gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Fyrrverandi ráðherra í Strandarkirkjugöngu · Heim · Á leið til fyrirheitna landsins »

Um upphaf kennslu í gamlatestamentisfræðum í haust

Gunnlaugur A. Jónsson @ 15.40 27/8/07

Haustmisserið í guðfræðideild hefst með samveru kennara og nemenda mánudaginn 3. september og kennsla hefst síðan daginn eftir samkvæmt stundaskrá. Sjálfur verð ég á leið til landsins á mánudaginn úr vinnuferð erlendis og hef fengið leyfi deildarforseta til að vera fjarstaddur er kynningarfundurinn fer fram.

Kennsla mín í námskeiðinu Saga, bókmenntir og þjóðfélag  Hebrea hefst á miðvikudag 5. sept. og heldur síðan áfram á föstud. 7. sept. Námskeiðið guðfræði Gamla testamentisins hefst fimmtudaginn 6. sept.

Í fyrrnefnda námskeiðinu verður stuðst við aðrar kennslubækur en undanfarin ár. Til grundvallar kennslunni verða lagðar tvær bækur auk efnis frá kennara. Annars vegar er um að ræða bók Englendinganna John Rogerson  og Philip Davies, The Old Testament World  og hins vegar bók bandaríska fornleifafræðingsins William G. Dever, Who Were the Early Israelites and Where Did They Come From?

Er það bók sem hlotið hefur mjög góða dóma og gegnir stóru hlutverki í þeirri miklu umræðu sem orðið hefur á liðnum árum um uppruna hins forna Ísraels. Dever skrifar mjög læsilegan texta og tekst af einurð við ýmsar nýjar hugmyndir í þessum efnum og afgreiðir sumar þeirra á þann hátt að líkt hefur verið við rothögg hnefaleikakappans Mike Tyson. Sjálfur setur Dever fram sínar eigin kenningar byggðar á áratugalöngum fornleifafræðirannsóknum í Landinu helga.

Fornleifafræðin mun þannig hljóta meira vægi í þessu námskeiði en verið hefur. En eins og jafnan í minni kennslu mun áhrifasaga textanna eða viðtökur þeirra, svo notað sé það hugtak sem bókmenntafræðingar nota, einnig hljóta sinn verðuga sess, svo og kynning á uppruna og innihaldi einstakra rita og kenningum um myndarsögu ritsafnsins og einstakra hluta þess.

Í námskeiðinu um guðfræði Gamla testamentisins verður eins og nokkur undanfarin ár stuðst við bók Walter Brueggemans, kunnasta Gt-fræðingsins Bandaríkjanna á síðari árum, Old Testament Theology.

Það er tilhlökkunarefni að hefja kennslu á nýju misseri með að nokkru leyti breyttar áherslur.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-08-27/um-upphaf-kennslu-i-gamlatestamentisfraedum-i-haust/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli