gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Ísrael sleppti 256 föngum – Ingibjörg Sólrún sér “glufu” · Heim · Íslenska tugþrautarævintýrið heldur áfram »

Átti Guð eiginkonu? – Sjónarmið fornleifafræðings

Gunnlaugur A. Jónsson @ 10.59 20/7/07

Einhver kunnasti og áhrifamesti fornleifafræðingur á sviði fornleifa Miðausturlanda er Bandaríkjamaðurinn William G. Dever. Hann hefur skrifað bók með titli sem er líklegur til að selja bókina vel: Did God Have a Wife? Archaeology and Folk Religion in Ancient Near East (Grand Rapids 2005).

Dever hefur látið mjög til sín taka á sviði gamlatestamentisfræða enda er fornleifafræði Landsins helga og nágrennis meðal þeirra greina sem undir það fræðasvið falla. Eina af þekktustu bókum hans hyggst ég nota í námskeiðinu Saga bókmenntir og þjóðfélag Hebrea sem ég kenni fyrir guðfræðinema á 1. ári nú í haust. Þar er um að ræða bókina Who Were the early Israelites and Where Did They Come From? (2003).

Dever hefur haldið úti öflugu andófi gegn svokölluðum “minimalistum” í G.t.-fræðum, þ.e. gegn þeim fræðimönnum sem halda því fram að við getum harla lítið vitað um sögu hinna fornu Ísraelíta, þ.e. sögu Ísraels fyrir tíma babýlónsku herleiðingarinnar (586-538 f.Kr.)

Hann er þó fjarri því að vera íhaldssamur fræðimaður, þvert á móti tekur hann hinum biblíulegu frásögnum með miklum fyrirvara og vill fyrst og síðast styðjast við fornleifafræðina. En hann telur einmitt að hún leiði í ljós að við vitum mun meira um sögu hins forna Ísraels heldur en ýmsir hinna róttækustu biblíufræðinga hafa haldið fram á undanförnum 20 árum eða svo (t.d. þeirra Lemche og Thompson við Kaupmannahafnarháskóla og Davies við háskólann í Sheffield).

En í þeirri bók sem hér um ræðir heldur hann því fram að fornleifafræðin sýni að dýrkun gyðjunnar Aséru hafi verið útbreidd í fornri ísraelítískri alþýðutrú og dregur fram dæmi úr fornleifafræðinni sem sýni að í vissum hópum a.m.k. hafi verið litið á Aséru sem eiginkonu Jahveh, guðs Gamla testamentisins.

Dever teflir alþýðutrúnni fram gegn “trú bókarinnar”. Kenningar hans hafa fengið misjafna dóma og hér er ekki ætlunin að leggja dóma á þær, heldur láta nægja með nokkrum orðum að vekja athygli á þessari áhugaverðu bók.

Hvað sem um kenningar Devers verður sagt þá er þekking hans á fornleifafræðinni hafin yfir allan vafa og auk þess skrifar hann einstaklega læsilegan og áhugavekjandi texta. Hann leggur sig fram um að skrifa þannig að sem flestir geti notið fræðanna og það finnst mér mikill kostur.

Í gamlatestamentisfræðunum hefur yfirleitt verið talað um Aséru sem frjósemisgyðju er dýrkuð hafi verið af Kanverjum eða sem trésúlu er tákna átti gyðjuna. Dýrkun hennar er harðlega fordæmd í Gamla testamentinu sem hin argasta hjáguðadýrkun.

En í bók Devers er því hins vegar haldið fram að dýrkun hennar hafi verið útbreidd og sú dýrkun hafi í alþýðutrúnni verið álitin samræmast ágætlega dýrkun Jahveh. Þannig að Guð Ísraelsmanna á tímum Gamla testamentisins var, samkvæmt William G. Dever, alls enginn piparsveinn!

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-07-20/atti-gud-eiginkonu-sjonarmid-fornleifafraedings/

Athugasemdir

Fjöldi 4, nýjasta neðst

Glúmur Gylfason @ 27/7/2007 00.35

“Átti Guð eiginkonu?”
Gaman yrði ef séra Auður Eir myndi skrifa athugasemd við þetta blogg!

Gunnlaugur A. Jónsson @ 27/7/2007 11.38

Ég geri mér grein fyrir að hugmyndin um eiginkonu Guðs er ekki beinlínis í anda kvennaguðfræðinnar. En titillinn á umræddri bók Devers er óneitanlega til þess fallinn að draga athyglina að bókinni og til þess er leikurinn vafalaust gerður.

Carlos @ 27/7/2007 16.23

Ég held að það komi málinu ákaflega lítið við hvort kenningar Devers falla að hugmyndum kvennaguðfræðinnar eða annarrar trúfræði, það er kvennaguðfræðinnar (og hefðbundinnar trúarbragðafræði) að spurja: Hvað varð til þess að háguð varð einn guð og makalaus? Eru jú leifar henóþeisma í sálmum biblíunnar, þar sem m.a. er talað um Guð sitjandi í guðaþingi.

Ég tek eftir orðunum “alþýðutrú”. Ég man eftir einu tilfelli hin síðari ár, þar sem alþýðutrú varð svo “meinstrímuð” að með ákvörðun æðsta yfirmanns varð hún að dogma. Er ég þá að tala um Maríudogmurnar á 19. og 20. öldinni. Tal um Maríu Guðsmóður nær orðið svo langt að henni er haldið að tilbiðjendum sem samverkakonu í frelsuninni (coredemptrix) hvort heldur sem það er orðið opinbert orðalag í kaþólskunni eða ekki. Alla vega ætti það ekki að undra neinn trúmann eða rannsakenda trúar, að trúarinnihaldið verður ekki meitlað í stein, þrátt fyrir tilraunir trúfræðiprófessora að gera það. Steinninn á það til að mást …

Gunnlaugur A. Jónsson @ 27/7/2007 17.10

Satt að segja var ég alls ekkert með kvennaguðfræði í huga þegar ég skrifaði þessa færslu eða stuttu kynningu á bók Devers. En einhliða áhersla á Guð sem föður eða eiginmann er ekki mjög í
anda kvennaguðfræðinnar, eins og ég hef upplifað hana og skilið. Þakka þér svo þitt ágæta komment, Carlos.


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli