gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Loks fagnað í Írak · Heim · Meistari Bergman allur »

Óvænt gyðingleg kveðja frá Dubrovnik

Gunnlaugur A. Jónsson @ 23.10 29/7/07

“Shalom from Dubrovnik.” – Þegar ég reis úr rekkju í morgun beið mín óvænt gyðinglega kveðja frá Dubrovnik í Króatíu.

Eiginkonan hafði farið í kvennaboð í familíunni í gærkvöldi og kom heim með fjölmörg kort merkt hinni gömlu sýnagógu í  Dubrovnik og gyðinglega kollhúfu (kippah) sem merkt var hinni útbreiddu “Chabad Lubavitch”-hreyfingu. Þetta beið mín í litlum áletruðum pakka á eldhúsborðinu í morgun.

Sendinguna átti ég að þakka góðum vini fjölskyldunnar úr læknastétt sem verið hafði á þingi í Dubrovnik á dögunum og hafði heimsótt hina merku sýnagógu þar í borg og hrifist mjög af. Svo elskulegur var hann að minnast mín og senda mér þessa kærkomnu kveðju.

Sýnagógan  í Dubrovnik er frá 14. öld en var endurbyggð í barokk-stíl á árunum 1652-1670.

Saga gyðingasamfélagsins í Dubrovnik er um margt athyglisvert en jafnframt að mörgu leyti dæmigerð fyrir gyðingasamfélög í Austur-Evrópu, ris þeirra, hnignun og oft á tíðum eyðingu.

 Samfélagið í Dubrovnik efldist mjög eftir brottrekstur Gyðinga frá Spáni árið 1492.

Fyrir heimsstyrjöldina síðari bjuggu þúsundir Gyðinga í Dubrovnik en nú munu þeir vera innan við 50 talsins.

Kærkomin var þessi óvænta sending sem orðið hefur til þess að ég hef í dag lesið mér nokkuð til um sögu Gyðinga í Króatíu og harma nú mest að sá staður hafi ekki orðið fyrir valinu sem sumarleyfisstaður. 

Endanleg ákvörðun um staðarval var nefnilega ekki tekin fyrr en í gær og þar er um að ræða stað sem engin sýngagóga er á.  Netsamband er hins vegar á þeim stað og trúlegt er að eitthvað sendi ég þaðan og hingað á vefsíðuna. En fyrst liggur leiðin til Kaupmannahafnar á þriðjudagsmorgun.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-07-29/ovaent-gydingleg-kvedja-fra-dubrovnik/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli