gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Hakakrossar á minnismerki á Tisha B’av (helsta sorgardegi Gyðinga) · Heim · Göng í Palestínu? »

“Hann talaði þannig að allir skildu”. Af minningarorðunum um Einar Odd Kristjánsson

Gunnlaugur A. Jónsson @ 12.32 25/7/07

“Hann talaði mál sem fólkið skildi, pakkaði skoðunum sínum ekki inn í umbúðir heldur sagði þær hreint út af einlægni sem varð til þess að hann náði fljótt trausti þeirra sem á hann hlýddu.” Það er er mikill samhljómur í minningargreinunum í Morgunblaðinu í dag um Einar Odd Kristjánsson, alþingismann. Og þessi tilvitnuðu orð eru dæmigerð.

Í langflestum greinanna, sem eru rúmlega 50 að tölu, er lögð áhersla á það að Einar Oddur hafi talað mál sem “allir skildu”. Það kann að virðast undarlegt að það þyki tiltökumál. Er það ekki þannig sem allir alþingismenn hljóta að tala? En svo er augsýnilega ekki.

Og það sama er raunar að segja um svo margt það fólk sem þó hefur atvinnu sína af því að tala til fjöldans, hvort sem það eru prestar, fjölmiðlafólk, kennarar eða talsmenn atvinnuveganna. Það er list sem tiltölulega fáum er gefin að ná eyrum og athygli fjöldans. Þá list kunni Einar Oddur Kristjánsson greinilega flestum betur.

Það er að sjálfsögðu ekki ætlun mín að bæta við enn einni minningargreininni um mann sem ég þekkti ekki persónulega. En vissulega þekkti öll þjóðin Einar Odd Kristjánsson í gegnum fjölmiðla. Og ég held að hann hafi verið í hópi tiltölulega fárra manna sem öllum þótti vænt um.

Sjálfur lék ég mér að því fyrir kosningar að skrifa pistil hér á vefsíðunni um “uppáhalds” stjórnmálamennina úr öllum flokkum og nefndi Einar Odd þar á meðal og einmitt það einkenni hans að tala “klartext” eins og kallað er á sænsku, það að vera hreinn og beinn, tala skiljanlegt mál.

“Hann talaði tungumál sem forystumenn verkalýðshreyfingarinnar skildu,” skrifar Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins.  “Fólkið lagði við hlustir þegar Einar tók til máls, það skildi einföld rök hans og vafningalausa framsetningu,” skrifar Tómas I. Olrich. Og forsætisráðherrann Geir Haarde ber vitni um hið sama: “Hann var þannig að allir hlustuðu þegar hann kaus að taka til máls.”

“Hann kom vafningalaust og beint að hlutunum og þannig, vopnaður sínu kjarnyrta vestfirska tungutaki að allir máttu skilja,” skrifar Steingrímur J. Sigfússon.

“Hann var það sem danskurinn myndi kalla folketaler, sagði það sem hann meinti og meinti það sem hann sagði,” skrifar Björn I. Hrafnsson.

“Hann gat komið orðunum að hlutunum með svo einstæðum hætti að eftir því var tekið,” skrifar Einar Kr. Guðfinnsson sem segir jafnframt að þetta sé hæfileiki sem ákaflega fáum sé gefinn.

“Hann kom fram sem hreinskiptinn, hispurslaus alþýðumaður og talaði mál sem allir skildu,” skrifar Grétar Þorsteinsson.  “Þjóðin átti því ekki að venjast að talsmenn vinnuveitenda töluðu jafn tæpitungulaust og væru jafn hispurslausir og Einar Oddur,” skrifar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Þórarinn V. Þórarinsson segir: “Hann … setti skoðanir sínar fram á skýran og eftirminnilegan hátt … og framsögnin þrungin sannfæringu.”

Þröstur Ólafsson orðar vel það sem virðist ekki síst vera galdurinn á bak við hið auðskiljanlega og hrífandi tungutak Einars Odds Kristjánssonar er hann skrifar: “Einar Oddur var óvenjulega skaprsyggn á aðalatriði og hafði hvatvíslegt og myndauðugt orðafar sem gerði það að verkum að allir hlustuðu á það sem hann hafði fram að færa. Hann var einarður og sannfærandi og sagði ætíð meiningu sína, þótt það kæmi stundum við kaunin á samferðamönnum hans.”

Það hefur verið fróðlegt að lesa minningargreinarnar um Einar Odd. Ég tók daginn snemma og fór fram þegar ég heyrði að Morgunblaðið var komið og hef lesið mikinn meirihluta minningargreinanna, a.m.k. hlaupið á langflestum þeirra.

Það vekur líka athygli hve vel pólitískir andstæðingar Einars Odds bera honum söguna og einnig þar er samhljómur. Vitnað er um drenglyndi hans, einlægni  og heiðarleika. Hægt hafi verið að deila við hann vegna þess að hann hafi aldrei erft það við fólk.

Margir hinna svokölluðu andstæðinga á hinum pólitíska vettvangi vitna um nána og persónulega vináttu við Einar Odd og mikið traust sem til hans var borið. Það á t.d. við um Guðna Ágústsson og Ágúst Einarsson sem segist hafa misst sinn besta vin.  “Hann var best menntaði maður sem ég hef hitt þótt hin formlega skólaganga hans væri ekki löng og hann var sá skarpasti í rökræðum,” skrifar Ágúst Einarsson ennfremur.

Við lestur greinanna fjölmörgu fer ekkert á milli mála að þjóðin hefur misst dáðan áhrifa- og forystumann sem sárt er saknað, ekki síst vegna þess að hann hafði annan framgangs- og tjáningamáta en fólk á að venjast.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-07-25/hann-taladi-thannig-ad-allir-skildu-af-minningarordunum-um-einar-odd/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli