gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Af sóttarsæng í kveðjumessu hjá sr. Jakobi Ágústi · Heim · Frábærir Klezmertónleikar Fílharmóníu og Ragnheiðar Gröndal »

Gengið í minningu Prestaskólans

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.08 3/10/07

Í gær voru liðin 160 ár frá stofnun Prestaskólans. Af því tilefni fengu kennarar guðfræðideildar ásamt hópi nemenda sér göngutúr niður í bæ á söguslóðir Prestaskólans. Kristín Ingólfsdóttir rektor var svo elskuleg að slást í för með okkur.

Leiðsögumaður var dr. Hjalti Hugason deildarforseti sem er manna best að sér í sögu skólans enda fjallaði doktorsritgerð hans um forvera Prestaskólans, þ.e. Bessastaðaskólann sem var sannarlega vísir að Prestaskólanum.

Þetta var hressandi ganga, ánægjuleg og fróðleg og á deildarforseti hrós skilið fyrir frumkvæðið ekki síður en framkvæmdina.

Fyrst var gengið niður að MR og komið saman á sal þar sem Prestaskólinn var settur í fyrsta sinn 2. október 1847 og gerði deildarforseti grein fyrir því í stuttu en hnitmiðuðu máli.  Síðan lá leiðin að Hafnarstræti 22 þar sem skólinn fékk inni um skeið en húsið sem hann stóð í hvarf árið 1977.

1873 var Prestaskólinn fluttur í Austurstræti 22 og var þar til 1911. Þar staðnæmdist hópurinn við brunarústirnar um leið og Hjalti deildarforseti hélt áfram frásögn sinni. En húsið varð – eins og allir vita – eldi að bráð í apríl síðastliðnum.

Fjórði áfangastaðurinn var Alþingishúsið en þar var Háskóli Íslands stofnaður 17. júní 1911 og tók til starfa í Alþingishúsinu. Guðfræðideildin var í einu herbergi hússins þar sem síðar var flokksherbergi Alþýðuflokks en Vinstri græn hafa nú til umráða.

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, fræddi okkur um þenan þátt í sögu Alþingis á skýran og ljóslifandi hátt.

Sjálfur kíkti ég inn í fundarherbergi Framsóknarmanna vegna þess  að þar hangir á vegg mynd af Sigvalda Kaldalóns afa mínum, lækni og tónskáldi, sem þó var aldrei þingmaður en kom nokkuð við sögu Framsóknarflokksins.

Allt var þetta einkar ánægjulegt og fróðlegt og mikilvægt fyrir deild eins og guðfræðideildina að vita hvar rætur hennar liggja og draga af því ályktanir.

Að lokinni þessari dagskrá komu kennarar og fulltrúar nemenda á deildarfundi saman á kirkjulofti í Dómkirkjunni . Þar var mættur hr. Karl Sigurbjörnsson biskup og fleira fólk af Biskupsstofu svo og sr. Hjálmar Jónsson Dómkirkjuprestur. Þar nutu menn kaffiveitinga í boði Dómkirkjusafnaðarins um leið og umræður fóru fram um framtíð prests- og djáknamenntunar. Dagskráin hafði farið nokkuð fram úr áætlun og urðu umræður ekki langar en gagnlegar engu að síður.

Nú þegar miklar breytingar eru fyrirhugaðar á stöðu guðfræðideildar innan Háskóla Íslands er mikilvægt að rifja rækilega upp sögu guðfræðideildar og hversu drjúgan heimanmund Prestaskólinn lagði til við stofnun Háskóla Íslands og var að mörgu leyti kjölfestan við stofnun hans. Á það lagði Karl Sigurbjörnsson biskup áherslu í ávarpi sem hann flutti á samverunni með okkur í Dómkirkjunni í gær.

Sem sé: Einkar fróðlegt ganga og áhugaverð sem skilaði ýmsum fóðleik sem vekur til umhugsunar um stöðu guðfræðideildar sem jafnan er talin elst deilda Háskólans vegna þess að Prestaskólinn var elstur embættismannaskólans sem runnu inn í hann við stofnun skólans 1911.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-10-03/gengid-i-minningu-prestaskolans/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli