gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Húsafellsmyndir Ásgríms og hlutskipti fordæmdra og útvaldra · Heim · Selfoss heldur sínu striki »

Jórsalaför 1939: Gyðingar – Arabar

Gunnlaugur A. Jónsson @ 23.00 28/7/07

Bók guðfræðiprófessoranna Ásmundar Guðmundssonar (1888-1969) og Magnúsar Jónssonar (1887-1958) Jórsalaför. Ferðaminngar frá Landinu helga hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Læsileg bók og einkar fróðleg.

Bókin kom út árið 1940 og fjallaði um ferð sem þeir starfsbræðurnir fóru til Landsins helga árið áður, þ.e. sumarið 1939. Í þá daga var það sannarlega ekki vanalegt að Íslendingar ferðuðust til þessa heimshluta. Bardagar voru þá tíðir í landinu, eins og raunar oft síðar, og heimsstyrjöldin síðari var á næsta leiti.

Ég tók bókina fram eina ferðina enn á dögunum, svona í tilefni af heimsókn Ingibjargar Sólrúnar utanríkisráðherra á sömu slóðir, og kíkti á sitthvað sem þeir félagarnir hafa að segja er tengist þeim deilumálum sem svo mjög eru í deiglunni nú og hafa raunar verið um langt árabil.

Hér ætla ég ekki að gera neina úttekt á bókinni (ég mæli hins vegar með henni sem mjög fróðlegri og læsilegri) en nefni það sem mér virðist nokkuð gegnumgangandi í henni, þ.e. hvaða augum þeir líta Gyðinga og Araba. Eftirfarandi samanburður Magnúsar Jónssonar á systurborgunum Jaffa og Tel Aviv sýnist mér mjög dæmigerður (því mörg hliðstæð dæmi er að finna í bókinni):

Eg skal geta þess hér, að Jaffa og Tel Aviv eru í raun og veru sama borgin. Jaffa er gamla borgin, Joppe, hafnarbær Jerúsalem. Þar er hafnleysa, en bærinn stendur á hæð eða höfða við sjóinn og ber hátt.

Í Joppe var það, að Pétur vakti upp frá dauðum Tabítu eða Dorkas, er frá segir í Post. 9,36-42. Og hér var hann, í húsi Símonar sútara, er hann fékk sýnina miklu, hrein og óhrein dýr, er voru látin síga af himnum foan á dúk (Post. 10,9). Boðaði það skírn Kornelíusar í Sesareu.

Þessi gamla borg stendur hér enn og er í sama fari. En Tel Aviv er ný borg, reist af Gyðingum. Hófu þeir þessa starfsemi árið 1909, keyptu landsvæði á berum ströndum norður frá Jaffa og tóku að reisa þar bæ með nýju sniði. Jókst þessi bær jöfnum skrefum, þar er ófriðurinn mikli skall á. Þá ráku Tyrkir alla Gyðinga á brott úr Jaffa og Tel Aviv. En þeir komu aftur, er Englendingar höfðu náð landinu, og frá 1921 er Tel Aviv sérstök borg. Hún hefur aukizt aftur mikið á síðustu árum, og munu nú búa þar hátt á annað hundrað þúsund Gyðingar. Eru þeir að vonum upp með sér af þessu þrekvirki, að breyta auðum söndunum í glæsilega nútímaborg “með öllum þægindum” og eru meira að segja byrjaðir á hafnarvirkjum. En Jaffa stendur í stað. Sést á því munurinn á Gyðingum og Aröbum.  (MJ 1940, s. 16-17).

Mjög hliðstætt mat er að finna á bls. 268 (MJ) í sömu bók:

Höfðinn, sem Acre stendur á, myndast af lágum hálsum, sem ganga hér niður að ströndinni og takmarka Haífaflóann að norðan. En hálsarnir enda brátt, og tekur þá við slétta norður með sjónum. Þar eru Arabaþorp á víð og dreif, eins og leirrústir frá fornöld, en innan um þau eru Gyðingaþorp, hvít og ný, eins og komið væri til Evrópu nú á dögum. Allsstaðar er þessi mikli munur. Það er ekki mikill vandi að sjá hér um slóðir, hvar Arabar búa og hvar Gyðingar.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-07-28/jorsalafor-1939-gydingar-arabar/

Athugasemdir

Fjöldi 11, nýjasta neðst

Torfi Stefánsson @ 30/7/2007 13.06

Þetta er auðvitað sett fram til að sýna hve Gyðingar eru miklu merkilegra fólk en Arabar, ekki satt?
Gott væri nú að hafa Bréf til Láru við hendina og vitna í hana um guðfræðiprófessorinn og íhaldsmanninn, Magnús Jónsson, sem fjárfesti sem óður væri í verðbréfum á árunum (um 1925, fyrir hrunið mikla) við litla hrifningu meistara Þórbergs.
Nú þykir hins vegar ekkert tiltökumál þótt dagsins guðfræðiprófessorar geri slíkt, hvað þá að þeir vitni af velþóknun í “diskriminerande” orð frá miðri öldinni.

Gunnlaugur @ 30/7/2007 14.03

Bara svo það sé á hreinu sýra Torfi. Þá hef ég fyrir nokkru ákveðið að svara ekki athugasemdum þínum hér. Ekki minnist ég þess að hafa keypt verðbréf nokkru sinni á ævinni og ekki var ég heldur að taka afstöðu til ummælanna hér að ofan, þó bók þeirra félaga þyki mér almennt góð. Þú hefur í fyrri athugasemdum gengið út yfir öll velsæmismörk í dónaskap og svívirðingum og orðalagi sem t.d. vitnar um augljóst Gyðingahatur. Það væri létt verk og löðurmannlegt að sýna fram á það. Annars er ég á leið í sumarfrí á morgun svo þú verður að nota annan vettvang til að sannfæra lesendur annálsins um mannvonsku mína og að víkja beri mér úr starfi, eins og þú hefur lagt til. Vertu svo kært kvaddur. Þú mátt treysta því að ég svara þér ekki frekar. Þér er hins vegar velkomið að láta gamminn geisa hér sem fyrr.

Torfi Stefánsson @ 30/7/2007 17.53

Já það væri auðvitað létt verk og löðurmannlegt að sýna fram á gyðingahatur mitt, dónaskap og svívirðingar – og ekki síst ummæli mín um að víkja beri þér úr starfi!
En hvernig væri nú að þú gerðir það áður en þú ferð í fríið. Þetta eru nefnilega nokkuð alvarlegar ásakanir sem þú berð hér fram, minn kæri.

Og hvað á þetta ávarp “sýra Torfi” að þýða? Eru nokkuð að missa þig?
Það er nefnilega nokkuð langt frá é-inu og ý-inu á lyklaborðinu svo varla getur verið um innsláttarvillu að ræða.
Kannski gamlar fasistaaðferðir, sem þú lærðir af nasistunum félögum þínu í MR forðum daga, að setja fram dylgjur til að verja vondan málstað?

Carlos @ 31/7/2007 13.58

Ég held að þú ættir að láta kjurrt liggja Torfi, innlegg þín eru þér til ills vitnisburðar. Væri þetta annáll minn væri ég búinn að loka á þig fyrir munnsöfnuð.

Torfi Stefánsson @ 31/7/2007 19.28

Af hverju ætti ég að gera það Carlos? Sem betur fer er hér á annálnum enn viðhaft prent- og tjáningarfrelsi – og meðan svo er þá skrifa ég hér.
Ekki veit ég hvar þú ert í pólitík, en þegar svo hreinræktaður áróður fyrir gyðingum og Ísrael er settur fram hér þá mótmæli ég.
Ísrael, og stuðningur Vesturlanda við það ríki, hefur valdið nágrönnum þess það miklum þjáningum nú í yfir hálfa öld að það væri ófyrirgefanlegt að mótmæla ekki þeim skoðunum sem vilja viðhalda óbreyttu ástandi.

Nú síðast eru Bandaríkjamenn að lofa þessu ríki tugmilljarða hernaðaraðstoð aðeins nokkrum mánuðum eftir að Ísrael gerði stórfelldar loft- og stórskotaárásir á fullvalda ríki – og beindu skeytum sínum einkum á íbúðahverfi. Slíkt er gróft brot á þjóðarrétti og ætti að launast með algjöru vopnasölubanni á Ísrael en ekki hinu gagnstæða.

Gunnlaugur veit það vel að á meðan hann skrifar á þann hátt sem hann gerir hér á þessum vettvangi þá svara ég honum. Hættir hann því hér á annálnum þá hætti ég. Hvað hann skrifar á eigin bloggsíðu skipti ég mér ekki af. En á meðan hann skrifar svona hér þá svara ég.

Pétur Björgvin @ 31/7/2007 22.16

Torfi þetta ER bloggsíðan hans Gunnlaugs. Þú skrifar:

,,á meðan hann skrifar á þann hátt sem hann gerir hér á þessum vettvangi þá svara ég honum. Hættir hann því hér á annálnum þá hætti ég. Hvað hann skrifar á eigin bloggsíðu skipti ég mér ekki af. En á meðan hann skrifar svona hér þá svara ég.”

Ég skil ekki hvað þú átt við.

Árni Svanur @ 31/7/2007 23.35

Svo það sé alveg á hreinu þá vil ég ítreka það sem einn af aðstandendum annáls að það er okkar skilningur að hver annáll sé persónulegan vettvang annálaritarans – hann er „eigin“ annáll (og þar með bloggsíða) þess sem þar heldur á penna.

Torfi Stefánsson @ 1/8/2007 10.11

Ég lít einfaldega svo á að þetta sé opin umræðuvettvangur en ekki persónulegur vettvangur annálsritara. Það hefur og einmitt gert annálinn að því sem hann er, aðgengilegan og á köflum spennandi umræðuhorn. Ég vil benda á vantrúarmennina sem hafa notað hann óspart til að gagnrýna kristna trú og koma sínum eigin hugmyndum á framfæri. Það hefur yfirleitt lukkast vel og er nú svo komið að þeir eru með reglulegt innlit hér á annálinn og eru núna alveg eins sem kunningjar annálsritara en sem gagnrýnendur.
Þetta form er að minu mati til fyrirmyndar og fáránlegt að fara að “prívatisera” það.

Og fyrst tækifæri gefst þá finnst mér óviðeigiandi að sr. Örn Bárður sé að birta líkræður hér á annálnum. Hann hefur til þess heimasíðu Neskirkju og ætti að gera það í því umhverfi í virðingarskyni við þá látnu og aðstandendur þeirra. Ekki hér á annálnum þar sem ýmislegt er látið fjúka í hita leiksins.

Árni Svanur @ 1/8/2007 12.20

Það breytir litlu um það hvernig miðillinn er hugsaður, hér færa einstaklingar til annáls (blogga).

Carlos @ 2/8/2007 10.52

Torfi, þú getur stofnað þinn eigin annál á MBL og ef mig misminnir ekki hefur þér verið boðinn aðgangur hér á annall.is fyrir þitt eigið blogg. Þar geturðu sjálfur sett þína eigin ritstjórnarstefnu.

Þú kýst hinsvegar að ausa úr koppum og kirnum sálar þinnar á umræðusvæði annarra, óháð því hvert umræðuefnið er eins og nú, þegar þú ekki aðeinst hnýtir í Gunnlaug heldur líka Örn. Það gerir þig að trolli, en breytir engu um það hvað menn gera á bloggi sínu. Þinn er skaðinn, viljir þú prófílera þig sem kverúlant og frekjuhund.

Torfi Stefánsson @ 3/8/2007 11.03

Blessaður elskulegur Carlos. Ég skil ekki alveg hvað þú ert að skipta þér af því sem þér kemur ekki vid, þ.e. hvað eða hvernig ég skrifa. Það hlýtur jú að vera mitt einkamál. Sérstaklega undarleg er þessi tilraun þín til að ritstýra því sem ég skrifa en vilt svo sjálfur enga “ritstjórnarstefnu” hér á annálnum. En sem betur fer ræður þú engu hér og munt vonandi aldrei ráða neinu.

Ég gleymi því nefnilega ekki svo létt þegar þú heimtaðir á sínum tíma að ég yrði útilokaður frá skrifum á prestalistanum, fyrir það eitt að hafa leyft mér að stríða þér lítillega!
Rétt á eftir þessari framsettu kröfu þinni voru settar reglur um það að einungis prestafélagsmeðlimir mættu skrifa á listanum – og mér gert að fara að greiða félagsgjöld til að fá að vera þarna inni. Þrátt fyrir áköf mótmæli mín varð þetta samþykkt og þú gerður að umsjónarmanni listans í kjölfarið!

Já, ritskoðunin er víða, ekki síst innan kirkjunnar sem aldrei virðist ætla að læra að skoðanaskipti er eðlilegur þáttur nútíma samfélags. Mónólógur og ritskoðun er hlutur af löngu liðnum tíma – vona ég.


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli