gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Glæsimark Emils gegn Spánverjum · Heim · Schweitzer um menningastig þjóðfélags »

Nefnifallið Jesús og auglýsing Símans

Gunnlaugur A. Jónsson @ 21.29 10/9/07

Ýmsir hafa orðið til að spyrja mig álits á margumræddri auglýsingu sem Jón Gnarr gerði fyrir Símann út af kvöldmáltíðarstefi kristninnar. Ég hef sagt sem svo að ég sé mikill áhugamaður um áhrifasögu Biblíunnar og finnist margvísleg notkun hennar áhugaverð til skoðunar. Þessi auglýsing hafi hvorki truflað mig né misboðið trú minni en vissulega vakið mig til umhugsunar.

Ég hef frekar haft tilhneigingu til að skoða hana í samhengi við fjölmargar kvikmyndir um ævi Jesú Krists. Þar kenndir jú ýmissa grasa, eins og áhugafólk um kvikmyndir þekkir, og margt á því sviði sem valdið hefur mörgu trúuðu fólki sárindum.

Þó að fyrstu viðbrögð mín hafi orðið þau ein sem að ofan greinir þýðir það að sjálfsögðu ekki að mér sé ómögulegt að setja mig í spor þess fólks sem segir það særa trúartilfinningu sína þegar eitthvað það allra helgasta í kristinni trú er á þennan hátt nýtt í auglýsingaskyni. Ég get svo sannarlega skilið að mörgum verði þannig innanbrjósts. En þannig fór mér sem sé ekki og finnst mér gott að sjá að viðbrögð talsmanna kirkjunnar hafa verið jafn hófstillt og raun ber vitni. Menn hafa ýmsir hverjir tjáð óánægu sína með auglýsinguna en yfirleitt með yfirveguðu orðalagi og látið þar við sitja. Það finnst mér gott.

Ég veit að gríðarlegur fjöldi fólks hringdi á Biskupsstofu til að tjá óánægju sína og að biskup sendi ekki frá sér yfirlýsingu heldur svaraði einfaldlega spurningum fjölmiðla sem spurðu hann álits á auglýsingunni og því svari frá talsmönnum Símans að biskup hefði verið búinn að leggja blessun sína yfir auglýsinguna. Það hafði hann ekki gert.

Í allri þeirri miklu umræðu sem orðið hefur um auglýsinguna hef ég ekki orðið þess var að neinn hafi vakið athygli á því að þegar nafn Jesú (ef.) birtist á myndsímanum í auglýsingunni og á augljóslega að standa í nefnifalli þá stendur ekki Jesús, svo sem rétt er, heldur Jesú. Væntanlega er það ávarpsfallið gamla sem þarna hefur eina ferðina enn villt um fyrir einhverjum.

Hin viðtekna beyging nafnsins er: Jesús, um Jesú, frá Jesú til Jesú. Ég veit að menn deila um ýmislegt í þessari beygingu, sumir vilja halda í latneska þolfallið (accusativus) Jesúm og sjálfur er ég meðal þeirra sem gjarnan vilja sjá ávarpsfallið Jesú þar sem það á við, en næsta óumdeild er að hið rétta nefnifall er Jesús.

Ekki missti ég þó svefn vegna þessa frekar en vegna auglýsingarinnar yfirleitt en nefni þetta ef það mætti verða til að minna einhverja á hver er hin hefðbunda íslenska mynd á nafni frelsarans. Hætt er við að auglýsingin margspilaða verði til að rugla einhverja ennfrekar í ríminu þegar kemur að beygingu á nafni frelsarans.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-09-10/nefnifallid-jesus-og-auglysing-simans/

Athugasemdir

Fjöldi 2, nýjasta neðst

Glúmur Gylfason @ 12/9/2007 23.12

Til eru þeir sem voru viðkvæmari fyrir “myndbirtingu” af Steingrími Joð í kosningabaráttunni heldur en glannaskap Gnarrs með heilaga kvöldmáltíð. Líklega þ. m. t. hann sjálfur, rauði stoppkallinn.

Eva @ 14/9/2007 15.30

Það er nú reyndar ekkert í þessari auglýsingu sem gerir lítið úr Jesússi eða hans boðskap. Auglýsing Framsóknarflokksins var hins vegar gróf, persónuleg árás á Steingrím.

Mér finnst auglýsingin út af fyrir sig bráðskemmtileg en hitt er svo annað mál að ég er ekki hrifin af því að nota trúarbrögð, goðsagnir eða þekkt listaverk í þeim tilgangi að selja vöru.


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli