gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Deus ex cinema sjö ára í dag · Heim · 4. júlí handan hafs og í Háskóla Íslands »

“Canon” Egils og “canon” guðfræðinga

Gunnlaugur A. Jónsson @ 12.43 4/7/07

Ofurbloggarinn Egill Helgason skrifar um Canon á eyjan.is í morgun. Mér finnst yfirleitt skemmtilegt að lesa pistla Egils og skil vel að hann sé mikið lesinn. Hann er með athyglisverða pælingu um “canon” en það hugtak hljómar kunnuglega í eyrum okkar guðfræðinga.

Egill skrifar m.a.:  “Í bókmenntum er notað hugtakið canon. Kannski má einfaldlega þýða þetta sem bókaskrá – skrá yfir bækur sem allt almennilega menntað fólk þarf að þekkja, bækur sem mega teljast heimsbókmenntir, klassískar bækur.Svo má líka segja að canon séu bækur sem þykir sjálfsagt að kenna í skólum. (…) Canon getur verið þrúgandi. Uppreisnir í bókmenntum eru yfirleitt gegn canon. Við erum reyndar hætt að sjá uppreisnir í bókmenntum. Tími þeirra er líklega liðinn – því miður. Í staðinn búa bókmenntirnar við velviljað afskiptaleysi. En það má lengi rífast um hvað sé canon og hvernig eigi að nota þær bækur.”

Í hugum flestra guðfræðinga stendur hugtakið “canon” einfaldlega fyrir það helgiritasafn sem við í daglegu tali nefnum Biblía, en Biblía er grískt fleirtöluorð sem merkir bækur. Það er rétt að minnast þess að ekki er samstaða meðal kristinna manna eða kirkjudeilda um hvaða bækur skuli tilheyra helgiritasafninu (canon) og í þeirri Biblíu sem kemur út í haust verða apókrýfu bækurnar með á nýjan leik. Þær hafa verið með í sumum íslenskum biblíuútgáfum en ekki öðrum. Oft réði þar úrslitum hvort Breska og erlenda biblíufélagið var kostunaraðili útgáfunnar. Þar á bæ áttu apókrýfu bækurnar nefnilega ekki upp á pallborðið.

Svo hafa alltaf af og til verið til þeir sem viljað hafa losa sig við Gamla testamentið úr Biblíunni. Þýskir nasistar voru auðvitað dæmi um það. Ýmsir þeirra vildu setja fornar norrænar (arískar) bókmenntir í stað hinna gyðinglegu, hebresku ritninga.

Heyrst hefur í prestvígðum mönnum hér á landi og það nýverið sem hafa virst hallir undir þá skoðun að Gamla testamentið eigi ekki heima í Biblíunni. Gyðingahatur er gjarnan fylgifiskur slíkra skoðana. Menn virðast gleyma því að leiðtogi kristinna manna, Jesús Kristur, var Gyðingur og Gamla testamentið var Biblía hans.

En það mun ætíð verða svo að menn hafi mismikið dálæti á einstökum bókum Biblíunnar. Kristnir menn lesa guðspjöllin yfirleitt mest og svo ýmis Pálsbréf en Davíðssálmar njóta líka mikilla vinsælda og það svo mjög að ýmsir telja þá vera hluta af Nýja testamentinu. En víst kannast guðfræðingar vel við “velviljað afskiptaleysi” gagnvart Biblíunni sem Egill telur að bókmenntir samtímans búi við.

Þar er þó rétt að hafa í huga að afskiptaleysi er sjaldnast sérlega velviljað. Það hefur Elie Wiesel verið manna ötulastur við að benda á. Hann segir nefnilega að afskiptaleysið sé sjálf andstæða kærleikans.´En út í þá sálma var ekki ætlunin að fara hér.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-07-04/canon-egils-og-canon-gudfraedinga/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli