gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Minning um blauta útihátíð og Rúnar Júl · Heim · “Past president” Við tjörnina »

Á söguslóðum Biblíunnar

Gunnlaugur A. Jónsson @ 21.22 8/7/07

Það er ekki á allra vitorði að til er á íslensku prýðileg bók um fornleifafræði Biblíunnar. Bókin sem ég á við var skrifuð af hinum kunna sjónvarpsmanni BBC Magnúsi Magnússyni sem lést í byrjun þessa árs (1929-2007). Bókin mun raunar ekki fáanleg í bókaverslunum lengur en vafalaust er hægt að hafa upp á henni hjá fornbókasölum og svo auðvitað á bókasöfnum.

Ég vek athygli á bókinni meðal annars vegna þess að ég hef ákveðið að leggja aukna áherslu á fornleifafræði hinna fornu Miðausturlanda í 1. árs námskeiðinu Saga,bókmenntir og þjóðfélag Hebra sem ég kenni nú í haust.

Bókin kom upphaflega úr á ensku 1977 undi heitinu BC-Archaeology of the Bible Lands en hefur verið þýdd á nokkur tungumál. Þannig á ég sænskt eintak af henni og svo hið íslenska sem Dagur Þorleifsson þýddi af stakri prýði og kom út 1985. Íslenska heiti hennar er: Á söguslóðum Biblíunnar. Útgefandi var Örn og Örlygur.

Bókin byggist á samnefndum sjónvarpsþáttum sem Magnús Magnússon gerði og er efnið matreitt af kunnáttu hins reynda og hæfa sjónvarpsmanns. Textinn er enda mjög læsilegur og byggir á samtölum við marga af frægustu fornleifafræðingum á sviði fornleifa Austurlanda nær.

Hinn kunni fornleifafræðingur dr. James B. Pritchard (1909-1997) var ráðunautur við gerð sjónvarpsþáttanna og las yfir handrit bókarinnar og leiðrétti. Þekkatsta verk Pritchard  er hið viðamikla ritverk Ancient Near Eastern Texts Relating to the Old Testament.

Á baksíðu bókarinnar  Á söguslóðum Biblíunnar  segir að bókin sé eins konar vegahandbók um söguslóðir Biblíunnar og um leið lykill að Austurlöndum nær.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-07-08/a-soguslodum-bibliunnar/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli