gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Göng í Palestínu? · Heim · Jórsalaför 1939: Gyðingar – Arabar »

Húsafellsmyndir Ásgríms og hlutskipti fordæmdra og útvaldra

Gunnlaugur A. Jónsson @ 17.44 28/7/07

Það er vel þess virði að fá sér bíltúr til Keflavíkur og kíkja á sýningu á Húsafellsmyndum Ásgríms Jónssonar (1876-1958) sem nú stendur yfir í Duushúsum. Veitingastaðurinn við hliðina á sýningarsalnum eykur enn á réttlætingu bíltúrs af höfuðborgarsvæðinu og jafnvel fyrir fólk lengra að komið.

Þorbjörg, systir mín, mælti með þessari sýningu við mig og bauðst meira að segja til að verða mér samferða og sjá sýninguna öðru sinni ásamt sameiginlegri vinkonu okkar, Bambi Bixon frá New Haven, helsta hollvini guðfræðideildar sem ég hef stundum minnst á áður hér á vefsíðunni.

Ég renndi til Keflavíkur eftir hádegi í gær með þeim stöllum og sé ekki eftir heimsókninni. Það saman á við um þær. Sýningu Ásgríms var hrósað í hástert og fiskisúpunni á veitingastaðnum ekki síður svo og fiskiréttum öðrum sem boðið var upp á.

Bambi (Beatrice) Bixon er mjög áhugasöm um íslenska menningu og hún varð sem sé ekki fyrir vonbrigðum með sýninguna á Húsafellsmyndunum. Myndirnar eru úr eigu Listasafns Íslands og finnst mér til fyrirmyndar af safninu að lána myndir til sýningar í öðrum söfnum.

Það eru 24 myndir Ásgríms sem þarna eru sýndar, allar tengdar Húsafelli á einn eða annan hátt. Myndirnar verða að teljast dæmigerðar fyrir þennan einn af okkar ástælustu listmálurum og finnst manni mjög vel við hæfi að taka útlendinga með á sýningu eins og þessa. Þarna er um að ræða íslenska myndlist sem er sannarlega þess virði að sýna útlendingum – góð landkynning.

Ásgrímur dvaldist oft í Húsafelli og hreifst mjög af skóginum þar. Til er lýsing hans á trjánum í skóginum þar sem talar um geystisterk persónueinkenni þeirra.

Sum of þeim koma fyrir sjónir sem væru þau að yfirbugast af þjáningu, hrópuðu jafnvel á hjálp og var þá oft heilmikið rauðleitt í stofninum, eða líkt því sem blætt hefði úr þeim. Önnur tré, ef til vill á næstu grösum, teygðu mjúklega úr öllum greinum og brieddu sig móti sól og birtu. Þetta minnti mig iðulega á hlutskipti fordæmdra og útvaldra… Það var engu líkara en að allar hugsanlegar “manngerðir” ættu sér fulltrúa í þessum kostulega skógi þess vegna var hægt að sækja þangað óþrjótandi fyrirmyndir.

Ekki ónýtt að hafa skriflegar heimildir myndlistarmanna um hvernig þeir upplifa það sem þeir síðan festa á strigann. Um er að ræða ýmist olíu- eða vatnslitamyndir, þá elstu frá árinu 1915 og þá yngstu frá 1955.

Ég mæli eindregið með þessari sýningu!

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-07-28/husafellsmyndir-asgrims-og-hlutskipti-fordaemdra-og-utvaldra/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli