gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Nefnifallið Jesús og auglýsing Símans · Heim · 60 ára afmælisgjöf knattspyrnuliðs Selfoss »

Schweitzer um menningastig þjóðfélags

Gunnlaugur A. Jónsson @ 06.49 11/9/07

“Albert Scheitzer sagði eitt sinn að mælikvarðinn á menningarstig hvers þjóðfélags væri í beinu hlutfalli við þá tillitssemi og virðingu sem þjóðfélagið auðsýndi eldri kynslóðinni.”

Þannig er komist að orði í ágætri grein í Morgunblaðinu í dag (bls. 25) undir fyrirsögninni: “Eru eldri borgarar óvelkomnir í íslensku þjóðfélagi?”

Höfundurinn, Ester Vagnsdóttir frá Akureyri, sýnir með dæmi úr er eigin lífi hversu bágborin eru kjör eldri borgara  sem búa aðeins við greiðslu frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóði.

Greinin er áfellisdómur yfir íslensku samfélagi og orð í tíma töluð.

Það var við hæfi að vitna í guðfræðinginn, lækninn, tónsnillinginn, kristniboðann og mannvininn Albert Scheiwtzer (1875-1965) í þessu sambandi. Kannski var það táknrænt að í spurningakeppni framhaldsskólanna í fyrra gátu keppendurnir ungu – sem vöktu þó aðdáun fyrir mikla og gríðarlega fjölbreytilega þekkingu sína – ekki svarað því hver Albert Schweitzer var. Æskudýrkun setur mark sitt á íslenskt þjóðfélag.

Í sögu biblíufræðanna er Schweitzers einkum minnst fyrir bók sína um leitina að hinum sögulega Jesú (1906). Hann starfaði lengst af sem kristniboði og læknir í Afríku, stofnaði víðfrægt sjúkrahús í Lambaréné árið 1913 í landi því sem nú heitir Gabon. Þekktur varð hann m.a. fyrir virðingu sína fyrir öllu lífi.

Schweitzer hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1953. Dr. Sigurbjörn Einarsson biskup hefur skrifað ævisögu hans á íslensku (1955).

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-09-11/schweitzer-um-menningastig-thjodfelags/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli