gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Erfiðasta orð sænskrar tungu sniðgengið · Heim · Vatnsburður upp Grindaskörð í þágu Bríetar »

Áhugavert Kirkjurit helgað Sigurbirni biskupi

Gunnlaugur A. Jónsson @ 15.10 15/8/07

Meðal þess sem beið mín í blaðabunka eftir hálfsmánaðarlanga dvöl mína erlendis var nýtt eintak af Kirkjuritinu. Það er rit er mér jafnan kært en þetta eintak er um margt óvenjulegt og áhugavert þar sem það er tileinkað dr. Sigurbirni Einarssyni biskupi, sem án nokkurs vafa er sá guðfræðingur íslenskur sem mest áhrif hefur haft á síðai hluta 20. aldar og allt fram á þennan dag.

Það er mikill fengur að því að í ritinu er að finna heildarritaskrá dr. Sigurbjörns og er hún ekki lítil að vöxtum. Það er Ragnhildur Bragadóttir, bókasafnsfræðingur og bókavörður biskupsstofu, sem tekið hefur skrána saman og Sigurbjörn síðan yfirfarið hana sjálfur og bætt ýmsu við. Þarna eru ekki aðeins skrár yfir ritsmíðar Sigurbjörns heldur einnig greinar um hann svo og ritdómar um ýmis verk hans. Það er ekki ónýtt fyrir fræðimenn framtíðarinnar að eiga aðgang að þessari vönduðu skrá.

Forvitnilegt er og að lesa viðtal útvarpsmannsins góðkunna Ævars Kjartanssonar við Sigurbjörn en eins og flestir vita hefur Ævar nú lokið embættisprófi í guðfræði og ber viðtalið þess merki. Hann er vel heima í efninu og spyr áhugaverðra spurninga. Svör hins aldna kennimanns eru með þeim hætti að ljóst er að honum hefur í engu förlast, talar af mikill þekkingu og meiri yfirsýn en nokkur annar guðfræðingur íslenskur hefur yfir að ráða. Svörin eru í anda prédikunar hans. Þau hitta í mark!

Viðtalið ber yfirskriftina “Að tengja saman vit og trú er enginn vandi.” Í umræðu um nýjar leiðir til boðunar kemst Sigurbjörn, eins og svo víða, vel að orði er hann segir: “En vandamálið mikla nú er hin slævða hlustun og athygli. Það er svo erfitt að fá raunverulega áheyrn vegna þess að skynfærum manna er ofboðið.” En stuttu síðar bætir hann við: “Allir erfiðleikar eiga að sjálfsögðu að verða brýning, hvatning og köllun.”

Ekki er ætlunin að fara að skrifa einhvers konar ritdóm um Kirkjuritið hér heldur aðeins að vekja athygli á hinu áhugaverða efni þess. Sjálfum fannst mér mjög gaman að lesa stutta grein Guðrúnar Helgadóttur rithöfundar um Sigurbjörn. Þar segir m.a. frá því er hún ung stúlka, þrettán ára að aldri,  gekk á hans fund. Hún var í leit að útgefanda þó ekki bæri það árangur í þetta sinn en Sigubjörn tók henni vel.

“Hann tók mér svo ljúfmannlega að ég róaðist fljótlega. Hann var bæði góður og fallegur. Mér fannst ég aldrei hafa séð fallegri mann,” skrifar barnabókahöfundurinn ástsæli Guðrún Helgadóttir.

Hér er líka að finna mjög læsilega grein dr. Sigurðar Árna Þórðarsonar sem hann nefnir “Barnasókn biskupsins.” Þar er að finna mjög áhugaverða greiningu Sigurðar, sem sjálfur er örugglega í hópi okkar bestu prédikara nú um stundir, á prédikunum dr. Sigurbjörns biskups.

Dr. Margrét Eggertsdóttir skrifar sömuleiðis fróðlega grein um sálmaskáldið Sigurbjörn Einarsson og dr. Svanur Kristjánsson skrifar grein um Sigurbjörn og pólitíkina. Í niðurlagi þeirrar greinar kemst Svanur þannig að orði:

“Kristin orðræða að hætti dr. Sigurbjarnar á nefnilega brýnt erindi við okkar samtíma. Ekki til að sundra okkur heldur til að minna okkur á hvað við viljum og eigum að vera: Land lifandi lýðræðis, þar sem valdhafar fara með vald sitt af varfærni og virðingu fyrir þjóðarvilja. Stjórnmál eiga einmitt að vera vettvangur, þar sem draumar landsins rætast.”

Fjögur erindanna sem hér eru birt voru flutt á dagskrá í Grafravogskirkju síðastliðið haust og henni missti ég af þar sem ég var erlendis. Þeim mun ánægjulegra finnst mér af fá nú aðgang að þeim í læsilegum búningi Kirkjuritsins.

Sannarlega áhugavert rit sem ég hvet lesendur þessar færslu til að kynna sér.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-08-15/ahugavert-kirkjurit-helgad-sigurbirni-biskupi/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Glúmur Gylfason @ 24/8/2007 00.55

Seinlegur lestur. Gullkornin svo þétt. Að hraðlesa væri eins og að kokgleypa sætindi.


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli