana, þó svo að nægar bækur aðrar hefði ég í fórum mínum.

Ég varð sannarlega ekki fyrir vonbrigðum með bókina og fór svo að hún var eina bókin sem las í heild sinni í minni stuttu NY-ferð.  Hreint mögnuð lesning, einhver áhrifamesta bók sem ég hef lesið lengi.

Bókin fjallar raunar um eitthvað það óhuganlegasta í stríðsrekstri samtímans. Það er þegar börn eru tekin, þeim rænt af skæruliðahreyfingum, oft ekki komin á táningsár,  og þau tvinguð til að bera vopn og þeim “kennt” að nota þau á algjörlega miskunnarlausan hátt. Um þetta veit umheimurinn alltof lítið vegna þess að börnin reynast sjaldnast til frásagnar.

Þeim mun merkilegri er saga Ishmael Beah af reynslu sinni úr borgarastyrjöldinni í Sierra Leone. Bókin lýsir ótrúlegri grimmd stríðsins og hvernig venjulegt fólk getur leiðst til eða verið þvingað til að fremja ótrúleg grimmdarverk.

Engu að síður er þetta falleg frásögn sem veitir einstæða innsýn í líf þess fólks sem þarna átti hlut að máli og hinn ungi Ishmael Beah reynist gæddur alveg óvenjulegum frásgnarhæfileikum. Óvenjuleg bók fyrir flestra hluta sakir, skýr í framsetningu, með knappan en læsilegan stíl, bók sem ég mæli hiklaust með. 

Ishmael Beah bjargaðist um síðir og heyrir slíkt til algjörra undantekninga. Hann kom til Bandaríkjanna árið 1998, þá aðeins átján ára að aldri, með hreint ótrúlega lífsreynslu í farteskinu.

Hann hefur unnið hörðum höndum við að berjast gegn því sem hann sjálfur mátti þolað, hefur m.a. talað oftar en einu sinni frammi fyrir samkundu Sameinuðu þjóðanna.

Ekki verður öðru trúað en að hún hristi upp í ýmsum og opni augu fólks fyrir þeim hörmungum sem eiga sér stað í hinni gleymdu heimsálfu Afríku.  

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-06-27/a-long-way-gone-mognud-bok/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli