gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Rótarýárið á Seltjarnarnesi 2006-2007 · Heim · Ummæli Ásgeirs forseta um Ísland og Ísrael »

Af ættarmóti og skógrækt Steingríms Davíðssonar skólastjóra

Gunnlaugur A. Jónsson @ 10.49 16/7/07

Það er fróðlegt að verða þess áskynja hversu miklu einstaklingar geta með hugsjón sinni og krafti fengið áorkað. Skógrækt Steingríms Davíðssonar skólastjóra (1891-1981) í landi Gunnfríðarstaða í Langadal í Húnavatnshreppi er gott dæmi um það.

Niðjar Steingríms og Helgu Dýrleifar Jónsdóttur (1895-1995) komu saman að Húnavöllum í Austur-Húnavatnssýslu um helgina á vel heppnuðu ættarmóti og voru þátttakendur rúmlega 130 talsins en alls eignuðust þau Steingrímur og Helga tólf börn sem upp komust.

Var farið í skoðunarferð í tveimur stórum rútubílum á nokkra þá staði sem tengjast sögu þeirra Steingríms og Helgu.

Hápunktur mótsins var heimsókn að Gunnfríðarstöðum þar sem dr. Helgi Sigurðsson dýralæknir sagði sögu staðarins við gömlu bæjarrústirnar sem nú standa inni í miðjum skógi þar sem há og tignarleg tré bera skógræktaráhuga Steingríms Davíðssonar fagurt vitni.

Steingrímur gaf Skógræktarfélagi Austur-Húnvetninga Gunnfríðarstaði en upphaflega voru flestir mjög vantrúaðir á að þar væru hægt að rækta skóg, skilyrði voru talin svo óhagstæð. Með elju sinni og dugnaði sýndi Steingrímur fram á annað.

Þau hjónin hvíla í kirkjugarðinum á Blönduósi og var vitjað um leiði þeirra þar, gamli skólinn sem Steingrímur stýrði svo lengi var og heimsóttur en þar stóð einmitt yfir sýning í tilefni Húnavökunnar.

 Veðrið var einstaklega gott og ekki síst í í skóginu í landi Gunnfríðarstaða og var þar boðið upp á kaffiveitingar við sumarhús sem fjölskylda Hauks Steingrímssonar hefur reist þar.

Sameiginlegur kvöldverður var loks á hótelinu á Húnavöllum á laugardagskvöld þar sem Brynleifur H. Steingrímsson læknir (tengdafaðir minn) sagði frá foreldrum sínum og uppvaxtarárunum á Blönduósi í snjallri ræðu.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-07-16/af-aettarmoti-og-skograekt-steingrims-davidssonar-skolastjora/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli