gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Á söguslóðum Biblíunnar · Heim · Grænlandsfarar í heimsókn »

“Past president” Við tjörnina

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.06 9/7/07

Ég bauð eiginkonunni út að borða á föstudagskvöldið. Talsvert um liðið síðan ég hef farið á veitingastað hér á landi. Fyrir valinu varð veitingastaðurinn Við tjörnina.

Raunar var eiginkonan í fyrstu ekkert sérlega áhugasöm um að fara út að borða. En hún  skynjaði fljótlega að ég var ekki síst að bjóða sjálfum mér. Var lukkulegur með nýtt merki í jakkanum. “Past president” stendur á því. Það hafði ég fengið á Rótarýfundi í hádeginu til marks um að forsetatíð minni í þeim ágæta klúbbi Seltirninga er lokið og Garðar Ólafsson úrsmiður tók við forsetakeðjunni af mér. Var ég hvíldinni feginn eftir starfsamt Rótarýár og vildi halda upp á þessi tímamót. Í Rótarý eru áramótin nefnilega í byrjun júlí.

Fengum góðan mat Við tjörnina, eiginkonan humar í aðalrétt og ég kola. Hvort tveggja mjög gott. Það er einfaldlega rangt hjá þekktasta bloggara landsins, stöddum í Eyjahafi, að Íslendingar kunni ekki að elda fisk. Mér finnst ég hvergi fá betri fisk en á góðum íslenskum veitingastöðum. Bestur finnst mér hann á Þremur frökkum og ekkert betra en rauðsprettan þar.

Desertinn fengum við sameiginlegan. Tvær skeiður og einn rétt. Slíkt þykir fullkomlega sæmandi nú orðið.

Það vakti athygli okkar hve fáir gestir voru þarna á föstudagskvöldi. Þjónustustúlkan kunni ekki skýringu á því, sagði þau einmitt undrast það. En ekki truflaði fámennið okkur og þægileg íslensk hljómlist átti sinn þátt í notalegri stemmingu. Þeir gestir sem þarna voru heyrðist mér flestir vera útlendingar. Áttum tal við ungt enskt par þegar eiginkonan þurfti út á svalir að reykja. Reykingarnar tengja fólk, hvað sem um þær er annars sagt. Sjálfur hef ég blessunarlega aldrei reykt en gekk þó út á svalir engu að síður til að horfa á máfana á tjörninni.

Við sátum annars við glugga þar sem Dómkirkjan og Alþingishúsið blöstu við. Verið er að gera við Alþingishúsið. Vinnupallar utan á húsinu og búið að losa um margar þakplöturnar.

Hópur túrista gekk framhjá af og til í fallegu sumarveðrinu en annars virtust fáir í bænum. Japanir áberandi meðal ferðamanna. Einn þeirra gekk með grímu fyrir andliti. Ekki er mengunin orðin svo mikil í Reykjavík að þessi eigi að þurfa.

Á leiðinni heim gengum við framhjá pöbbnum við Dómkirkjuna. Fólk sat þar við borð fyrir utan staðinn og reykti. Örfáar hræður virtust innan dyra. Reykingabannið hefur að einhverju leyti fært bjórdrykkjuna í miðbænum út á gangstéttarnar.

Raunar var skammt liðið á kvöldið og örugglega hefur átt eftir að fjölga. Fréttir berast af skrílslátum í miðborginni þegar komið er fram yfir miðnætti.

Löngu fyrir þann tíma vorum við komin heim þar sem ég bauð upp á kvikmynd Hitchcocks The Man Who Knew Too Much. Þá mynd hef ég séð nokkrum sinnum áður þó ekki finnist mér hún meðal bestu mynda meistarans.

Það er fremur dýrt að fara út að borða á Íslandi en maturinn er víða í háum klassa jafnvel heimsklassa. Ég hugsa að Hitchcock sá mikli sælkeri hefði kunnað að meta hann.

Ekki hef ég gert mikið af þvi að skrifa um ferðir á veitingastaði en ákvað eftir nokkra umhugsun að staðsetja þessa færslu í flokknum menning! Það er býsna “loðið og teygjanlegt hugtak” ekki síður en annað og raunar ómerkilegra hugtak sem lögfræðiprófessor einn notaði þessi orð um.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-07-09/past-president-vid-tjornina/

Athugasemdir

Fjöldi 2, nýjasta neðst

Stefán Einar @ 10/7/2007 00.09

Það er afar gaman að sjá hversu fjölbreytt matarmenningin er orðin hérlendis og víða leynast hálffaldar perlur í veitingahúsaflórunni. Íslendingar kunna að reiða fram fisk og sjaldan kemst maður í meiri veisluföng en einmitt á stöðum eins og Sjávarkjallaranum en þar er túnfisksteikin eitthvað það mesta sælgæti sem ég hef komist í.

Gunnlaugur A. Jónsson @ 10/7/2007 11.56

Þakka þér innlitið Stefán Einar. Sammála er ég þér í þessum efnum og víst er Sjávarkjallarinn góður.


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli